Fæðingarorlof

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 17:52:16 (2213)

1997-12-13 17:52:16# 122. lþ. 42.13 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:52]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki hægt í örstuttu samtali okkar undir liðnum andsvar að ræða þetta ofan í kjölinn. Ég ræddi hvergi um smekksatriði í þessu sambandi, það voru orð hv. þm. heldur sagði ég að það þyrfti að samræma þetta. Þegar sagt er að samræma þurfi fæðingarorlofið þýðir það ekki nauðsynlega að allir séu með sömu krónutöluna og það þarf ekki heldur að þýða að það séu allir sem taka mið af launum. Ég tel að menn þurfi að ræða þetta. Ég hlustaði af athygli á sjónarmið formanns BSRB sem er jafnframt þingmaður. Það kann vel að vera að lausnin sé fólgin í því að menn borgi í eina púllíu og síðan séu settar reglur af einhverjum aðilum sameiginlega ef þetta er hluti af kjörum manna og viðurkennt sem hluti af kjörum manna hvernig á að greiða úr slíkum sjóði. Aðalatriðið í því sem ég var að segja er að það er óþolandi til lengdar að opinberir starfsmenn hafi aðrar og annars konar viðmiðun en þeir sem starfa úti á markaðnum. Hvor aðferðin er réttari skal ég ekkert um segja. Vandamálin hér á landi við að miða við laun er að laun eru að stærri hluta til hér á landi, a.m.k. hjá opinberum starfsmönnum og líka úti á markaðnum, yfirvinna heldur en gerist og gengur í nágrannalöndum okkar. Það veldur einnig vandræðum þegar við berum okkur saman við önnur ríki. En ég held að það sé útilokað, virðulegi forseti, að ræða þetta mál til hlítar á laugardagskvöldi undir liðnum andsvör. Þetta er mál sem hefur verið til skoðunar árum ef ekki áratugum saman og verður að finna lausn á einhverjum öðrum og hentugri tíma en þessum.