Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 15:44:43 (2239)

1997-12-15 15:44:43# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, HG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[15:44]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við ræðum hér afgreiðslu hv. umhvn. á frv. um breyting á skipulags- og byggingarlögum, sem sett voru í fyrra. Nefndin hefur fjallað um þetta á nokkrum fundum og ekki er ágreiningur af minni hálfu nema við eitt atriði í tillögum nefndarinnar, þ.e. varðandi breytingar á 27. gr. og þá aðeins að hluta til. Ég átti þátt í að móta þær tillögur sem þarna voru að öðru leyti en af sérstökum ástæðum gat ég ekki verið við lokaafgreiðslu málsins þar sem gert hafði verið ráð fyrir nánara sammæli um breytingar varðandi 27. gr. áður en til afgreiðslu kæmi. Það kom mér því nokkuð í opna skjöldu að málið væri afgreitt úr nefnd á umræddum fundi. Þetta er nú 2. umr. málsins sem hér er en til þess að skýra afstöðu mína þá taldi ég rétt að leggja inn brtt. við málið við 2. umr. þannig að afstaða mín væri ljós til þessa efnis sem snertir 27. gr., um framkvæmdaleyfi.

Ég minni á það, virðulegur forseti, að þegar lögin um skipulags- og byggingarlög voru sett og afgreidd á Alþingi hafði farið fram mjög mikið starf í umhvn. varðandi frv. og hv. framsögumaður nefndi áðan að viðamiklar brtt. hefðu komið fram við frv. og er það ekki ofmælt. Sú grein sem hér er rætt um, 27. gr., var ásamt öðrum brtt. nefndarinnar samþykkt, ég held bara í einu lagi á Alþingi síðasta vor, enda tókst gott sammæli í nefndinni um þessi efni og var forsenda fyrir því að þessi löggjöf var afgreidd þá. Ég hafði því vænst þess að leitast yrði við að hafa sama hátt á nú þegar kæmi til breyting á lögunum sem lýst var fyrst og fremst sem tæknilegum breytingum og minni háttar atriðum sem í ljós hefðu komið á þeim tíma sem liðinn er og komið hafa upp vegna kynningar á lögunum og að ekki yrði farið í að gera breytingar sem ágreiningur væri um í nefndinni. Nú er ég ekki að segja að það geti ekki komið til greina hér sem endranær en ég hefði talið það æskilegt að við mótun löggjafar af þessu tagi væri reynt að hafa sem víðtækast sammæli um afgreiðsluna.

Í nál. umhvn. á síðasta þingi, á þskj. 1167 sem er nál. um frv. til skipulags- og byggingarlaga upp á 33 tölusettar blaðsíður, segir um 27. gr., með leyfi forseta:

,,Með 27. gr. er lagt til að bætt verði inn í frumvarpið ákvæði um framkvæmdaleyfi. Á það við um framkvæmdir sem ekki eru háðar byggingarleyfi og hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess. Falla skógrækt, landgræðsla og efnistaka til dæmis þarna undir. Framkvæmdir þessar þurfa að vera í samræmi við skipulagsáætlanir og fara skal um þær eftir lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við. Gert er ráð fyrir að framkvæmdaleyfi falli úr gildi ef framkvæmdir eru ekki hafnar innan tólf mánaða frá útgáfu þess.``

