Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 23:14:28 (2312)

1997-12-15 23:14:28# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[23:14]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir mjög góðar umræður um þessi mikilsverðu mál sem hér hafa verið til umræðu og þakka hv. menntmn. fyrir hennar störf og sérstaklega formanninum, hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur því að eins og hér hefur komið fram í umræðunum þá hefur hún ekki aðeins leitt umræður í menntmn. og afgreiðslu nefndarinnar á þessu frv. heldur frumvörpum um öll skólastigin á þessu kjörtímabili og hinu síðasta. Á Alþingi hafa farið á undanförnum árum fram umræður um öll skólastigin, jafnt leikskólastigið, grunnskólastigið, framhaldsskólastigið og nú háskólastigið þar sem menn hafa tekið ákvarðanir um skipan þessara skólastiga og hvernig að málum skuli staðið á því hverju fyrir sig. Í samræmi við það hefur verið unnið að nýrri stefnumörkun fyrir skólastarfið í landinu og þess sjást víða merki að þar eru breytingar á döfinni.

[23:15]

Hér er verið að fjalla um frv. til laga um háskóla, heildarlöggjöf um háskólastigið, æðsta skólastigið og farið inn á nýjar brautir í mörgu tilliti eins og hér hefur komið fram. Í raun og veru finnst mér að sá ágreiningur sem uppi er í hv. menntmn. eftir umræður í nefndinni og þær ræður sem hér hafa verið fluttar frekar lúta að atriðum sem ekki eru í þessu frv. heldur en því sem í frv. stendur. T.d. get ég alls ekki tekið undir það að þetta frv. einkennist af ofstjórn eða ofstjórnartilhneigingum. Þvert á móti er í frv., eins og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir hefur vakið athygli á nú síðast í ræðu sinni, ítrekað tekið fram að æðsta vald í málefnum háskólanna, að því er starfsemi þeirra varðar, er í höndum skólanna sjálfra. Og ef menn bera saman stöðu skólanna núna gagnvart menntmrn. og stöðu þeirra eins og hún verður eftir að þetta frv. er orðið að lögum, þá mun koma í ljós, ef menn grandskoða það, að sjálfstæði skólanna er stóraukið. Ávörðunarvald þeirra um innri málefni er skýrt skilgreint í samræmi við hugmyndir um stjórnsýslureglur og stjórnsýslulög og það leikur enginn vafi á því að ýmis erindi sem nú eru til umfjöllunar í menntmrn. og lúta að innra starfi skólanna munu ekki koma til ráðuneytisins vegna þess að tekin eru af öll tvímæli í þessu frv. og þeim lögum sem vonandi verða samþykkt á næstu dögum um þau málefni.

Að því er varðar gildistökuna sem hv. þm. Svavar Gestsson vék sérstaklega að --- og er nauðsynlegt að hafa í huga hvernig verður staðið að útfærslu á þessum væntanlegu lögum gagnvart einstökum háskólum, þá er það eins og kemur fram í ákvæði til bráðabirgða að skólarnir hafa tvö ár frá gildistöku til þess að laga starfsemi sína að lögum þessum.

Hér hafa verið til umræðu lög um skólakerfið og þar var gert ráð fyrir að skólar hefðu tíu ár til að laga sig að þeim löum. Hér er mælt fyrir um að þetta gerist á tveimur árum og nú þegar liggur fyrir fyrsta frv. um Kennaraháskóla Íslands sem verður til umræðu síðar á þessum fundi. Að því er varðar Háskóla Íslands þá var það niðurstaða menntmrn. og háskólayfirvalda að sameiginlega mundu fulltrúar ráðuneytisins og Háskóla Íslands vinna að því að setja í frumvarpsform þær hugmyndir sem uppi eru um aðlögun Háskóla Íslands að þessu frv. og ég vona að það frv. sjái dagsins ljós innan fárra mánaða.

Að því er Háskólann á Akureyri varðar þá verður ýtt á það að hann lagi starfsemi sína að frv. og sömu sögu er að segja um Tækniskólann. Í gildi eru sérstök lög um listaháskóla þannig að menn sjá það í hendi sér að það er ekki í sjálfu sér nein ofætlan að á tveimur árum takist að laga háskólakerfið eða háskólana að þeim rammaákvæðum sem í þessu frv. er að finna.

