Fjárlög 1998

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 15:44:45 (2181)

1997-12-13 15:44:45# 122. lþ. 42.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[15:44]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við þingmenn í kjördæmum fáum það hlutverk að setjast niður og skoða hvernig best sé varið vegafé hverju sinni. Okkar kjördæmi, Reykjaneskjördæmi, hefur það verkefni að sjá til þess að allir höfuðborgarbúar komist út úr höfuðborginni og allir sem á þurfa að halda komist skikkanlega á flugvöllinn.

Við höfum haft áhyggjur af því að ýmislegt sem þarf að gerast í okkar kjördæmi t.d. verði ekki gert nema með sérstöku fjármagni vegna þess hve vegafé er takmarkað. Auðvitað hefur ekki fengist sérstakt fjármagn en nú gerist það líka að svo stórfelld skerðing er á vegafé að hefðbundin verkefni nást varla, hvað þá heldur að hægt sé að horfa til framtíðar og gera eitthvað í framtíðinni í brýnum málum. Það er ekki að undra að tillögur okkar hér áðan um undirbúning að tvöföldun Reykjanesbrautar væri felld. En ég hef áhyggjur af því, virðulegi forseti, hvernig horfir í samgöngumálum með því hugarfari sem ríkir hjá ríkisstjórninni. Ég segi já.