Fjárlög 1998

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 14:47:34 (2142)

1997-12-13 14:47:34# 122. lþ. 42.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[14:47]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég tek eftir því að menn eru að sjálfsögðu búnir að greiða atkvæði áður en atkvæðaskýring er gefin. Menn þurfa ekki að hlusta á nein rök, menn fara bara eftir tilskipunum frá ríkisstjórninni. Þetta er umhugsunarefni.

Fyrir Alþingi liggur frv. til laga, hæstv. forseti, þar sem gert er ráð fyrir að draga úr kostnaði elli- og örorkulífeyrisþega við tannlæknakostnað, en þess eru dæmi síðan farið var að skerða framlög til þessa málaflokks fyrr á þessum áratug að efnalítið fólk, lífeyrisþegar og öryrkjar, hafi ekki tök á því að leita sér lækninga á þessu sviði. Með breytingum í umræddu frv. yrði dregið úr jaðaráhrifum innan almannatryggingakerfisins gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum. En í umræddu frv. er einnig gert ráð fyrir breytingum á aldursviðmiðunum unglinga barnafólki í hag. Aukið framlag til þessa málaflokks sem hér er verið að leggja til mundi stórlega draga úr tilkostnaði skattborgara þegar fram líða stundir.

(Forseti (ÓE): Forseti vekur athygli á því vegna orða hv. þm. að umræðunni er lokið og þingmenn gera grein fyrir atkvæði sínu þegar þeir koma í ræðustól.)