Ég held að bráðabirgðaákvæðið verði ekki misskilið. Það er þannig að ekki er hægt að segja Alþingi fyrir verkum í þessu tilliti. Það er verið að segja þeim fyrir verkum sem eiga að vinna að frumvarpssmíðinni en það er Alþingi sjálft sem tekur að lokum ákvarðanir um frumvörpin og það er Alþingi sjálft sem getur lengt þennan frest ef mönnum býður svo við að horfa hér í þessari virðulegu stofnun. En ákvæðin til bráðabirgða eru skýr varðandi skyldur menntmrn. og skólanna og vinna mun fara fram á vettvangi skólanna og ráðuneytisins við aðlögun að þessari rammalöggjöf.

Menn munu velta fyrir sér því sem hefur verið mikið rætt og stendur í 3. mgr. 19. gr. frv. En 19. gr. er ekki síst mikilvæg þegar hugað er að sjálfstæði skólanna því eins og þar segir þá á hver ríkisháskóli að hafa sjálfstæða fjárveitingu á fjárlögum og menntmrh. á að gera tillögur um fjárveitingar á grundvelli fjárhags- og starfsáætlunar hvers skóla til fimm ára. Það á að skapa skólunum starfsöryggi og fjárhagslegt öryggi til fimm ára á grundvelli áætlana sem lagðar verða fram. Einnig er menntmrh. heimilað að gera samning við hvern skóla um tilhögun á greiðslum á fjárlagalið þeirra í þeim tilgangi að skólarnir taki á sig aukna rekstrarábyrgð. Þarna er einnig um nýmæli að ræða.

Síðan stendur í 2. mgr. 19. gr. að menntmrh. er heimilt að gera samning við háskóla sem rekinn er af einkaaðilum og fengið hefur starfsleyfi samkvæmt 4. gr. um að annast tiltekna menntun á háskólastigi gegn því að ríkissjóður greiði ákveðna fjárhæð fyrir þjónustuna.

Hér er vikið að mjög mikilvægum þætti sem sjálfsagt er að ræða ef menn vilja og mér heyrðist að menn vildu skoða m.a. með hliðsjón af nýgerðum samningi um viðskiptaháskóla í Reykjavík. Sá samningur er hins vegar gerður á grundvelli fjárreiðulaganna. Ef menn skoða þann samning og þau gögn sem honum fylgja og sjálfsagt er að leggja fram fyrir hv. nefndarmenn í menntmn., þá geta þeir kynnst því hvernig er unnt að ganga að slíkum samningi og ganga frá slíkum samningi nú þegar á grundvelli fjárreiðulaganna, enda var það sérstaklega tekið fram af efh.- og viðskn. þingsins þegar hún fjallaði um þau lög og þeim sem komu að því máli hér í þinginu að það bæri að skilgreina eða skýra ákveðin lagaákvæði í þeirri grein á þann veg að hún heimilaði einmitt menntmrh. að ganga til samninga eins og gert hefur verið við Verslunarskóla Íslands um viðskiptaháskóla í Reykjavík og við undirrituðum á föstudaginn var, fjmrh. og ég í Verslunarskólanum. En í þeim samningi er tekið fram að hann gildi þar til nýr samningur verði gerður á grundvelli rammalöggjafarinnar. Þar er alveg tíundað hvernig að því skuli staðið þannig að það eru engin vafaatriði að því er lagaheimildir til slíkrar samningsgerðar varðar, eða hvernig staðið verður að málum með hliðsjón af þessari löggjöf eftir að Alþingi hefur samþykkt þetta frv.

Síðan segir í 3. mgr. 19. gr. sem menn eru að fjalla hér um, með leyfi forseta:

,,Í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers háskóla skal setja reglur um hvernig háttað skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms við viðkomandi skóla.``

