Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 16:34:31 (2249)

1997-12-15 16:34:31# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:34]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er nú búinn að koma inn á hluta af því sem ég ætlaði að fá að ræða við hv. 5. þm. Norðurl. e. Ég get engan veginn fallist á að þetta sé eðlilegt fyrirkomulag. Við setjum í dag mjög stórar fjárhæðir til landgræðslu og skógræktar sem vissulega er ánægjulegt, gott og þarft, en getur þó orðið umdeilanlegt þegar þeir sem taka við þessum fjárhæðum taka ákvarðanir um það hvaða verk eigi að vinna, hvernig þau skuli unnin, hver eigi að vinna þau og þegar verkinu er lokið þá sjái sami aðili um úttekt. Mér finnast þetta með öllu óeðlileg vinnubrögð. Hvort sem um er að ræða þessar tvær ríkisstofnanir eða aðrar stofnanir, þá finnst mér óeðlilegt að svona sé staðið að verki. Mér finnst líka óeðlilegt að einhverjum getum sé að því leitt að mat á umhverfisáhrifum sé beinlínis sett á til þess að verða þrándur í götu þessari starfsemi, þar sem umhverfismatið er fyrst og fremst hugsað til þess að við tökum réttari ákvarðanir með það í huga hver þróunin verður til framtíðar. Við vitum að margar þær ákvarðanir sem hafa verið teknar af hálfu Skógræktar og Landgræðslu hafa verið umdeilanlegar svo ekki sé nú meira sagt og við vitum að í mörg ár lá ekkert fyrir um árangur þeirra aðgerða sem þar var farið í. Þetta kostar engu að síður stórar fjárhæðir og okkur ber skylda til að sjá til þess að þeim sé varið á sem skynsamlegastan máta og þá með framtíðina í huga og ekki síst á þessum dögum þegar við erum að tala um sjálfbæra þróun og viljum leggja okkar af mörkum til hennar.