Fæðingarorlof

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 17:47:53 (2211)

1997-12-13 17:47:53# 122. lþ. 42.13 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi tek ég fram vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. að ég tel eðlilegt að fæðingarorlof sé sem mest samræmt. Eiginlega er ekki hægt að komast hjá því að svo verði gert á næstu árum því að reglurnar eru mjög mismunandi og það sem flækir málið er að það er auðvitað engin trygging fyrir því að opinberir starfsmenn séu giftir innbyrðis eða þeir sem starfa úti á almenna markaðnum séu giftir innbyrðis. Það er sem betur fer þannig í þjóðfélagi okkar að fólk skipast ekki í hjúskaparstöðu eftir atvinnu. Þess vegna held ég að það sé enn brýnna að samræma þessar reglur. Hvort það verður gert með þeim hætti að allir hafi ígildi launa eða hlutfall að launum eða greiðslu sem tekur mið af einhverju öðru er kannski ekki aðalatriði málsins frá mínum sjónarhóli heldur hitt að það sé reynt að ná samræmi í þetta.

Við hjá ríkinu töldum að það þyrfti ekki frekari lagastoð en er í lögum nú til þess að koma á þessu feðraorlofi. Þetta er einhliða tilkynning og það er ætlun ríkisvaldsins að stofnanirnar geti greitt þetta fyrir þá feður sem þar starfa og það er átt við þá sem eru í störfum hjá ríkinu alveg burt séð frá því í hvaða félögum þeir eru. Hins vegar er fæðingarorlof hjá opinberum starfsmönnum öðruvísi því að það nær samkvæmt lögum og samningum og reglugerð einungis til kvenna. Sá er munurinn.

Varðandi bankastarfsmenn vil ég að endingu að það komi fram að þeir eru ekki opinberir starfsmenn eða ríkisstarfsmenn í skilningi laganna. Það þarf að gá að því hvernig samningar þeirra eru eða hvort sérsamningar gilda á milli einstaklinga úr þeirra röðum og þeirra sem eru atvinnurekendur bankastarfsmanna. Það getur reyndar átt við um fleiri stéttir.