,,Vegna náms.`` Það er ekki fyrir nám í skólanum heldur vegna þess að menn innrita sig til náms í skólanum að þá er heimilað að taka af þeim skrásetningargjald eða innritunargjald og síðan er mælt fyrir um það að í sérlögum hvers ríkisháskóla skuli setja reglur um öflun sértekna með gjaldtöku fyrir þjónustu er skólarnir bjóða. Það sem átt er við þegar verið er að tala um sértekjur er t.d. sértekjuöflun Háskóla Íslands með endurmenntun. Ef menn líta á hvernig tekjuöflun Háskóla Íslands er háttað þá sjá þeir að á fjárlögum ársins 1996 er fjárveiting til kennslu 1 milljarður 50 millj. En heildarfjárveiting og tekjur Háskóla Íslands á árinu 1996 eru 3 milljarðar 9 millj. kr. þannig að hann hefur tekjur af Endurmenntunarstofnun, hann hefur tekjur af Happdrætti Háskóla Íslands og hann hefur tekjur af ýmsum þjónustugjöldum sem skólinn innheimtir. Það er heimild til þess að afla slíkra sértekna sem verið er að mæla fyrir um í þessu ákvæði, að það sé ekki verið að útiloka að skólarnir geti aflað sér sértekna, enda sé um það getið í lögum þeirra og á þeim forsendum sem þar eru settar.

Í þessu frv. er ekki tekin afstaða til skólagjalda og þá á ég við greiðslur nemenda fyrir kennslu eða greiðslu þeirra af kennslukostnaði í ríkisháskóla. Það er ekki tekin afstaða til þess í þessu frv. og það kemur hvergi fram í frv. eða greinargerð með því að uppi séu vangaveltur um að taka upp slík gjöld enda er ekki hér á þessum vettvangi verið að ræða um það mál. Það er verið að ræða um rammalöggjöf um háskólastigið. En það er sagt að ef menn ætli að taka þetta upp í einstökum skólum þá beri að gera það í sérlögum um þá skóla og það er ekki verið að gera neinar tillögur um slíka gjaldtöku hér. Hins vegar er sjálfsagt og eðlilegt og þær umræður hafa farið fram og fara fram á vettvangi skólanna, að menn taki afstöðu þá til þess á vettvangi skólanna og síðan verði það ákveðið á hinu háa Alþingi hvort slík gjöld verða í lög leidd. Það er ekki gert með þessu frv. og það verður ekki gert nema með sérstakri ákvörðun Alþingis og með samþykki meiri hluta Alþingis og það verður ekki hver einstakur skóli sem getur ákveðið þetta. Það er Alþingi eitt sem getur ákveðið þetta varðandi ríkisskólana og þess vegna finnst mér mjög einkennilegt að telja mönnum trú um að hér sé verið að setja í lög slík ákvæði af því að þeir sem tala mest um það hér í þessum sal eru þeir sem lýsa jafnframt megnri andúð sinni á því að slík gjöld verði tekin upp. Þess vegna gætu einhverjir sagt sem rýna í lögin og vilja skýra þau og taka mið af umræðum á Alþingi: ,,Stjórnarandstaðan taldi að með þessu frv. væri verið að samþykkja heimild til upptöku á skólagjöldum og hvernig á að bregðast við því gagnvart þeim mönnum ...`` (SvG: Þetta er lögskýring.) Þetta er lögskýring. Ræður hv. þingmanna eru hluti af lögskýringargögnum sem menn standa frammi fyrir. Þess vegna tel ég mjög brýnt að ég sem menntmrh. taki skýrt fram að þetta frv. mælir ekki fyrir um upptöku skólagjalda. (SvG: Ég mótmæli ...) og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður menntmn., hefur jafnframt tekið af öll tvímæli um þetta efni. Þeir sem hafa gefið til kynna að eitthvað annað felist í frv. eru hv. stjórnarandstæðingar eins og við höfum heyrt í þessum umræðum.

Þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram. Ég er óhræddur hins vegar að ræða um skólagjöld og kosti og galla þeirra en það felst ekki í þessu frv. og það er algjörlega ástæðulaust af hv. þm. að túlka ýmislegt sem ég hef sagt um það efni sem hluta af þeirri frumvarpsgerð sem hér liggur fyrir og þá hefði ég ekki hikað við að setja slíkt inn í greinargerðina eða láta orð falla á þann veg í ræðum mínum um þetta mál.

Ég vil því ítreka það, hæstv. forseti, sem ég hef hér sagt að í þessu frv. er ekki mælt fyrir um upptöku skólagjalda í ríkisháskólum hér á landi.

