Fæðingarorlof

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 17:36:54 (2205)

1997-12-13 17:36:54# 122. lþ. 42.13 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:36]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf við spurningum mínum varðandi réttarstöðu þeirra sem eignast hafa börn með stuttu millibili, vegna framlengds fæðingarorlofs eða fyrirburafæðinga. En þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort sú breyting sem verið er að gera á reglugerðinni verði afturvirk þannig að hún gildi frá 1. janúar 1997 eins og um var talað í heilbr.- og trn. Jafnframt langar mig til þess að beina þeim spurningum til hæstv. ráðherra hvort eitthvað hafi verið tekið á þeim breytingum sem urðu á réttarstöðu fólks sem flytur búferlum á milli Norðurlandanna. Upp hafa komið mál þess efnis að foreldrar hafi ekki átt rétt til töku fæðingarorlofs, hvorki hér á landi né í landi sem þeir hafa búið í. Ég hef áður borið fram fyrirspurn um þetta mál hér á þingi og fékk þá m.a. þær upplýsingar að á fundi ráðherra Norðurlandanna 14. nóvember 1990 hefði það verið sagt að félagsleg réttindi Norðurlandabúa ættu alls eki að skerðast þó farið væri í víðtæka samningagerð meðal Evrópulandanna. Raunin varð hins vegar sú að skerðingin er til staðar. Hefur ráðuneytið eitthvað sérstaklega kannað hvernig þarna mætti bæta úr? Mér er kunnugt um að þessi mál koma upp aftur og aftur, m.a. nú í sumar. Gott væri að fá að heyra frá ráðherra hvort þarna hefur orðið einhver breyting á eða hvort ráðuneytið er að kanna þetta. Annars vil ég ítreka þakkir mínar til ráðherrans fyrir að taka upp þáltill. sem þeir fluttu hér hv. þm. Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon og gera hana að sinni. Vonandi verður hún að lögum sem allra fyrst.