Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 17:33:39 (2274)

1997-12-15 17:33:39# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, Frsm. ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:33]

Frsm. umhvn. (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Í upphafi máls síns fyrr í umræðunni lét hv. þm. Hjörleifur Guttormsson þess getið að unnið hefði verið að því að ná samkomulagi í málinu og hann taldi að því starfi hefði ekki verið lokið. Það má að vissu leyti til sanns vegar færa.

Þannig var að á fundi nefndarinnar á þriðjudag í síðustu viku var talað um að afgreiða málið úr nefnd á fundi daginn eftir, þ.e. á miðvikudag. Mér var falið að leita eftir samkomulagi, sem ég og gerði. Ég lagði m.a. tillögu fyrir hv. þm. Hjörleif Guttormsson þá um eftirmiðdaginn. Hann hafði síðan samband við mig símleiðis morguninn eftir þar sem við ræddum þetta frekar og bar svo sem ekki mjög mikið í milli að mínu mati, eins og ég reyndar tel að hafi komið fram í þeim brtt. sem fyrir liggja. En við enduðum okkar símtal með því að ég mundi koma með tillöguna í skriflegu formi á fund sem þá átti að vera kl. ellefu. Síðan gerðist það að hv. þm. mætti ekki á fundinn kl. ellefu. Störf nefndarinnar gengu það vel fyrir sig að tvö mál voru afgreidd frá nefndinni áður en hv. þm. mætti til fundarins. En það sem ég hafði hins vegar ekki áttað mig á þegar ég talaði við hv. þm. símleiðis var að hann var staddur í Neskaupstað. Hefði ég vitað það þegar hann var ekki mættur til fundarins kl. ellefu þá hefði ég væntanlega gert mér grein fyrir því að eitthvað hlyti að hafa misfarist með flugið eins og reyndar var raunin. Ég túlkaði það sem svo að þingmaðurinn hefði talið að við hefðum náð nægjanlega mikið saman og eitthvað annað mikilvægara hefði leitt til þess að hann gat ekki mætt á fundinn. Síðan þegar í ljós kom að hann var ósáttur við niðurstöðuna og lagði fram aðra tillögu þá var brugðið á það ráð að boða til annars fundar í nefndinni sem haldinn var í morgun og minnst hefur verið á hér í umræðunum. Niðurstaða fundarins og úr umræðum sem fóru fram bæði þar á undan og hér á eftir var að ekki var flötur á því að ná saman um þetta að svo stöddu.

Þannig er sú saga og alls ekki nein ætlan að undanskilja neinn frá því að taka þátt í samkomulaginu eða komast hjá því að ræða það við einn eða neinn. Misskilningurinn liggur í því að þegar ég talaði við hv. þm. símleiðis gerði ég mér ekki grein fyrir því að hann var í Neskaupstað en ég í Reykjavík. Nú er símasambandið orðið svo gott að maður greinir ekki á milli hvort fólk er í næsta húsi eða næstu heimsálfu, hvað þá í Neskaupstað.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson minntist á að einhver draugagangur væri í gangi. Það má til sanns vegar færa að svo sé. Ég mundi telja í fyrsta lagi að reglugerðardrög sem mér bárust í hendur og voru þess eðlis að í þeim var verið að túlka 27. gr. meira og lengra en texti laganna gaf tilefni til, m.a. hafði ekki verið gert ráð fyrir því í lögunum að gefin væri út reglugerð í sambandi við framkvæmdaleyfin. Úr því er bætt í brtt. meiri hluta nefndarinnar.

Í öðru lagi fengum við fréttir af því að aðilar sem málið skiptir höfðu áhyggjur af því að greinin yrði túlkuð of stíft. Með hliðsjón af þeim reglugerðardrögum var stoðum skotið undir þá skoðun þessara aðila. Því fórum við að skoða þetta mál. Enda kom á daginn að allir nefndarmenn eru sammála um að breyta upphafsorðum greinarinnar, að breyta orðunum ,,allar framkvæmdir`` í ,,meiri háttar framkvæmdir``.

Það er auðvitað alveg rétt að það að segja meiri háttar framkvæmdir er ekki jafnfortakslaust og að segja allar framkvæmdir. Auðvitað er það ekki eins skýrt og þar af leiðandi kannski ekki eins ljóst eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði. En um þetta voru allir sammála og hann líka. Þess vegna var orðin enn þá meiri þörf á að kveðið væri á um frekari útfærslu greinarinnar með reglugerð.

Annar hluti breytinganna sem hefur verið til umræðu er að tekin var út --- tilvísun til skógræktar og landgræðslu. Um það að taka þessi orð út eru allir sammála, líka hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Eina breytingin er sú að hann vill taka út fleiri tilvísanir, tilvísanir til annarra þátta, svo sem efnistöku og breytingar á landi með jarðvegi. En það var einmitt sú samlíking að hafa í sama orðinu nánast skógrækt og landgræðslu og breytingu lands með jarðvegi og efnistöku, sem meiri hluta nefndarinnar fannst ekki vera rétt. Það væri það mikill munur á slíkum framkvæmdum að ekki væri rétt að tala um þau í sama vetfangi.

