Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 18:36:01 (2218)

1997-12-13 18:36:01# 122. lþ. 42.15 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:36]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef farið yfir sjónarmið mitt varðandi þau sjónarmið sem sett hafa verið um afturvirkni og af því leiðir að nauðsynlegt sé að hafa þessar undanþágur sem ráðherra gat um. Ég ítreka bara mitt sjónarmið í þeim efnum, að þau eigi ekki við þar sem ekki er um nein lagaákvæði að ræða sem við erum að breyta. Við erum einfaldlega að setja í fyrsta sinn ákvæði um hvernig með skuli fara.

Ég vona að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér í því að verð á aflaheimildum muni lækka verði þetta stjfrv. að lögum. Ég vona líka að það leiði til þess að ríkissjóður hafi meiri tekjur af atvinnurekstrinum en hann hefur haft hingað til með því að loka fyrir þá leið að færa kaupverðið á réttindunum gegnum rekstrarreikning og spara sér þannig skattgreiðslur. En ég er ekki sammála mati hans á áhrifum frv. eins og ég rakti.

En mig langaði að ítreka spurningu mína til ráðherrans um mat hans á því hvaða áhrif það hefur á ákvæði stjórnarskrárinnar sem kveður á um að eign megi ekki af mönnum taka nema bætur komi fyrir. Þegar er verið að lögfesta það að þessi réttindi séu eign í skilningi skattalaga þá er löggjafinn búinn að segja að um eign sé að ræða og mig langar að fá álit ráðherrans á því hvort hann telji að þessi ákvörðun löggjafans, ef samþykkt verður, leiði til þess að það verði meiri líkur en nú eru á því að dómstólar muni kveða upp þann dóm að bætur verði að koma fyrir ef lögin verði felld úr gildi.