Að því er varðar rektor og stöðu hans, þá er það alveg ótvírætt samkvæmt frv. að háskólasamfélagið velur rektor og menntmrh. er bundinn af ákvörðunum meiri hluta í háskólum, háskólaráði hvers skóla, hvern hann skipar rektor. Það er ekki verið að svipta háskólasamfélagið svonefnda neinum rétti til þess að ákveða það hverjir eru rektorar. Hins vegar tryggir breytingin sem frv. hefur í för með sér að staða rektors í íslenska stjórnkerfinu er alveg skýr. Með því að ráðherra skipar rektor þann sem háskólasamfélagið velur, þá eru tekin af öll tvímæli um stöðu rektors samkvæmt íslenskum stjórnsýslureglum og lögum. Þess vegna er það rétt sem kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar að með þessari skipan er rektorsembættinu tryggt aukið öryggi. Ég hef orðað það svo á almennum fundi í Háskóla Íslands að með þessu sé sett sérstakt öryggisnet fyrir rektor í hans störfum innan íslenska stjórnkerfisins sem háskólasamfélagið er hluti af. Háskólasamfélagið velur rektorinn, gerir tillögu til ráðherrans og með því að ráðherra skipar rektor fær rektorinn ótvíræða stöðu í íslenskri stjórnsýslu og íslenska stjórnkerfinu sem er mjög brýnt fyrir stöðu háskólans í okkar stjórnkerfi.

Að því er varðar breytinguna á háskólaráði þá er í sjálfu sér ekki deilt um meginbreytinguna sem felst í því að fækka í háskólaráðinu í Háskóla Íslands t.d. og að háskólaráðið fær nýtt hlutverk, skýrara hlutverk og hættir að vera almennur vettvangur fyrir alla deildaforseta og verður stjórn skólans sem hefur það hlutverk sem skýrt er í frv. Ég verð alltaf undrandi þegar ég heyri stjórnmálamenn tala um að eitthvað óeðlilegt sé við það að ráðherrum sé falið vald eins og í þessu tilviki að tilnefna tvo menn til setu í háskólaráði. Ég hef nefnilega litið þannig á að fyrir stjórnmálamenn sé það mikils virði að slíkt vald sé í höndum ráðherra sem þeir geti þá haft tækifæri til að gagnrýna hér á hinu háa Alþingi og vísi með vantrausti á ef þeir telja að ráðherrann misfari með þetta vald.

[23:30]

Það sem hér hefur komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar er að hún vill að þessu valdi verði vísað til einhverra óskilgreindra aðila, annars staðar en hér, sem hún getur kallað til ábyrgðar á hinu háa Alþingi. Ég held að stjórnmálamenn séu með slíkri skírskotun og slíkum málflutningi að skorast undan ábyrgð sem þeir eru kjörnir til að axla þegar þeir taka að sér opinber störf. Þess vegna finnst mér að það eigi frekar að vera hlutverk okkar stjórnmálamannanna að standa vörð um þennan rétt stjórnmálamanna til þess að tilnefna í nefndir og ráð en ekki að gagnrýna það og vera með þá áráttu að fela það alltaf einhverjum öðrum en þeim sem kjörnir eru af fólkinu eins og við erum og berum síðan ábyrgð gagnvart Alþingi og komum hér fram og verjum okkar mál og skýrum ákvarðanir okkar.

Þegar rætt var um framhaldsskólafrumvarpið töldu menn að það væri mikil hætta fólgin í því að menntmrh. skipaði meiri hluta í skólanefndir framhaldsskólanna. Það hefur verið gert og ég hef ekki orðið var við neina gagnrýni á það hvernig að þeim málum var staðið eða að menn telji að það hafi veikt stöðu framhaldsskólanna sem stofnana í okkar þjóðfélagi. Mér finnst því að menn verði að líta á reynsluna, meta hvernig staðið hefur verið að því að framkvæma ýmis slík ákvæði sem oft og tíðum hafa verið gagnrýnd hér í þingsölunum og draga síðan sínar ályktanir. Ég tel að margt af því sem sagt hefur verið um þessa tvo fulltrúa og rétt ráðherra til þess að tilnefna þá eigi ekki við nein rök að styðjast og sé frekar útúrsnúningur eða viðleitni til að gera hluti tortryggilega gjörsamlega að ástæðulausu.

