Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 17:05:01 (2266)

1997-12-15 17:05:01# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, MF
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:05]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mig undrar svolítið þessi umræða og hvernig tekið er á því þegar þingmenn, sérstaklega þeir þingmenn sem eiga þátt í nefndarstarfi, og hafa átt þátt í því að kynna sér þessi mál, hafa unnið að þeim langan tíma, eru með málefnalega gagnrýni, viðvörunarorð, varnaðarorð, hvernig það er tekið hér upp í málflutningi sem tilraun til að leggja stein í götu þeirra sem vilja skógrækt og landgræðslu vel. Þetta er málflutningur sem er ekki sæmandi miðað við þau rök sem við höfum hlustað á og miðað við þann málflutning sem við þekkjum frá þeim þingmönnum sem hér hafa talað.

Það er enginn sem flytur varnaðarorð og mælir með því að í flestum tilvikum séu gerðar framkvæmdaáætlanir um landgræðslu og skógrækt, í flestum tilvikum sé um mat á umhverfisáhrifum að ræða þegar stærri framkvæmdir eiga í hlut, það er enginn sem er með því og hefur aldrei verið eða það hef ég ekki heyrt frá þeim, sem hér hafa talað í gegnum árin fyrir mati á umhverfisáhrifum og ýmsum þeim framkvæmdum sem farið hefur verið í og eitt af því sem hefur fylgt EES-samningnum þ.e. að taka upp mat á umhverfisáhrifum, þá hef ég aldrei heyrt það hér úr ræðustól á hinu háa Alþingi að einhver hv. þm. hafi sagt: Við skulum endilega gera þetta því þá komum við í veg fyrir eða drögum úr framkvæmdum í landgræðslu og skógrækt. Þvert á móti hefur málflutningurinn verið sá að með því að gera lögin um mat á umhverfisáhrifum virk og nota þau í þeim tilvikum sem þau eiga við um allar stærri ákvarðanir, þá er fyrst og fremst um það að ræða að verið er að hjálpa okkur til að taka ákvarðanir sem eru eins réttar og mögulegt er miðað við þróunina til framtíðar, miðað við það náttúrufar sem við búum við og miðað við það náttúrufar sem við þurfum að vernda og viljum búa við í framtíðinni.

Hér hefur töluvert verið rætt um það hvernig sveitarstjórnir eða sveitarfélög geti komið inn í eftirlit með framkvæmdum sem eru innan sveitarfélagamarka. Við það að lesa þetta frv. og hlusta á málflutning allra hér, þá lít ég þannig á að verið sé að tala um stærri framkvæmdir, ekki framkvæmdir sem einstaklingar fara í á jörðum sínum eða þeim lendum sem þeir eiga eða hafa á leigu, heldur fyrst og fremst stærri framkvæmdir sem þó eru ekki það stórar að þær teljist þurfa að fara í umhverfismat. Mögulegt væri að standa að eftirliti innan sveitarfélagsins sem fylgdi þá eftir að farið væri að skipulags- og byggingarlögum og samkvæmt þeim ákvörðunum sem um getur í þeirri framkvæmdaáætlun sem samþykkt væri. Sveitarfélögin hafa að sjálfsögðu möguleika á því að ná sér í einhverja sérfræðikunnáttu til þeirra verka eins og ýmissa annarra verka sem sveitarfélögunum er falið að fara með.

Á síðasta þingi samþykktum við lög um Suðurlandsskóga sem áætlað er á fjárlögum að setja um 20 millj. í á næsta ári. Mig minnir að hver einasti sveitarstjórnarmaður, í það minnsta Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi og þeir sveitarstjórnarmenn sem á annað borð létu í sér heyra, sendu bréf eða höfðu samband við hv. þingmenn Suðurlands á þeim tíma sem þetta frv. var til umræðu í þinginu, hafi mælt með því að þessi framkvæmd færi í mat á umhverfisáhrifum. Þeir töldu það til ágóða vegna þess að þarna kæmi þá fram mat á náttúrufari sem ekki hefði átt sér stað á viðkomandi svæði áður, a.m.k. ekki á þann hátt sem gerist þegar mat á umhverfisáhrifum á sér stað og einnig mat á náttúruminjum og töluðu þá sérstaklega um þá möguleika sem hver landeigandi hefði til þess að fá fram slíkt mat á sinni landareign og það væri af hinu góða.

Hv. 4. þm. Suðurl. sagði áðan að við værum ekki komin það langt á þessari braut að við þyrftum að hafa áhyggjur. Þá hlýt ég að skilja það svo að hv. þm. eigi við að við þurfum ekki á þessu stigi að hafa áhyggjur af breyttu náttúrufari, að skógrækt eða landgræðsluaðgerðir séu það víðtækar eða stórtækar að þær hafi veruleg áhrif á náttúrufar landsins, og þannig hugsanlega varði við þær samþykktir sem við höfum undirgengist á alþjóðavettvangi.

