Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 23:12:18 (2311)

1997-12-15 23:12:18# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[23:12]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var að mínu mati alveg með ólíkindum að heyra rök hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur og reyndar einnig hv. þm. Hjálmars Árnasonar hér áðan að það orki tvímælis að nú sé hindrunum rutt úr vegi fyrir skólagjöldum eins og við höfum haldið fram. Þau vísa í þessu sambandi í sína túlkun í nefndarálitinu og einnig í það hvernig skrásetningargjaldið er útfært í frv. um Kennaraháskólann.

Það er alveg ljóst eins og hér hefur komið fram að það er verið að fella niður lögin um skólakerfi, sbr. 26. gr. þessa frv., og það kom mjög skýrt fram í menntmn. að 19. gr. væri orðuð eins og þar er til þess að geta sett á skólagjöld í einkaskólum. Það er ekki gerður greinarmunur á einkaskólum og ríkisháskólum í þeirri setningu, enda kom skýrt fram hjá nefndarmönnum að þeir vildu hafa þetta svona til þess að það væri opið að hægt væri að setja á skólagjöld í ríkisháskólum. Þess vegna er alveg óþolandi að hlusta á það í ríkisfjölmiðlum að formaður menntmn. vísi þeim skilningi á bug að með frv. sé verið að ryðja hindrunum fyrir skólagjöld úr vegi. Þess vegna tek ég undir þá ósk sem kom fram hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að nefndin komi saman milli 2. og 3. umr. og að texti frv. verði skýrður þannig að ekki sé verið að tala um tortryggni, misskilning og annað í þeim dúr.