Ég vil segja að það vekur mér dálitla undrun að sjá að í brtt. minni hluta menntmn. er lagt er til að það megi innheimta allt að 25 þús. kr. gjald í þessum skólum. Miðað við það hvernig menn töluðu fyrr á þessu kjörtímabili þegar ég flutti brtt. á háskólalögunum um að heimila gjaldtöku allt að þessu marki og hve harkalega menn gagnrýndu það og töldu að það væri árás á jafnrétti til náms þá kemur á óvart að þessir sömu aðilar skuli núna leggja til að gjaldtakan verði allt að 25 þús. kr. En svona breytist og svona er þróunin og menn átta sig á því að það er ekki allt jafnslæmt og þeim sýnist kannski í fyrstu.

Það hefur verið rakið svo rækilega hér hvers vegna ekkert er óeðlilegt við það að leggja af lögin um skólakerfi eða aftengja þau eins og mig minnir að það hafi verið orðað. Það er ekkert í þeim lögum sem í sjálfu sér hefur gildi eftir að við erum búin að setja skólakerfinu löggjöf með þeim hætti sem hér er verið að gera. Þess vegna tel ég að engin rök mæli með því að þau lög verði áfram í gildi. Ef menn vilja binda hendur Alþingis varðandi það að nám sé ókeypis á Íslandi þá á að gera það með því að setja það í stjórnarskrána því Alþingi getur á hverjum tíma, hvort sem þessi lög frá 1974 eru í gildi eða ekki, ákveðið að taka upp skólagjöld í einhverjum ríkisskólum því Alþingi breytir þá bara þessum almennu lögum. Þótt menn lýsi yfir eins og gert er í þessari grein, gefi slíkar hátíðlegar stefnuyfirlýsingar, þá bindur það ekki meiri hluta Alþingis á hverjum tíma og hann gæti þrátt fyrir það að þessi lög yrðu áfram í gildi ákveðið að taka upp skólagjöld. Ef menn vilja í raun og veru binda hendur löggjafans að þessu leyti þá eiga þeir að flytja tillögu um að þetta ákvæði verði sett í stjórnarskrá landsins. Þá er búið að veita þessu sjónarmiði það öryggi sem þarf til þess að löggjafinn sé ekki að ráðskast með þetta mál því hann getur það hvað sem líður lögunum frá 1974. Það er nú svo einfalt og ekki flóknara en svo að menn geta hér með einfaldri samþykkt við setningu nýrra laga tekið af skarið um þetta efni og þá ýtt þeirri löggjöf til hliðar.

Ef ég vík að einstökum atriðum sem fram hafa komið í ræðum manna fyrir utan það sem ég hef þegar gert þá verða menn að hafa það í huga að Háskóli Íslands var með ákveðin mótmæli sl. vor gegn IV. kafla frv. og það bæri að fella hann út. Háskólinn hefur fallið frá þessari kröfu. Sumarið leið og háskólinn hefur fallið frá þeirri kröfu að þessi kafli yrði felldur úr lögunum. Háskólinn hefur einnig komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu þeir meinbugir á frv. sem hann taldi sl. vor og þar að auki hefur nú með brtt. nefndarinnar verið komið til móts við ýmis gagnrýnisatriði sem fram hafa komið frá háskólanum. Það er því alrangt að halda því fram að háskólinn hafi verið kúgaður með einum eða öðrum hætti. Málið hefur verið skoðað og sá tími sem gafst í sumar til að athuga málið af hálfu háskólans hefur leitt til annarrar niðurstöðu en lá fyrir sl. vor. Það er einnig rangt að halda því fram að ég hafi óskað eftir því sérstaklega í vor að þetta frv. yrði knúið í gegn þá. Það kom aldrei fram í máli mínu. Það kom aldrei fram nein sérstök ósk um það. Hins vegar er þetta frv. og sérstaklega tímasetningar varðandi það brýnar vegna eindreginna óska um að lögin um Kennaraháskóla Íslands taki sem fyrst gildi og það markmið náist sem menn eru að setja sér þar.

Að því er varðar spurningar hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur um hvort skólagjöld yrðu tekin upp við framhaldsnám í Háskóla Íslands þá verð ég að segja það sama og ég hef sagt áður að það verða ekki tekin upp nein skólagjöld í Háskóla Íslands nema Alþingi samþykki það og það komi fram tillaga hér sem nýtur meiri hluta á Alþingi. Háskóli Íslands getur því ekki ákveðið þetta upp á sitt eindæmi. Það verður að taka ákvarðanir um það í lögum, sérstökum lögum um Háskóla Íslands, og Alþingi verður að fallast á það.

