Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 21:13:51 (2289)

1997-12-15 21:13:51# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[21:13]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mikilvæg grundvallarlöggjöf, sagði hv. síðasti ræðumaður og ég er honum algerlega sammála um það. Ég vil hins vegar bregaðst við þeim orðum hans að háskólarnir hafi beðið sér griða í vor til þess að þetta frv. yrði ekki gert að lögum þá. Sannleikurinn í því máli er að háskólaráð Háskóla Íslands óskaði eftir því að fá ráðrúm til haustsins til þess að geta fjallað rækilega um frv. á sínum vettvangi innan háskólans. Háskóli Íslands lýsti því hins vegar yfir í umsögn til menntmn. síðastliðið vor að hann væri því fylgjandi að sett væru lög um háskólastigið eins og segir orðrétt í bréfi háskólans sem er dags. 5. maí 1997, með leyfi forseta:

,,Háskólinn er því fylgjandi að lög verði sett um háskólastigið og telur flest atriði frv. fyrir utan IV. kafla þess til bóta fyrir stöðu háskóla í landinu.``

Það var hins vegar um það samkomulag í menntmn. í ágætum friði og einingu að skynsamlegt væri að verða við ósk háskólans um þetta efni. Það var enginn ágreiningur um það. Um það náðist mjög gott samkomulag og það var jafnframt samkomulag um það að málið yrði afgreitt fyrir jól.

Hvað snertir hins vegar þau orð sem síðasti ræðumaður lét falla um fjármál Háskóla Íslands, þá vil ég minna á að við erum nýbúin að samþykkja hér brtt. við fjárlögin upp á 50 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til háskólans.