Það er e.t.v. rétt hjá hv. þm. að við erum ekki komin það langt án þess að ég treysti mér til að leggja mat á það, hef hvorki það mikla þekkingu á öllum þeim framkvæmdum sem hafa verið vítt og breitt um landið né þá vitneskju sem til þarf til að meta þá stöðu sem við erum í í dag. Hins vegar finnst mér gæta svolítils misskilnings á því hvað er mat á umhverfisáhrifum og hvað er framkvæmdaáætlun. Þessir tveir þættir miða að því að við þurfum aldrei að ganga þá braut það langt að við þurfum að hafa áhyggjur, í það minnsta er allt gert sem mögulegt er til að koma í veg fyrir að við förum það langt að ekki verði aftur snúið, skaðinn sé skeður og við það verði illa ráðið. Við höfum mjög mörg dæmi þess að framkvæmdir sem voru í upphafi taldar vera saklausar færu úr böndum. Danir fóru t.d. í framkvæmdir sem í upphafi voru taldar afar saklausar, þær væru fegurðaraukandi fyrir umhverfið og hefðu uppgræðsluáhrif eða vernduðu landið fyrir uppblæstri. Þeir tóku t.d. rós, sem við notum mjög mikið í okkar görðum, og notuðu hana sem uppgræðslujurt og töldu á sínum tíma að ekki mikil hætta væri á því að þessi planta færi yfir í það land sem henni var ekki ætlað að vera. Það gerist hins vegar nokkrum árum síðar að hún veður yfir allt og illa er við hana ráðið. Þar fór úr böndum aðgerð sem Danir ætluðu sér að hafa mjög takmarkaða og á mjög takmörkuðum svæðum.

Mat á umhverfisáhrifum og framkvæmdaáætlun er m.a. aðgerð til þess að slík atvik eigi sér ekki stað. Vítin eru til að varast þau og við eigum að læra af reynslu okkar, læra af reynslu annarra og fara varlega í sakirnar og beita slíkri áætlunargerð og mati á umhverfisáhrifum hvar sem því verður við komið og þar sem við þurfum á því að halda. Og þá er ekki verið að tala um sérstakan áhuga einstaklinga til að rækta á sínu eigin landi nema mér finnst sjálfsagt að sveitarfélög séu það meðvituð að þau geri athugasemdir þegar um er að ræða notkun á plöntum sem hætta er á að vaði út fyrir viðkomandi landareign og valdi þar skaða. Miðað við þær tillögur sem hér hafa komið fram og miðað við þær umræður sem hér hafa átt sér stað þá sýnist mér að í raun og veru sé ekki svo langt á milli einstaklinga innan umhvn. en þó hafa komið fram mismunandi skýringar á því nál. sem flestir nefndarmenn hafa undirritað og ég held allir þeir sem sátu þann fund þar sem málið var afgreitt. Þegar um slíkar mismunandi útskýringar er að ræða þá er eðlilegt að farið sé fram á það að málið sé rætt til hlítar annaðhvort í þingsölum og umræðan klárist þannig að eðlilegar skýringar komi fram eða þá að umræðunni verði frestað þar til nefndin hefur fjallað um málið og ein túlkun er á því nál. sem allir þessir einstaklingar skrifa undir. En að ásaka hér einn og einn þingmann fyrir að fara offörum, vilja leggja stein í götu þeirra sem hafa áhuga á landgræðslu og skógrækt, setja hömlur á framkvæmdir í neikvæðri merkingu, finnst mér ekki rétt og mótmæli þeim málflutningi miðað við það sem hér hefur verið sagt og hvet til þess að við förum hægt á þessu sviði, förum varlega, stígum hvert skref varlega vegna þess að sporin hræða. Við höfum tekið ákvarðanir sem ekki eru réttar. Við höfum eytt í þessi verkefni háum fjárhæðum á hverju einasta ári og það er fullkomlega eðlilegt að við förum fram á það að í sem flestum tilvikum liggi fyrir framkvæmdaáætlun, mat á umhverfisáhrifum og að sveitarfélögin hafi þar einhverja lögsögu og ég tala nú ekki um þegar verið er að ræða um það jafnvel að setja hálendið undir sveitarfélögin, þar sem þarf að fara í verulegar aðgerðir. Þá er eðlilegt að sveitarfélögin séu þátttakendur og eftirlitsaðili með þeim aðgerðum sem þar verður farið í verði það ofan á að hálendinu verði skipt á milli sveitarfélaga. Það er fullkomlega eðlilegt að hlutur þeirra í náttúruverndinni verði gerður sem víðtækastur og ábyrgð þeirra og eftirlitsskylda og að hlutverk þeirra fyrirtækja eða stofnana sem við erum með í skógrækt og landgræðslu verði fyrst og fremst rannsóknir, eftirlit, þróunarstarfsemi og ráðgjöf. Það getur undir engum kringumstæðum verið rétt, hvaða ríkisstofnun sem á í hlut, að ákvörðunin, framkvæmdin og eftirlitið sé allt á einni hendi. Það eru óeðlileg vinnubrögð og þó að þessu fyrirkomulagi sé mótmælt og bent á það sem betur mætti fara, þá neita ég því algerlega að þar sé fyrst og fremst um að ræða einstaklinga sem vilji leggja stein í götu landgræðslu og skógræktar.