Að því er reiknilíkan fyrir Háskóla Íslands varðar þá er það mál sem ég hef oft sagt að væri á lokastigi og vonandi er það að komast á lokastig í raun og veru því Háskóli Íslands hefur ekki enn og menn hafa ekki enn komist að þeirri lokaniðurstöðu sem þarf til þess að við getum sagt að það liggi endanlega fyrir. En ég hef jafnframt sagt að um leið og þetta reiknilíkan liggur fyrir og við höfum náð samkomulagi um alla þætti þess þá mundi ég beita mér fyrir því að á ákveðnu árabili yrði því marki náð að uppfylla kröfurnar samkvæmt líkaninu. Ég hef ekki heyrt annað en að forráðamenn Háskóla Íslands séu sama sinnis, að það beri að stefna að þessu á ákveðnu árabili og það sé mjög brýnt að koma þessu þannig fyrir að það sé á grundvelli samnings á milli ríkisvaldsins og háskólans. Sú löggjöf sem við erum að fjalla um núna er góður grunnur undir það hvernig menn mundu standa að slíkri samningsgerð og inntakið í reiknilíkaninu liggur mjög skýrt fyrir þótt lokahnykkurinn sé enn eftir.

Ég held að það sé nú of fast að orði kveðið hjá hv. þm. þegar hún sagði að Háskóli Íslands væri vegna fjárskorts að velta fyrir sér að verða sjálfseignarstofnun, nema þá að hún telji að innan Háskóla Íslands séu svo háværar raddir um að skólinn geti orðið sjálfseignarstofnun í því skyni að hefja innheimtu á skólagjöldum að það knýi skólann á um að stíga það skref. En skóli sem sjálfseignarstofnun á borð við Háskóla Íslands yrði náttúrlega að meginhluta háður samningum við ríkisvaldið um fjárveitingar og ég hef ekki heyrt neitt í þeim viðræðum sem ég hef átt við forráðamenn Háskóla Íslands að þeir væru að velta fyrir sér að stíga það skref að breyta honum í sjálfseignarstofnun. Þetta var uppi á teningnum fyrir fáeinum missirum en ég hef ekki orðið var við að það sé á döfinni núna. Þvert á móti finnst mér að menn bindi miklar vonir við þetta frv., að það verði að lögum, og síðan verði unnt að breyta háskólalögunum og gera samning við ríkið á grundvelli reiknilíkansins og skapa þannig alveg nýjar forsendur í starfi Háskóla Íslands.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi sérstaklega lögin um skólakerfið. Ég held að ég hafi sagt um það mál það sem ég þarf í raun og veru að segja. Um fullorðinsfræðsluna vil ég láta þess getið að það er rétt hjá hv. þm., herra forseti, að fullorðinsfræðsla er lögum samkvæmt ekki rekin á kostnað ríkisins. Hið almenna starf í framhaldsskólunum er alfarið kostað af ríkinu. Að því er öldungadeildarnám varðar þá greiða þeir sem stunda það allt að einum þriðja af kennslukostnaði. En að því er fullorðinsfræðsluna varðar þá eru ekki heimildir fyrir því að ríkisvaldið beri þann kostnað. Hins vegar hef ég lagt mikla áherslu á að framhaldsskólarnir veiti þessa þjónustu og komi að þessu starfi eins og sést af skipulagsskránni um miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sem var undirrituð á fimmtudaginn var og menntmrn. kemur óbeint að. En þar kom einnig fram þegar þessi undirritun fór fram að það er ekki aðeins starfsmenntasjóðurinn sem hv. þm. nefndi heldur einnig sjóðir á vegum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda sem eru fyrir hendi til þess að standa straum af kostnaði vegna endurmenntunar og fullorðinsfræðslu þeirra sem í verkalýðsfélögunum starfa. Hér er því um mikilsvert mál að ræða. Ég tek undir það með hv. þm. og ég vil minna á það að á vegum menntmrn. er nú starfandi nefnd um mótun stefnu að því er varðar símenntun, endurmenntun og fullorðinsfræðslu og það er e.tv. fimmta skólastigið, ef þannig má að orði komast, sem við þurfum að sinna fyrir utan þessi hefðbundnu fjögur skólastig sem við höfum fjallað um. Ég vænti þess að á þessum vetri geti ég kynnt tillögur um það hvernig unnt verði að taka skipulegar á fullorðinsfræðslu, endurmenntun og símenntun hér á landi.