Fæðingarorlof

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 17:17:15 (2200)

1997-12-13 17:17:15# 122. lþ. 42.13 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:17]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Á undanförnum þingum höfum við flutt till. til þál., hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og sá sem hér stendur, þar sem segir að Alþingi skuli stefna að því að endurskoða lög um fæðingarorlof þar sem feðrum verði tryggður sjálfstæður réttur og eru þar nefndar tvær vikur. Aðrir þingmenn hafa lagt fram tillögur svipaðs efnis og sumar sem ganga enn lengra. Ég nefni þar Kvennalistann í því sambandi. Ég tel að hér sé að koma fram árangurinn af þessari áralöngu baráttu og ég vil sérstaklega fagna því skrefi sem er stigið með þessu lagafrv.

Það er mjög mikilvægt að tryggja barni rétt til samvista við föður, ekki aðeins móður, á fyrsta æviskeiðinu. Það er réttur barnsins að fá að mynda náin tengsl við báða foreldra sína á fyrstu dögum og vikum ævi sinnar. Fram til þessa hafa feður verið afskiptir hvað varðar samskipti við börn sín og liggja til þess margar skýringar. Með tveggja vikna orlofi eftir fæðingu er stuðlað að því að fjölskyldan geti verið saman. Ég leyfi mér nú að lýsa yfir ákveðnum efasemdum um þær hugmyndir sem fram komu hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal um vaktaskipti fjölskyldunnar nema komin sé fram ný kenning um að þannig megi halda fjölskyldunni saman að fjölskyldumeðlimir sjáist aldrei. Ég held að það eigi að reyna að stuðla að því að fjölskyldan geti öll verið samvistum. Hér er verið að stíga fyrsta skrefið í þá áttina. Ég held líka að hér sé um mjög mikilvægt jafnréttismál að ræða. Hér er ekki aðeins um að tefla rétt barnsins heldur kemur jafnrétti kynjanna hér mjög við sögu.

Það er ekkert undarlegt í rauninni að fyrirtæki, sérstaklega lítil fyrirtæki sem standa höllum fæti, skuli spyrja þegar verið er að ráða fólk hvaða skuldbindingar sé þar með verið að takast á herðar og það er alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að það hefur verið meiri áhætta fyrir fyrirtækin, ef svo má að orði komast, að ráða konur á barneignaaldri til starfa. Með því að jafna þennan rétt er dregið úr þessari áhættu og þar með er stuðlað að jafnrétti kynjanna. Þetta er mjög mikilvægt atriði.

Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrr við umræðuna að réttindin eru mismunandi sem opinberir starfsmenn búa við annars vegar og fólk á almennum launamarkaði hins vegar. Ég tek undir það sem fram kom í hennar máli að það sé mikilvægt að reyna að jafna þennan mun upp á við, ekki með því að skerða kjörin hjá þeim sem hafa þau ívið betri, heldur með því bæta kjör allra og jafna þannig aðstöðuna.

Hvernig er vænlegast að gera þetta? Ég hef trú á því að það þurfi að taka þessi mál öll upp frá grunni og til gagngerrar endurskoðunar. Ástæðan er þessi. Í seinni tíð er verið að gera fjárhag hverrar stofnunar sjálfstæðan. Hver stofnun er orðin sjálfstæð fjárhagsleg eining sem þarf að standa skil á öllum sínum skyldum og skuldbindingum. Nú er ekki lengur hægt að vísa á ríkissjóð í því efni heldur verður hún að horfa inn á við að þessu leyti og þar er hún komin í sömu stöðu og litla fyrirtækið, litla eða stóra eftir atvikum eftir því hvað stofnunin er stór. Og þá fer hún að spyrja eins og fyrirtækið hefur hingað til spurt: Hver er áhættan af því að ráða starfsmanninn til starfa? Ef um er að ræða konur á barneignaraldri þá er það staðreynd að áhættan er meiri en þegar verið er að ráða karlmenn. Þetta er staðreynd. Með þessu nýja fyrirkomulagi í ríkisrekstrinum, sjálfstæði stofnana, er því verið að skapa hættu á auknu kynjamisrétti á vettvangi þar sem það var ekki áður við lýði.

Hvernig á að bregðast við þessu? Hér hafa verið settar fram tillögur. Ég vil nefna það að þær tillögur hafa komið frá BSRB, þær tillögur hafa komið frá Kvennalistanum og víðar sem ganga út á það að myndaður verði sameiginlegur sjóður, fæðingarorlofssjóður sem greitt yrði til af hálfu allra hvort sem er á einkamarkaði eða hjá hinu opinbera. Úr þessum sjóði yrði fæðingarorlofið síðan fjármagnað og þá hvort sem um er að ræða konur eða karla. Ég held nefnilega að mjög brýnt sé að endurskoða þessi mál öll fyrst út frá þessu sjónarhorni og út frá þeirri hugsun að við komum til með að styrkja stöðu barnsins og fjölskyldunnar en huga jafnframt að jafnrétti kynjanna.

Ég vil að lokum ítreka ánægju mína með að þetta frv. skuli vera komið fram á Alþingi. Ég tel að hér sé verið að stíga mjög mikilvægt framfaraspor og ég held að við félagar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem fluttum þáltill. sem hér er síðan endurflutt í formi stjfrv., getum bara sæmilega við unað og munum fagnandi greiða þessu frv. okkar atkvæði.