Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 16:31:12 (2247)

1997-12-15 16:31:12# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:31]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er úr vöndu að ráða. Það var haldinn sérstakur fundur í umhvn. í morgun til að fara yfir þetta efni. Á þann fund kom skipulagsstjóri ríkisins, Stefán Thors, og svaraði fyrirspurnum. Það var von mín og vafalaust formanns nefndarinnar og fleiri að með þeim fundi væri hægt að ná saman um ásættanlegan texta í tillögu. Það hefur hins vegar engin breyting orðið á þessum textum. Hér liggja fyrir þær tillögur sem lágu fyrir sl. laugardag í þinginu um þetta efni. Ég ítreka það sem ég sagði að það verður að fara yfir þetta mál. Það verður að vera ljóst hvað felst í tillögum meiri hluta umhvn. í þessu máli. Ég hlýt að óska eftir því að umræðunni verði frestað þannig að allir nefndarmenn sem undirrita nál. verði hér viðstaddir, þar á meðal hv. þm. Gísli S. Einarsson sem nú er formaður umhvn. í fjarveru kjörins formanns nefndarinnar, sem og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sem var hér þegar umræðan hófst. Ég óska eftir því að þessir þingmenn verði viðstaddir umræðuna og greini frá sínum sjónarmiðum. Við getum ekki hlaupið svona frá þessu máli.

Virðulegur forseti. Ég gæti, og mun gera það ef ástæða er til, rakið ýmis álitaefni sem eru að sjálfsögðu uppi í sambandi við landgræðslu og skógrækt þar sem menn þurfa að ganga fram af gætni og leyfa almenningi og kjörnum fulltrúum sveitarstjórna að koma sínum sjónarmiðum á framfæri því að álitaefnin eru það mörg. Við erum ekki þar með að segja að málstaðurinn sé ekki góður í almennu samhengi að stöðva landeyðingu og græða upp. Það er bara allt annað mál.