Sóknargjöld, kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 11:03:22 (2109)

1997-12-13 11:03:22# 122. lþ. 42.4 fundur 312. mál: #A sóknargjöld, kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (millifærsla gjalda) frv. 124/1997, GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[11:03]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir flest það sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Það er tvennt sem ég vildi leggja áherslu á að þó að vissulega hafi orðið sprenging, ef maður má orða svo, í störfum Kirkjugarða Reykjavíkur þá skulum við heldur ekki gleyma því að litlu sóknirnar úti á landi, þar sem eru gamlir kirkjugarðar og kannski jarðsett er mjög sjaldan, eru auðvitað ekki síður í vandræðum með að halda sínum görðum við og ég tek undir það með hv. þm. að það er auðvitað sómi að því að hafa þennan síðasta hvílustað okkar snyrtilegan og vel hirtan. Við skulum því ekki gleyma því að ástæðan fyrir þeim breytingum á hlutfalli kirkjugarðanna er ekki síður til þess að hlúa að litlu kirkjugörðunum víða um landið.

Hæstv. forseti. Það er dálítið sérkennilegt að þessi þáttur samfélagsins geti treyst því að verði hækkun á meðaltekjuskattstofni einstaklinga sem nú er talinn hafa verið um 7% á árinu 1997 --- nú kemur í ljós að það er líklega 7,6% --- að þá hækki gjöldin um sömu prósentu. Ég hygg að ýmis svið þjóðfélagsins þættust góð ef þau gætu treyst slíku framlagi hvenær sem velta eykst í samfélaginu. En að öðru leyti styð ég að sjálfsögðu þetta frv. og vil leggja á það áherslu að hið háa Alþingi skoði við tækifæri lög um sóknargjöld.