Fjárlög 1998

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 16:03:08 (2189)

1997-12-13 16:03:08# 122. lþ. 42.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[16:03]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég man ekki eftir neinum fjárlögum í tíð þessar ríkisstjórnar að ekki væru ætlaðar milljónir á milljónir ofan til þess að standa straum af kostnaði við einkavæðingarsveit ríkisstjórnarinnar. Núna eru það 15 millj. og eflaust verða það fleiri milljónir eða milljónatugir í næstu fjáraukalögum og síðan fjárlögum og þannig mun það ganga áfram á meðan þjóðin situr uppi með þessa ríkisstjórn. Auðvitað má til sanns vegar færa að þörf er á þessum peningum til að standa straum af þóknunum og öllum veisluhöldunum, nú síðast dýrindis boði í Perlunni. Þar var heiðursgestur Vaclav Klaus, sá hinn sami og undanfarna daga hefur verið á forsíðum heimsblaðanna í tengslum við spillingu. Og hver var sú spilling? Að sjálfsögðu einkavæðing. Það kemur að sjálfsögðu að því að menn þurfa að greiða fyrir mistökin og menn þurfa að greiða fyrir öll veisluhöldin því að það er alveg rétt hjá hugmyndafræðingi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, hugmyndafræðingi ráðherranna sem hér sitja að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. (Forseti hringir.) Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson sá ástæðu til að skrifa heila bók um efnið. Það sem verst er er að skattborgarinn verður að greiða fyrir þetta nauðugur viljugur og við erum að reyna að koma í veg fyrir að hann þurfi þess.