Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 16:50:55 (2258)

1997-12-15 16:50:55# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:50]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér bættist aðeins í safnið og ekki var nú talað mjög skýrt. Ég hefði kannski ekki þurft að hafa augun opin, aðeins að leggja við hlustir til að átta mig á úr hvaða flokki væri talað. Það var mjög opið í báða enda en þó var eitt sem mátti merkja varðandi afstöðu í málinu og það var orðað á þá leið að óþarft væri að leggja fjötra á þessa þætti og mun hafa verið vísað til landgræðslu og skógræktar, að ófært væri að leggja fjötra á þessa þætti. Síðan var fjallað um ofstækismenn og öfgakenndar skoðanir. Hvaðan koma þessar öfgakenndu skoðanir? Ég held að menn þyrftu að velta því fyrir sér, virðulegur forseti, hvort það eru ekki öfgar sem vilja taka þætti sem sannarlega hafa mikil áhrif á ásýnd landsins og koma til með að hafa það að mörgu leyti meira en flest annað ef menn verða stórtækir í þeim efnum sem mér heyrist að hugur manna standi til og ekki nema gott um það að segja --- en þá á bara að vinna í blindu. Þetta er bara gott út af fyrir sig og á ekki að lúta neinum reglum eða neinu eftirliti. Og hér var mælt með því fyrr í umræðunni, virðulegur forseti að þetta ætti bara að vera sjálfdæmi og sveitarfélögunum kæmi þetta sko ekkert við. Hvað segir hv. þm. um það? Það væri fróðlegt, virðulegur forseti, að heyra það hjá hv. þm. hvað hann telur um hlut sveitarfélaganna og hlut almennings til að geta komið sínum sjónarmiðum á framfæri varðandi ásýnd landsins.