Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 18:40:30 (2220)

1997-12-13 18:40:30# 122. lþ. 42.15 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:40]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast við þessar álitsgerðir sem ráðherrann vitnar til nema álitsgerð Skúla Magnússonar sem ég hef ekki kynnt mér. Ég er alveg sammála niðurstöðu Þorgeirs Örlygssonar og hún fellur alveg að þeim sjónarmiðum sem ég hef haft í málinu til þessa, þ.e. að staða löggjafarinnar um stjórn fiskveiða er sú að Alþingi getur breytt löggjöfinni hvenær sem er og gert hvaða breytingar sem það kýs án þess að þurfa að greiða útgerðarmönnum bætur fyrir, ef réttindi þeirra verða skert eða afnumin. Ég vil því að löggjafinn haldi stöðunni þannig áfram að við séum ekki að setja lög sem geta leitt til þess að við breytum stöðunni, þessari stöðu sem ég tel að málið sé í og eigi að vera í.

Ég spyr svo grannt eftir afstöðu ráðherrans um áhrifin af því að kveða upp úr með það í löggjöf, eins og hann leggur til, að kvóti, skulum við segja, sé eign í skilningi skattalaga vegna þess að ef til þess kemur að dómstólar þurfi að fara að túlka þessa löggjöf, sem yrði ef frv. verður að lögum, eða aðrir sem þurfa að útfæra löggjöfina, þá verður auðvitað að byrja á því að leita eftir því hvað löggjafinn var að meina. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að framsögumaður málsins, sem er hæstv. fjmrh., tali alveg skýrt um hver hans meining er með frv. Ég tel að það þurfi að koma hér fram í umræðunni um málið alveg skýr yfirlýsing ráðherrans um það að þetta frv., að hans mati, leiði ekki til þess að ákvæði stjórnarskrárinnar muni eiga við.