Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 22:50:36 (2303)

1997-12-15 22:50:36# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:50]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lagði áherslu á það í máli mínu að ég vildi gjarnan að lagasetningin væri skýr og ljóst væri hvort og hvenær við erum að taka upp skólagjöld. Það er óskýrt enn þá í hugum okkar sem höfum skoðað þessi mál. Svo ég verð að setja, virðulegur forseti, að mikil er trú hv. þm.

Varðandi gleymda hópinn þá þekki ég mjög vel samninginn og skólann og það er stutt síðan ég var þar í heimsókn. Hins vegar er það þannig að sá sem þarf að borga fyrir fullorðinsfræðslu er ómenntaður og er í verkamannavinnu, hann er lægst launaður, fyrir hann er erfiðast að reiða fram fé. Sá sem er í slíkum störfum á erfiðast með að fá námsleyfi frá atvinnurekanda. Atvinnurekendur eru tregastir til að leggja fram fé fyrir þessa hópa þó þess séu dæmi í sérstökum samningum eins og þeim sem þingmaðurinn nefndi. Þessi hópur er mjög gleymdur. Hans hefur verið gætt á einum stað og það er með tilkomu starfsmenntasjóðs sem veitir til ákveðinna verkefna en hann veitir ekki til einstaklinga sem eru að fara t.d. í hefðbundinn kvöldskóla. Hann veitir til ákveðinna verkefna og hann hefur gefið þúsundum ákveðin tækifæri en það er engin þróun, engin framtíðarsýn í starfsmenntamálum þjóðarinnar um þessar mundir og upphæðin sem veitt er í starfsmenntasjóð er sú sama og var í fyrra og ég held í hittiðfyrra. Þegar ég er að tala um gleymda hópinn í þessari umræðu þá hef ég mjög góða þekkingu á því að það er ekki verið að gera neitt, ekki ofan frá, þó á einstökum stöðum á landinu sé verið að reyna að bregðast við heima í héraði.