Þetta var sameiginlegt álit hv. nefndar á síðasta þingi og engar greinar uppi, það ég man, að undanskilja bæri einhverja sérstaka framkvæmdaþætti sem féllu undir skilgreiningu laganna frá þessum ákvæðum um framkvæmdaleyfin. Nú hefur það komið upp í framhaldinu að ýmsir aðilar gerðu athugasemdir við það ákvæði 27. gr. að allar framkvæmdir skyldu skilgreindar með þessum hætti og það er ekki undrunarefni. Það er auðvitað mjög víðtækt, fortakslaust ákvæði sem getur e.t.v. orðið til þess að æra óstöðugan að ætla að fella allar framkvæmdir undir þetta, þó nefndin hafi lagt þetta til og Alþingi samþykkt. Meginbreytingin sem við erum að gera á 27. gr. varðar þetta, og það er enginn ágreiningur við þann sem hér talar að við breytum þessu. Með því að setja inn ,,meiri háttar framkvæmdir`` eftirlátum við framkvæmdarvaldinu ákveðið svigrúm til túlkunar, það er alveg ljóst, og tökum þá áhættu og opnum fyrir reglugerðarheimild varðandi þessa lagagrein sérstaklega. Og ég styð það að þannig sé haldið á máli.

En hér komu upp önnur atriði og ég vil nefna þau draugagang, virðulegur forseti, því góða nafni, vegna þess að farið er að taka inn í þessar tillögur af hálfu meiri hluta hv. nefndar önnur atriði sem stangast á við þá almennu afgreiðslu sem fram fór á síðasta þingi. Og viðleitni í þá veru, bæði í brtt. og nál., að undanskilja framkvæmdaleyfi, meiri háttar framkvæmdir á sviði landgræðslu og skógræktar --- eða þannig eru tillögur meiri hluta nefndarinnar sem hér liggja fyrir túlkaðar af sumum, alla vega flutningsmönnum. Það er þó ekki einhlítt hvernig sú túlkun fellur ef ég leyfi mér að lesa í mál manna sem undir þetta nál. hv. umhvn. skrifa, þá er sú túlkun ekki einhlít eða sammæli um hana í raun. Ég tel það mjög vafasamt, svo ekki sé meira sagt, að kasta þessu máli hér út í afgreiðslu við 2. umr. málsins með svo óljósum skilningi af hálfu nefndarinnar og vissulega er það svo að það er ekki fortakslaust kveðið á um þetta efni í tillögunum. Það stendur ekki undanskilja skal meiri háttar framkvæmdir á verksviði skógræktar og landgræðslu framkvæmdaleyfi, --- það stendur ekki. En í tillögunum er tilvísunin í landgræðslu og skógrækt hins vegar tekin út. Síðan segir í nál, með leyfi forseta, þar sem um þetta er fjallað, ég leyfi mér að lesa 2. tölul. í nál.:

,,Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 27. gr. laganna um framkvæmdaleyfi. Lúta þær annars vegar að því að lagt er til að ákvæðið nái aðeins til meiri háttar framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, en ekki allra framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið. Hins vegar er lagt til að felld verði úr ákvæðinu vísun í skógrækt og landgræðslu og verði ákvæðinu einkum ætlað að ná til breytinga á landi með t.d. jarðvegi eða efnistöku. Loks er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við ákvæðið þess efnis að landgræðslu- og skógræktaráætlanir skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir.``

Síðasta málsgreinin þarna er ekki nein nýmæli í rauninni og að því leytinu sýnist mér þarflaust að taka hana inn en ég hef ekkert á móti því að hún sé sett á viðeigandi stað í löggjöfina og hef lagt til að þetta ákvæði um landgræðslu- og skógræktaráætlanir verði sett á viðeigandi stað inn í 9. gr. laganna sem fjalla um skipulagsskyldu og skipulagsáætlanir og tel að það sé ekki óeðlilegt að setja þessa tilvísun þar inn.

