Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 18:49:21 (2285)

1997-12-15 18:49:21# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[18:49]

Frsm. minni hluta menntmn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur um að það gæti hugsanlega verið til góðs að fá slíka fulltrúa, svokallaða þjóðlífsfulltrúa, í háskólaráð, einkum ef þeir væru valdir eins og skýrsla þróunarnefndar gerði ráð fyrir. Ég held að það sé hins vegar alveg ljóst að það hlýtur að vekja ákveðna tortryggni hversu hart það er sótt að ráðherra skipi þessa fulltrúa og það án tilnefningar. Það ber vott um ofstjórn. Þó svo að hv. þm. finnist málflutningur minn ómálefnalegur og órökstuddur, þá sæki ég hann allan inn í frv. sjálft. Ég hef ekkert gagnrýnt hér eða sagt sem ekki á stoð í frv. sjálfu.

Það getur vel verið að það komi illa við fulltrúa Sjálfstfl. hér í salnum að þessi atriði skuli vera gagnrýnd svona, en þau eru í frv. og þau eru gagnrýni verð.

Við gerum okkur fullljóst, fulltrúar minni hlutans, að þessi lög eiga við fleiri skóla en Háskóla Íslands. Við heyrðum líka að það voru fleiri en Háskóli Íslands sem gagnrýndu stjórnunarkaflann. Til voru þeir sem héldu að þessi stjórnunarkafli væri fyrst og fremst fyrir Háskóla Íslands af því að mönnum var það alveg ljóst að hann passaði ekki kannski fyrir litlu háskólana, en hann passaði ekki heldur fyrir þennan stóra háskóla. Reyndar, herra forseti, virtist sem svo að stjórnunarkaflinn passaði yfirleitt ekki fyrir neinn.