Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 22:07:15 (2293)

1997-12-15 22:07:15# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:07]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það var ýmislegt í ræðu hv. þm. sem ég tel ástæðu til að gera miklar athugasemdir við. Meðal annars tel ég að þetta frv., þó það verði að lögum, muni ekki skipta neinum sköpum fyrir listaháskólana, svo ég nefni dæmi, því miður. En ég ætla sérstaklega að mótmæla orðum hans um skólagjöldin. Í 19. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:

,,Í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers háskóla skal setja reglur um hvernig háttað skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms við viðkomandi skóla. Í sérlög hvers ríkisháskóla skal setja reglur um öflun sértekna með gjaldtöku fyrir þjónustu er skólarnir bjóða.``

Ég vil spyrja hv. þm.: Hvað í þessu kemur í veg fyrir, að óbreyttum lögum að öðru leyti, að viðkomandi skólar ákveði að innheimta skólagjöld? Ég tel og byggi það m.a. á umræðu um málið í menntmn., að með þessu sé í raun og veru verið að opna fyrir það að skólagjöld geti verið lögð á vegna rekstrarkostnaðar skólanna, það sé algjörlega ótvírætt. Og til að hafa þessi mál skýr, ef Alþingi vill hafa þau skýr og hv. þm. vill hafa þau skýr, þá verði Alþingi og hv. þm. að fallast á brtt. minni hlutans þar sem það er stafað út algjörlega í smáatriðum hvað er átt við með þessum gjöldum og til hvers þeim verði varið. Ef hann er þeirrar skoðunar sem hann lýsti þá á hann kost á því að styðja tillögu minni hlutans.