Ég fór aðeins út í það fyrr í dag í ræðu og eins kemur það fram í nál. að meiri hlutinn túlkar hvað hann sér sem hluti sem ekki teljast til meiri háttar framkvæmda. Mun ég kannski fjalla um það betur síðar. Það er auðvitað túlkunaratriði hvaða hlutir hafa áhrif á umhverfið og hvaða hlutir það eru sem snúa við þróun umhverfisins og hvaða hlutir snúa við þróun sem á sér stað í umhverfinu fyrir tilverknað manna. Á þetta þá allt að vera undir framkvæmdaleyfi sett? Ég tel að meiri hlutinn telji svo ekki vera. Þær landgræðslu- og skógræktarframkvæmdir sem snúa að því að endurheimta náttúruleg gæði landsins eða snúa við þeirri þróun sem maðurinn hefur komið af stað séu ekki þess eðlis að þær hafi áhrif á umhverfið eða breyti ásýnd þess, því áður var orðin umhverfisbreyting sem verið er að snúa við.

Annað atriði sem ég nefndi var þegar land er friðað og náttúrulegir möguleikar landsins fá að koma fram við það, t.d. að hætta beit. Ég tel fráleitt að ætla að menn þurfi að fá framkvæmdaleyfi fyrir því að friða land sitt og hætta að beita landið eins og víða hefur verið gagnrýnt að land er nauðbitið. Að leyfi þurfi til að hætta því af því að það hefur áhrif á umhverfið og áhrif á ásýnd landsins, að landið fái að njóta sín, náttúrulegir möguleikar landsins fái að koma fram. Ég get ekki trúað því að neinn í meiri hlutanum sé ósammála þessu. Reyndar trúi ég því heldur ekki að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sé ósammála þessu. Þess vegna held ég að það sé skýrt að meiri hlutinn er sammála þeirri túlkun sem ég hef haldið fram. Meiri hlutinn eða einstakir hlutar hans hafa hins vegar meiri og víðtækari skoðanir á þessu máli. En á þeim þáttum er ekki verið að taka. Málið gengur ekki lengra en framsögumaður hefur lýst.

Það er síðan gert ráð fyrir því, eins og svo oft áður, að frekari reglur um framkvæmd málsins verði í höndum ráðherra, setning framkvæmdaleyfa og hvernig að þeim er staðið. Tel ég að það sé nauðsynlegt og dæmin sem ég nefndi áðan um drög að skipulagsreglugerð sýna fram á að nauðsynlegt var að setja inn slíkt ákvæði.

Skipulagsáætlanir hafa verið svolítið til umræðu hjá okkur og þá sérstaklega vegna þess að kveðið er mjög skýrt á um það í brtt. að landgræðslu- og skógræktaráætlanir skuli vera samkvæmt skipulagsáætlun. Það er ekki kveðið á um að þær skuli vera háðar framkvæmdaleyfi. Ég tel að það standist ekki að láta áætlanir vera háðar framkvæmdaleyfi. Því áætlun út af fyrir sig er ekki framkvæmd. Hins vegar gæti vel verið hugsanlegt að einhver hluti áætlunar væri háður framkvæmdaleyfi ef framkvæmdin væri metin sem meiri háttar framkvæmd, sem hefði áhrif á umhverfi og ásýnd lands. Það væri þá samkvæmt því sem kveðið er á um í lögum og reglugerð sem ráðherra setur. Þetta hefur verið reynt að rangtúlka hér í umræðunni með stöðu landgræðslu- og skógræktaráætlananna. En það er mjög nauðsynlegt að við gerum greinarmun á áætlununum sjálfum og á framkvæmdinni. Það hefur líka verið talað um mat á umhverfisáhrifum og það að setja skógræktar- og landgræðsluáætlanir undir mat á umhverfisáhrifum. Það hefur verið umdeilt í sölum hv. Alþingis. En um það er ekki verið að fjalla í þessari brtt. Um það er reyndar ekki fjallað í þessum lögum. Um það fjalla önnur lög. Þar hefur hæstv. umhvrh. það vald að geta fyrirskipað að landgræðsluáætlanir og skógræktaráætlanir fari í mat á umhverfisáhrifum. Ég ímynda mér að slík landgræðsluáætlun eða slík skógræktaráætlun sem ráðherra setti í umhverfismat væri áætlun sem hefði jafnvel í för með sér meiri háttar framkvæmd sem gæti verið háð framkvæmdaleyfi. Það er þó ekki hægt að fullyrða. Það gæti verið áætlun sem byggðist á svo litlum framkvæmdum að engan veginn væri hægt að skilgreina það sem meiri háttar framkvæmdir. En það gæti samt sem áður verið ástæða til að setja áætlunina í umhverfismat. En það er bara annað mál og um það fjalla önnur lög. Það er ekki verið að fjalla um það í þeim brtt. sem hér liggja fyrir.

[17:45]

Ég held að það sem meiri hluti nefndarinnar hefur orðið ásáttur um sé alveg skýrt og það sé það stutt á milli þess sem meiri hlutinn hefur náð saman um og þess sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sjálfur leggur til í sínum brtt. að það ætti eiginlega ekki að þurfa að deila miklu meira um þetta tiltekna frv. og þessa tilteknu brtt. En ég skal viðurkenna að umræðuefnið um allan þennan málaflokk er óþrjótandi og skoðanir manna mjög skiptar á því eins og hér hefur komið fram. En ætlan nefndarinnar með þessari tillögugerð er skýr og það þarf ekki að deila um hana.