Virðulegur forseti. Hvað á nú hæstv. umhvrh. að gera? Ég leyfi mér að beina þeim óskum til hæstv. forseta að ráðherrann sé viðstaddur því ég er að vísa í þann vanda sem við framkvæmdarvaldinu blasir, að þessum ákvæðum samþykktum. Það eru hér sem sagt mjög óskýr fyrirmæli að þessu leyti af hálfu meiri hluta nefndarinnar og ég tel það ekki farsælt að þannig sé haldið á máli. Þetta varðar málatilbúnaðinn eins og hann liggur fyrir í nál. og brtt. meiri hlutans á þskj. 466. Síðan kemur spurningin um efnisþáttinn. Á að undanskilja meiri háttar framkvæmdir sem breyta sannarlega ásýnd lands eins og landgræðsla og skógrækt? Á að undanskilja slíkar framkvæmdir framkvæmdaleyfi af hálfu sveitarfélaga? Það er spurning sem sjálfsagt er að velta fyrir sér. Ég svara þeirri spurningu neitandi. Ég tel að það væri mjög óeðlilegt að undanskilja meiri háttar framkvæmdir á þessu sviði, framkvæmdir sem byggja á áætlunum sem þarf að fella að skipulagi eins og eðlilegt er. Það er óeðlilegt að undanskilja þær framkvæmdaleyfi. Það hefur ekkert, virðulegur forseti, að gera með tilfinningalega afstöðu eða mat á því hvort almennt séu slíkar framkvæmdir taldar jákvæðar eða neikvæðar á mælikvarða góðs og ills, sem ég held að menn þurfi að gæta sín á að reiða ekki fram í allt of ríkum mæli þegar við setjum lög, að við séum að taka afstöðu til góðs og ills í þeim efnum. Menn hljóta t.d. að spyrja: Er efnistaka ótvírætt af hinu illa í þessu samhengi? Ja, hún er kannski ill nauðsyn. Það mætti e.t.v. segja að hún sé ill nauðsyn en ótvírætt er hún nauðsyn. Það er eðlilegt að við því sé brugðist og vel á haldið því það er sannarlega ekki sama hvernig að því er staðið. En að halda eftir tilvísun í efnistöku og jarðvegsflutning eða hvernig sem það nú er orðað, --- breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, sem er nú svolítið skrýtið orðalag. Það eru væntanlega fyllingar, landfylling eða tilfærsla á jarðvegi. Kannski falla skurðirnir og framræslan undir það, það er tilfærsla á jarðvegi. Að það sé lýsandi dæmi um það sem sé meiri háttar framkvæmd sem eigi að falla undir slíkt, það er ótvírætt ein af slíkum framkvæmdum en þær eru margar, og það á m.a. við um áberandi framkvæmdir eins og á sviði orkumála, raflínulagnir, vegalagnir o.s.frv. sem ekki eru beinlínis háðar byggingarleyfum. En meginforsendan sem þarna er verið að leggja fram sem mælikvarða eru framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfi og breyta ásýnd þess. Það er aðalatriðið. Það er mælikvarðinn sem við eigum að leggja á þetta. Breytir viðkomandi framkvæmd ásýnd lands? Hefur hún áhrif á umhverfið til þess eða í þá veru? Þá á að fara að settum reglum sem lúta að því að þær breytingar fari sem best úr hendi. Þess vegna á að setja meiri háttar framkvæmdir á sviði landgræðslu og skógræktar undir framkvæmdaleyfi rétt eins og aðrar slíkar sem breyta ásýnd lands.

Spurt er, eðlilega: Er ekki nóg að þetta falli undir skipulag, sem er nú farið að tíðka og vonandi er meginregla og verður regla sem verður í heiðri höfð, og jafnvel að fella þetta undir, eins og orðað er í tillögum og liggur í raun í heimildum, að slíkar meiri háttar framkvæmdir á sviði landgræðslu og skógræktar lúti ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum? Það er allt á sínum stað og þarf að vera meginregla þó að menn hafi verið að reyna að komast undan því. Það er mjög einkennileg viðleitni hjá opinberum stofnunum eins og Skógrækt ríkisins og Landgræðslunni að reyna að fylgja ekki almennum reglum varðandi sínar framkvæmdir.

