Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 22:52:59 (2304)

1997-12-15 22:52:59# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. meiri hluta SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:52]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur verið í kvöld um það mikilvæga mál sem er á dagskrá. Það er reyndar leitt að ekki skuli vera fleiri viðstaddir umræðuna en raun ber vitni vegna þess að hún hefur verið ákaflega málefnaleg og skemmtileg. Í máli síðasta ræðumanns kom fram að ég hefði nefnt sérstaklega að við værum að ljúka heildstæðri löggjöf um öll skólastigin. Það er alveg rétt ég nefndi það. En það er að sjálfsögðu svo að síðan eigum við eftir að fjalla um sérlög um ríkisháskólana sem koma í kjölfarið á rammalöggjöfinni. Á dagskránni á eftir er frv. um Kennaraháskóla sem er einmitt dæmi um útfærslu á sérlögum um Kennaraháskólann í samræmi við rammalöggjöfina.

Ég tel að þrátt fyrir allt og þó það séu skiptar skoðanir um ýmis atriði þessa frv., sem við höfum verið að ræða í kvöld, þá sé ekki svo mikill ágreiningur þegar grannt er skoðað. Ég hef þegar svarað fullyrðingum sumra hv. þm. um þá ofstjórn sem þeir segjast sjá í frv. Ég tel að það sé ekki um neitt slíkt að ræða. Ég tel þvert á móti að þessi rammalöggjöf tryggi mjög vel faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði háskóla. Ég ætla að drepa á örfáar greinar máli mínu til sönnunar. Í 3. gr. segir:

,,Ríkisreknir háskólar eru sjálfstæðar ríkisstofnanir sem heyra stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra og lúta stjórn samkvæmt sérstökum lögum um hvern skóla.``

Hvað þýðir þetta? Það þýðir t.d. að ekki er hægt að koma með stjórnsýslukæru til ráðherra. Háskólarnir úrskurða sjálfir í málum sínum.

Í 10. gr. segir:

,,Yfirstjórn hvers háskóla er falin háskólaráði, rektor, deildarfundum, deildarráðum og deildarforseta ef skólanum er skipt í deildir.``

Í 11. gr. segir:

,,Háskólaráð fer með úrskurðarvald í málefnum skólans og stofnana sem honum tengjast, vinnur að þróun og eflingu þeirra og markar þeim heildarstefnu. Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan hvers skóla nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum þessum eða í sérlögum sem gilda um hvern skóla.``

Í 12. gr. segir:

,,Háskólaráð skal samþykkja eftirfarandi nema annað sé berum orðum tekið fram í sérlögum eða reglugerð um hvern skóla:

1. Stjórnskipulag skólans og þar á meðal stjórnskipulag deilda.

2. Rammafjárhagsáætlun og starfsáætlun skólans, þar á meðal rammafjárhagsáætlun og starfsáætlun hverrar deildar.

3. Kennsluskrá.``

Fleira mætti telja en ég nefni þó sérstaklega 19. gr. sem ég held að sé óhætt að segja að sé mikil ánægja með af hálfu skólanna og þar er fjallað um fjármálin. Skólarnir sem sendu inn umsögn lýstu ánægju með þessa grein sérstaklega.

Miklu fleira mætti nefna en ég læt lokið upptalningu að sinni. Mér finnst hins vegar að það stangist nokkuð á í málflutningi þingmanna stjórnarandstöðunnar annars vegar þegar þeir halda því fram að það sé um ofstjórn að ræða í frv. og hins vegar vilja þeir láta umræðuna, sem er um rammalöggjöf, snúast allt of mikið um einn háskóla, þ.e. Háskóla Íslands og að það eigi að taka tillit til hans í smáu og stóru í rammalöggjöf.

Skipan rektors hefur verið gerð að umtalsefni. Háskóli Íslands hefur sérstaklega haldið því fram að það hvernig rektor hefur verið valinn í þeirri stofnun hafi táknrænt gildi og fyrir því sé söguleg hefð. Það er að vissu leyti alveg rétt. En er það ekki góð stjórnsýsla að rektor sé skipaður? Gefur það ekki rektornum líka ákveðið sjálfstæði, t.d. gagnvart háskólasamfélaginu? Það hefur ekki verið sýnt fram á það í umræðunum að svo sé ekki. Gert er ráð fyrir sömu skipan við kjör rektors í Háskóla Íslands eins og verið hefur til þessa. Frv. gefur það svigrúm. Með brtt. meiri hlutans er alveg ljóst að það er trygglega frá því gengið að rektor verður ekki leystur frá störfum nema til komi samþykki meiri hluta háskólaráðs.

Skólagjöld hafa nokkuð verið til umræðu. Í 3. mgr. 19. gr. segir:

,,Í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers háskóla skal setja reglur um hvernig háttað skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms við viðkomandi skóla.``

Í greinargerð með 19. gr. segir:

,,Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að í sérreglum hvers skóla verði kveðið á um hvernig gjaldtöku af nemendum sé háttað. Reglur um gjaldtöku geta verið mismunandi eftir skólum en miklu skiptir að þær séu skýrar þannig að nemendum sé ljóst að hverju þeir ganga í þessum efnum.``

[23:00]

Um þetta höfum við dæmi um útfærslu í kennaraháskólafrv. Það er ekki verið að taka neina ákvörðun um skólagjöld í ríkisháskólum í þessari grein. Ef slíkar tillögur koma fram verður tekin um það ákvörðun hér á hinu háa Alþingi. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar lesa eitthvað annað út úr frumvarpstextanum en þar stendur. Ég verð að segja að mér finnst vera allt of mikil tortryggni í þessari umræðu um skólagjöld.

Að síðustu vil ég nefna lög um skólakerfi. Þau voru sett 1974. Það hefur verið vitnað sérstaklega í 6. gr. þeirra. Ég ætla að vitna í 10. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Nánari ákvæði um framkvæmd fræðslu, skólaskipan hvers stigs og fjárframlög ríkis og sveitarfélaga til skólahaldsins skulu sett í lögum og reglugerðum fyrir skóla hvers stigs.``

Enn fremur segir í gildistökuákvæðinu, með leyfi forseta:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda svo fljótt sem aðstæður leyfa og eigi síðar en 10 árum eftir gildistöku þeirra.``

Þess ber að gæta að þessi lög eru sett áður en sett er heildstæð löggjöf um framhaldsskóla. Ég bið þingmenn að athuga það alveg sérstaklega. Skólakerfislögin eru rammalög og kveða á um skipan skólakerfisins. Þau eru orðin þetta gömul, frá 1974 og þau eru orðin úrelt. Með samþykkt rammalöggjafar um háskóla er þessu verki lokið sem kemur fram í 10. gr. svo að það er því hægt að segja að skólakerfislögin séu þarflaus.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta mikilvæga mál en ég ítreka þakkir mínar til þingmanna fyrir málefnalega og skemmtilega umræðu. Það er alveg ljóst að það er mjög eðlilegt að skoðanir séu skiptar um mál af þessu tagi sem auðvitað á eftir að standa lengi, er mikilvæg viðbót við þá löggjöf sem fyrir er og mér finnst það afskaplega eðlilegt að hér komi fram skiptar skoðanir á ýmsum ákvæðum frv.