Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 16:07:34 (2241)

1997-12-15 16:07:34# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:07]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér talaði einn af þeim sem standa að nál. og kemur með þá túlkun á tillögu nefndarinnar að ekki eigi að undanskilja meiri háttar áætlanir á sviði landgræðslu og skógræktar framkvæmdaleyfi. Ég vona að það sem hv. þm. segir sé skilningur allra þeirra sem að nál. standa. En það er nauðsynlegt að það komi fram. Ég bið hv. talsmann nefndarinnar, framsögumann nefndarinnar, virðulegur forseti, að það komi fram af hálfu hans hver sé skilningurinn á bak við tillögurnar af hálfu nefndarinnar. Það er ekki fullnægjandi að mínu mati að einn af þeim sem rita undir nál. rita komi og lýsi skilningi sínum. Það þarf að vera alveg ljóst að þetta sé skilningur nefndarinnar og túlkun svo ráðherra geti stutt sig við það og sé ekki í einhverri þoku eða einhverju túlkunarstríði við aðila. Það er algjörlega óviðunandi staða fyrir hæstv. ráðherra, virðulegur forseti, að vera í túlkunarstríði við fólk í landinu sem er að vinna að þessum málum. Því er brýnt að þetta sé ljóst og skýrt og ég þykist vita að hv. framsögumaður nefndarinnar komi og segi sitt ákveðna og skýra orð í þessu efni.