[16:00]

Það hafa verið slík viðbrögð að mér finnst þau nánast óskiljanleg. Það hefur ekkert með málefnið að gera sem slíkt. Það er aðeins til þess að koma í veg fyrir að fella slíkar aðgerðir, að jafnaði ágætar aðgerðir, undan almennu mati í sambandi við hvernig með skuli fara. Einnig af þeim sökum finnst mér að hugsunin að fella þetta undan framkvæmdaleyfum sé ekki á réttum stað. En þá er það kannski eitt aðalatriðið sem snýr að framkvæmdaleyfinu; hvað er unnið með því? Ég bið hæstv. ráðherra, virðulegur forseti, að leggja við hlustir í sambandi við þetta atriði sérstaklega, að með því að fella þetta undir leyfisveitingu sveitarfélaga er jafnframt tryggt að sveitarfélögin líti á það sem verkefni sitt að fylgjast með framkvæmdinni. Að sjálfsögðu að bera saman að ekkert fari milli mála varðandi skipulagið sem þarf að liggja fyrir að því sé fylgt. En jafnframt er sveitarfélagið að taka á sig þá kvöð að fylgjast með framkvæmdinni og þeir starfsmenn sveitarfélagsins sem annast slíkt að það verði verkefni þeirra. Það tel ég skipta mjög miklu efnislegu máli í þessu samhengi. Það væri afar ófarsælt ef þetta væri ekki fellt að almennri málsmeðferð af hálfu sveitarstjórna. Það er ekki verið að fara fram á mikið. Það er verið að nefna að þetta kosti einhverja peninga. Hér er um algert smáræði að ræða í samhengi við þann kostnað sem fellur til við meiri háttar framkvæmdir á þessu sviði. Ég bið menn að hafa í huga að við erum að tala um meiri háttar framkvæmdir og matið á gjaldskyldu fyrir slíkt leyfi fer yfirleitt eftir því. Það sem á að liggja til grundvallar er sú vinna sem leiðir af leyfinu og því sem því tilheyrir af hálfu sveitarfélagsins sem á ekki að jafnaði að þurfa að vera mikið að því er snertir þessar framkvæmdir þó einhver verði.

Þetta vildi ég sagt hafa, virðulegur forseti. Ég tel að fyrir málaflokkinn sem er um að ræða, landgræðslu- og skógræktarmál, sé ekki aðeins æskilegt, það er beinlínis nauðsynlegt að mínu mati að farið sé með þessi mál að almennum reglum. Ég vara mjög eindregið við því þegar menn segja að þetta séu hundrað prósent góðar framkvæmdir hvernig svo sem með er farið, þetta er bara af því bara að þetta eru góðar framkvæmdir þá eiga þær að liggja til hliðar. Ég gæti haft ýmis orð uppi um það sem fer úrskeiðis nú þegar í þessum málum og það getur leitt til mjög alvarlegra hluta ef ekki verður þar breyting á. Hér liggja mál fyrir þinginu þar sem gert er ráð fyrir að reynt verði að setja reglur um hvernig með skuli fara að því er snertir Landgræðsluna sérstaklega. Það varðar auðvitað skógræktina líka. Menn verða að fara að átta sig á því að þetta eru stórmál í umhverfislegu samhengi. Landeyðingin er stórmál en bæði uppgræðslan og endurheimtin er líka stórmál í umhverfislegu samhengi og varðar mjög miklu að þar sé eðlilega haldið á málum og tillit sé tekið til almennra sjónarmiða og alþjóðlegra skuldbindinga eins og verndunar fjölbreytileika lífríkis sem er sáttmáli sem við erum aðilar að og þarf að sjálfsögðu að taka með inn í reikninginn og verður væntanlega gert framvegis í sambandi við áætlanagerð á þessu sviði og tryggja þarf að eðlilega sé farið með framkvæmdina.

Ég bið um það, virðulegur forseti, að það verði alveg skýrt af hálfu löggjafans áður en þetta mál fer til lokaafgreiðslu hvort menn ætla að undanskilja meiri háttar framkvæmdir á sviði landgræðslu og skógræktar framkvæmdaleyfi og möguleika á að settar séu reglur þar að lútandi samkvæmt reglugerðarheimild ráðherra eða ekki.