Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 16:33:20 (2248)

1997-12-15 16:33:20# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:33]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þann fund sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson minntist á áðan og þær skýringar sem skipulagsstjóri ríkisins gaf á þeim fundi, þá vil ég einungis taka það fram mjög skýrt að þær skýringar staðfestu einmitt þann skilning minn að þarna væri meiningin að koma upp á vegum sveitarfélaganna eftirlitsiðnaði sem væri settur til höfuðs skógræktarfélögum, skógræktaraðilum og landgræðslu. Og það þýðir ekkert annað en það að menn eru að tala um að koma upp sérhæfðu starfsliði sem á að sjá um að framkvæmdir við landgræðslu og skógrækt séu sveitarfélögunum að skapi. Svo ætla menn að halda því fram hér að um einhvern smávægilegan kostnað sé að ræða sem ekki muni bitna á framkvæmdaraðilunum. Það liggur alveg ljóst fyrir í þessu sambandi að verið er að búa þarna til eftirlitsiðnað sem mun kosta stórfé. Þetta mun draga úr þeim krafti sem þjóðin hefur til að glíma við þetta vandamál.