Eldsneytisgjald á Keflavíkurflugvelli

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 15:17:32 (2229)

1997-12-15 15:17:32# 122. lþ. 43.1 fundur 128#B eldneytisgjald á Keflavíkurflugvelli# (óundirbúin fsp.), LB
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[15:17]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgrh. vegna álits Samkeppnisstofnunar sem lagt var fram sl. föstudag og varðaði meinta mismunum í greiðslu eldsneytisgjalda á Keflavíkurflugvelli.

Í fyrsta lagi kvartaði umboðsmaður Cargolux vegna þess að bandarísk flugfélög njóti fríðinda hér á landi sem flugfélög frá Lúxemborg og öðrum EES-ríkjum njóti ekki. Í öðru lagi var kvartað yfir því að reglurnar um eldsneytisgjald hefðu þau áhrif að Flugleiðir geti í krafti stöðu sinnar á markaðnum keypt eldsneyti beint og komist hjá því að greiða umrætt gjald.

Niðurstaða samkeppnisráðs um bæði atriðin hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Með því að innheimta eldsneytisgjald af Cargolux en ekki Flugleiðum eru stjórnvöld að raska samkeppni í áætlunarflugi til Norður-Ameríku. Lagaákvæði eða framkvæmd þeirra sem veita tilteknum keppinautum forréttindi eða ríkisstuðning fara þvert gegn tilgangi og markmiðum samkeppnislaga, samanber 1. gr. þeirra laga.`` Hvað seinna atriðið varðar segir Samkeppnisstofnun sem svo: ,,Vegna mikilla umsvifa í flugi frá Keflavíkurflugvelli og eignarhalds á grunnmannvirkjum eru Flugleiðir í raun eini aðilinn sem getur flutt inn eigið eldsneyti og notið þar með undanþágu frá greiðslu eldsneytisgjalds. Þessi skipan mála m.a. raskar samkeppni í áætlanaflugi frá Íslandi til Evrópu og takmarkar aðgang nýrra keppinauta að markaðnum. Verður í reynd að líta svo á að þessi undanþága frá eldsneytisgjaldi, sem aðeins nýtist Flugleiðum, feli í sér ríkisstuðning sem fari þvert gegn tilgangi og markmiði samkeppnislaga. Jafnframt er þessi aðstaða til þess fallin að efla markaðsráðandi stöðu Flugleiða.``

Í beiðni Cargolux kemur fram að þetta atriði getur jafnvel verið forsenda þess að þeir geti áfram haldið uppi samkeppni í fragtflutningum til landsins og því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. samgrh. hvort og þá hvernig hann hyggist bregðast við tilmælum Samkeppnisstofnunar.