Nýtt hlutverk Seðlabankans

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 15:10:42 (2224)

1997-12-15 15:10:42# 122. lþ. 43.1 fundur 127#B nýtt hlutverk Seðlabankans# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[15:10]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Í fjölmiðlum um helgina mátti heyra viðtöl við seðlabankastjóra, Steingrím Hermannsson, fyrrv. forsrh. og fyrrv. formann Framsfl., þar sem hann lýsti hugmyndum sínum um þróun mála í íslensku samfélagi. Þar sagði hann m.a. að þróunin væri öll á þann veg að völd og áhrif og auður færðist hægt og bítandi á æ færri hendur. Og raunar gekk hann svo langt að vísa til þess að kapítalisminn væri dauður eins og kommúnisminn. Hann viðraði jafnframt þær hugmyndir að Seðlabankinn gæti í auknum mæli komið til skjalanna og snúið þeirri öfugþróun við sem stæði nú yfir hjá núv. ríkisstjórn og lýsti m.a. þeim hugmyndum sínum að Seðlabankinn gæti stuðlað að því að vaxtastuðullinn yrði tvískiptur og það yrðu lægri vextir almennt til þess að almenningur gæti eignast hlutdeild í fyrirtækjum o.s.frv. Nú hef ég orðrétt, virðulegi forseti, eftir seðlabankastjóra: ,,... og færu þá náttúrlega í gegnum viðskiptabankana og þeir lánuðu til slíkra hluta og í raun og veru tækju veð eins og þeir sögðu í framtíðarhagnaði fyrirtækjanna með vissa ábyrgð Seðlabanka á bak við í sambandi við vextina.`` Seðlabankastjóri lýsti því jafnframt yfir að þetta gæti gengið mjög auðveldlega hér heima og ekki síst í ljósi þess að ríkisstjórnin hygðist nú einkavæða og selja hluta úr Pósti og síma og síðan viðskiptabönkunum. Þess vegna vil ég nota þetta tækifæri, virðulegi forseti, og spyrja hæstv. viðskrh. hvort þessar hugmyndir seðlabankastjóra og fyrrv. forsrh. og fyrrv. formanns Framsfl. séu honum að skapi og hvort hann hafi rætt þessar hugmyndir við Steingrím og hvort seðlabankastjóri sé að lýsa hinni nýju stjórnarstefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og þá kannski einkanlega áhersluatriðum Framsfl. í þessum efnum.