Fjárlög 1998

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 15:05:16 (2154)

1997-12-13 15:05:16# 122. lþ. 42.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, GHelg (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[15:05]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég styð að sjálfsögðu að Ríkisspítalarnir fái 25 millj. kr. hækkun með þessari brtt. en ég harma tilefnið sem er það að til stendur að leggja niður meðferðarheimilið á Kleifarvegi fyrir geðveik börn sem Borgarspítalinn eða Sjúkrahús Reykjavíkur hefur rekið og sameina það barnageðdeildinni á Dalbraut. Ég held að afar illa sé að verki staðið og skaði heimilinu að Kleifarvegi. Hús þetta var á sínum tíma gefið sérstaklega til þessarar starfsemi. Þar hafa dvalist 6--7 börn í einu og rekstrarkostnaður við það hefur verið um 23 millj. á ári sem er afar góður rekstur. Árangur hefur verið dæmalaus enda starfslið þar með ágætum. Ég held að þetta sé eitt af þeim atriðum sem verið er að fást við í heilbrigðiskerfinu sem kemur engum til góða. Ég er á móti þessari aðgerð en mér er ljóst að kominn er samningur milli Reykjavíkurborgar og ríkisins og ég ætla ekki að setja mig á móti því að Ríkipsspítalarnir fái 25 millj. kr. Þeir hafa nóg að gera við það en ég harma tilefnið.