Fæðingarorlof

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 16:57:24 (2197)

1997-12-13 16:57:24# 122. lþ. 42.13 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[16:57]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að vekja athygli á því að frv. því um breytingu á lagaákvæðum um fæðingarorlof sem hér er til umræðu, var breytt í þinginu fyrir nokkrum dögum. Fyrir meira en mánuði síðan dreifði sú sem hér stendur frv. hér í þinginu sem enn er ekki komið til 1. umr. Þetta er enn eitt dæmið sem sýnir mismuninn á framgöngu stjórnarþingmála hér í þinginu og þingmannamála. Frv. sem ég nefndi flytjum við kvennalistakonur ásamt fulltrúum úr stjórnarandstöðuflokkunum.

Samt sem áður vil ég fagna því litla hænufeti sem fram kemur í því frv. sem hér er til umræðu, um leið ég geri athugasemdir við þann hátt sem ríkisstjórnin hefur á. Tekið er eitt og eitt stutt skref í einu og í því sambandi vil ég minna á þær breytingar sem gerðar voru á vorþingi 1997 þegar smávægilegar lagfæringar voru gerðar á réttarstöðu fleirburaforeldra.

Frv. það sem hér er til umræðu er athyglisvert vegna þess að með því er verið að koma lagastoð undir fréttatilkynningu sem fjmrh. sendi frá sér fyrir nokkrum mánuðum. Svo virtist alla vega í fyrstu. Fjmrh. sagði með tilkynningu nr. 13/1997 að hann hygðist greiða tveggja vikna fæðingarorlof til feðra. (JóhS: Það var til opinberra starfsmanna. Þetta er almenni markaðurinn.) Þetta er almenni markaðurinn. Er það alveg óskylt? (JóhS: Já.) Ég vildi gjarnan spyrja heilbrrh. að því hvort þarna sé samband á milli því að ég taldi að þetta væri bæði fyrir almenna markaðinn og ríkisgeirann. Ég vil spyrja ráðherrann hvort það er misskilningur hjá mér. Það er gott að þetta á við almenna markaðinn, sé það alveg hrein viðbót. Þó er athyglisvert að þarna kemur fram sami mismunurinn á fjármögnun fæðingarorlofs ríkisstarfsmanna. Sú fjármögnun sem hér er lögð til er eingöngu fæðingarstyrkur og dagpeningar en samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins var átt við full laun eins og ríkisstarfsmenn hafa. Þannig virðist ætlunin að halda þessum mismun áfram.

[17:00]

Þetta frv. og það sem hæstv. heilbrrh. kom með á síðasta þingi sýna mér að það er mjög mikilvægt að við stjórnarandstöðuþingmenn flytjum þingmál eins og t.d. um fæðingarorlof. Við kvennalistakonur höfum komið með mál hér allt frá 1983 um fæðingarorlof og á árunum 1983--1987 fluttu kvennalistakonur í þrígang frumvörp um að lengja fæðingarorlof úr þremur mánuðum í sex. Það fékkst ekki samþykkt. En árið 1987 samþykkti ríkisstjórnin hins vegar að lengja orlofið í sex mánuði. Síðan lögðum við kvennalistakonur á árunum 1990--1994 fram frumvörp um að lengja fæðingarorlofið í níu mánuði og núna síðast höfum við lagt til að það verði lengt í 12 mánuði. En engin slík áform hafa sést hjá ríkisstjórninni enn þá og fróðlegt verður að vita hvort von er á þeim.

Eins má benda á að árið 1993--1994 lagði Jóhanna Sigurðardóttir fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin skipaði nefnd til að endurskoða lög og reglugerðir um fæðingarorlof þar sem m.a. átti að huga að rétti feðra og lengingu fæðingarorlofs í áföngum. Árin 1995 og 1996 lögðu Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon fram tillögu til þingsályktunar um tveggja vikna fæðinarorlof feðra á launum. Árið 1995 lagði sú sem hér stendur og fleiri kvennalistakonur fram tillögu til þingsályktunar um fæðingarorlof. Þar voru lagðar til verulegar breytingar á fæðingarorlofslögunum með eftirfarandi markmið í huga auk þess sem hér er lagt til að feður fái fæðingarorlof í tvær vikur eftir fæðingu barns. M.a. var mælst til þess að tryggja feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í þrjá mánuði, að tryggja ungbörnum umönnun beggja foreldra á fyrsta æviárinu með því að lengja fæðingarorlof í tólf mánuði, að gera foreldrum kleift að taka fæðingarorlofið á lengri tíma með hlutagreiðslum að eigin vali, að tryggja öllum mæðrum hvíldartíma fyrir fæðingu, að endurskoða fjármögnun fæðingarorlofs þannig að stofnaður verði sérstakur fæðingarorlofssjóður sem allir atvinnurekendur, jafnt í opinberum rekstri og aðrir, greiði í og að allir fái því jafnari greiðslur út úr honum sem samsvari launum á vinnumarkaði.

Það frv. sem við kvennalistakonur ásamt fleiri stjórnarandstöðuþingmönnum höfum nú lagt fram tekur á öllum þessum atriðum og það eru mikil vonbrigði að ekki skuli gerð nein tilraun hér til þess að stokka upp þessa fjármögnun því að það er alveg ljóst að það er grundvallaratriði að laun fólks séu ekki skert í fæðingarorlofi. Ég tel að það sé sérstaklega mikilvægt fyrir feður og það verður mjög fróðlegt að athuga hve margir feður koma til með að nýta sér þetta tveggja vikna fæðingarorlof sem bundið er við fyrstu vikurnar í ævi barnsins sem er mjög gott mál svo langt sem það nær. En þetta kostar feður verulega launaskerðingu. Þetta þýðir að þeir verða á um það bil 60 þús. kr. mánaðarlaunum, u.þ.b. 30--40 þúsund fyrir þessar tvær vikur sem auðvitað er veruleg tekjuskerðing fyrir flesta feður á almennum vinnumarkaði. Ég tel að þetta kerfi gangi hreinlega ekki upp, allra síst ef það á að gefa feðrum raunverulega sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs umfram þessar tvær vikur, þá sýnir reynslan erlendis frá að feður taka eingöngu þetta orlof ef það er skilyrt við þá, þ.e. það falli niður nema þeir taki það sjálfir og þá hafa greiðslurnar veruleg áhrif á það hvort þeir nýta þennan rétt eða ekki. Það eru mér mikil vonbrigði að hér skuli tekið svona lítið skref. Það eru aðeins tvær vikur og það er engin uppstokkun á fjármögnuninni. Það mun áfram vera mismunun á milli launþega úti á almennum vinnumarkaði og ríkisstarfsmanna. En ég tel að fólk eigi að fá, eins og kemur fram í okkar frv., full laun í fæðingarorlofi.

Hæstv. forseti. Ég mun bíða með að ræða efnislega þetta mál þangað til frv. okkar kvennalistakvenna kemur til umræðu. Þetta frv. er eitt lítið skref og ég fagna því vissulega. Að lokum spyr ég hæstv. heilbrrh. hvort ekki standi til að gera róttækari breytingar á lögum um fæðingarorlof, breytingar í þá átt að lengja fæðingarorlofið, að veita feðrum a.m.k. þriggja mánaða sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs og að stíga þau skref sem gera það mögulegt að fólk fái full laun í fæðingarorlofi.