Fjárlög 1998

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 14:01:20 (2121)

1997-12-13 14:01:20# 122. lþ. 42.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[14:01]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Áður en atkvæðagreiðslan hefst er rétt að skýra frá tilhögun atkvæðagreiðslunnar en hún er að nokkru leyti öðruvísi en var í fyrra vegna þess að framsetning fjárlagafrv. er nú með nýju sniði eins og kunnugt er.

Fyrst verða greidd atkvæði um sundurliðanir sem merktar eru 1--4 í frv. og eru meginbálkur þess, á bls. 77--273 í frv. Fyrirferðamest er sundurliðun 2 sem er samhljóða því sem áður var kallað 4. gr. fjárlagafrv. og eru allar breytingartillögur við 2. umr. nema ein við þessa sundurliðun 2, um fjármál ríkisaðila í A-hluta. Sundurliðun 1 sem fyrsta atkvæðagreiðslan snýst um svarar til þess sem áður var 3. gr., tekjugrein frv., en sundurliðun 3 og 4 svara til 5. gr. Þetta fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar helgast af því að breytingar á sundurliðunum hafa áhrif á sumar lagagreinar frv.

Síðan verða greidd atkvæði um lagagreinarnar, 1.--7. gr., og loks um séryfirlit 1--3 sem eru ekki sjálfstæðar heimildir heldur yfirlitstöflur en eru engu að síður hluti lagatextans. Það er á bls. 274--280 í frv.

Eins og þingmenn hafa séð er uppsetning breytingartillagna líka öðruvísi en áður. Nú eru þrír töludálkar. Sá fyrsti sýnir þá tölu sem er í frv., næsti breytingu á fjárhæð og sá þriðji, lengst til hægri, sýnir nýja tillögu. Ástæða er til að vekja athygli á þessu vegna þess að yfirskriftin yfir dálkana er ekki í atkvæðagreiðsluskjalinu sem þingmenn hafa á borðum sínum. Að öðru leyti er reynt að haga atkvæðagreiðslunni eins og þingmenn eiga að venjast. Þannig eru hinir svokölluðu safnliðir, sem nefndir þingsins hafa verið að skipta, og heita raunar sérstök yfirlit II í breytingartillögunum, bornir upp með viðkomandi fjárlagalið eins og verið hefur.

Þessum skýringum hefur verið dreift á borð hv. þingmanna.