Fæðingarorlof

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 17:54:18 (2214)

1997-12-13 17:54:18# 122. lþ. 42.13 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:54]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör og vil jafnframt hvetja hann til þess að kynna sér frv. okkar kvennalistakvenna og fleiri stjórnarandstöðuþingmanna sem liggur fyrir þinginu og hefur því miður ekki fengist rætt enn. Þar leggjum við til að stofnaður verði svokallaður fæðingarorlofssjóður sem allir greiði í, bæði ríkisstarfsmenn sem aðrir atvinnurekendur og hjón til samans fái greitt út samsvarandi 12 mánaða fullum launum. Síðan yrði ráðherra að ákveða nákvæmlega að hve miklu leyti yfirvinna kæmi inn í mat á því hvað telst vera full laun. Ég tel að það hljóti að koma að því að slík kerfisbreyting muni eiga sér stað og ég fagna því að ég heyri ekki andmæli við slíku, hvorki frá hæstv. heilbrrh. né fjmrh. og ég vona svo sannarlega að það náist samstaða meðal þingmanna, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, að fara í almennilega uppstokkun á fæðingarorlofinu, bæði lengingu þess og launafyrirkomulagi og að réttur feðra til fæðingarorlofs verði styrktur enn frekar.