Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 17:31:18 (2272)

1997-12-15 17:31:18# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:31]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hafa komið með afdráttarlausan skilning og túlkun á afstöðu í þessu máli. Ég tel það mjög þýðingarmikið að slíkt liggi fyrir í sambandi við þetta efni. Ég vil aðeins benda á að það er kannski ekki eingöngu spurningin um að mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir heldur skipulagsáætlanir því í brtt. segir um mat á umhverfisáhrifum ,,þar sem það á við``. Ég geri því ráð fyrir að það sem snýr að skipulagsáætlunum almennt og framkvæmdaleyfi --- enda sé um meiri háttar framkvæmdir að ræða --- þá gildi þessi túlkun. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu.

Ég tel að með þeim yfirlýsingum sem hér hafa komið frá ýmsum nefndarmönnum um þetta efni þá sé málið að skýrast. Ég vænti þess að hv. talsmaður nefndarinnar taki hér af allan vafa um það efni og það mun hafa áhrif á minn málflutning og afskipti af málinu og ég mun meta það hvort ég læt reyna á mínar brtt. eða ekki í ljósi þess við þessa umræðu.