1997-12-16 10:35:41# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[10:35]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Á þingi aðildarríkja rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, í Kyoto í Japan í síðustu viku, var samþykkt sérstök bókun um samninginn, svokölluð Kyoto-bókun. Þar var um að ræða merkilegt alþjóðlegt samkomulag sem mun hafa afgerandi áhrif á þróun umhverfismála í heiminum á næstu áratugum. Rétt þykir að gera hv. Alþingi með munnlegri skýrslu grein fyrir helstu efnisatriðum bókunarinnar og stöðu Íslands í því sambandi. Ég hef þegar farið yfir niðurstöðu Kyoto-fundarins með hv. umhvn. og utanrmn. Alþingis á sameiginlegum fundi þessara nefnda hér í þinghúsinu síðdegis í gær. Þar afhenti ég ýmis gögn, þar með talið minnisblað um efni bókunarinnar, bókunina sjálfa og endanlega ákvörðun þingsins í Kyoto. Þessi gögn liggja frammi á skrifstofu Alþingis fyrir aðra hv. þm. en þá sem sitja í nefndunum tveimur ef þeir vildu nálgast þau til frekari upplýsinga.

Í síðasta mánuði gaf ég Alþingi skýrslu um loftslagsbreytingarnar. Hana er að finna á þskj. 180 og var hún tekin til umræðu í hv. Alþingi þann 17. nóv. sl. Þá hafði umhvrn. enn fremur nýlega gefið út skýrslu mína sem ber heitið Ísland og loftslagsbreytingar af mannavöldum. Í henni er að finna mun ítarlegri upplýsingar en í áðurnefndri skýrslu til Alþingis. Umræður á hinu háa Alþingi snerust að miklu leyti um efni væntanlegrar Kyoto-bókunarinnar og samningaferlið fram að þeim tíma en í skýrslunum er að finna kafla um gang samningaviðræðnanna. Nú liggur niðurstaðan hins vegar fyrir og því er rétt og eðlilegt að um hana sé einnig rætt á þessum vettvangi.

Með samþykkt Kyoto-bókunarinnar skuldbundu iðnríki heimsins sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hún verði 5,2% minni á tímabilinu 2008--2012 en hún var árið 1990 sem er viðmiðunarár í gegnum allt samningaferlið. Skuldbindingarnar eru mismunandi milli iðnríkja eða frá 8% minni losun í 10% aukningu miðað við viðmiðunarárið. Eins og hv. alþm. ætti að vera kunnugt af umræðum undanfarna daga eru losunarmörkin fyrir Ísland bundin við 10% aukningu á fyrrgreindu tímabili. Með öðrum orðum má árleg losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi vera 10% meiri á tímabilinu 2008--2012 en árið 1990. Tvær aðrar þjóðir fá að auka losun sína, Ástralía um 8% og Noregur um 1%. Nýja-Sjálandi, Rússlandi og Úkraínu er ekki ætlað að losa meira en árið 1990 heldur halda þeir sig við þá losun sem var. Aðrar þjóðir eiga hins vegar að draga úr losun sinni um 5--8%. Þannig munu lönd Evrópusambandsins draga úr losun um 8%, Bandaríki Norður-Ameríku um 7% og Japan og Kanada um 6% svo dæmi séu tekin. Listi yfir ríkin er í bókunarskjalinu sem hægt er að fá hér á skrifstofunni eins og ég hef áður getið um.

Kyoto-bókunin tekur til koltvíoxíðs, metans, tvíköfnunarefnisoxíðs, flúorkolefnis, vetnisflúorkolefnis og sexflúorbrennisteins og eru lofttegundirnar vegnar saman í koltvíoxíðsígildi. Ríki geta valið árið 1995 í stað ársins 1990 sem viðmiðunarár fyrir þrjár síðastnefndu lofttegundirnar. Samstaða náðist um að taka tillit til bindingar koltvíoxíðs í gróðri. Töluverð andstaða var við það og niðurstaðan því málamiðlun. Einungis verður tekið tillit til þeirrar bindingar sem rekja má til beinna aðgerða aðildarríkjanna eftir 1990. Þessi takmörkun er í samræmi við áherslur íslensku sendinefndarinnar á fundinum og reyndar öllu undirbúningsferlinu. Tekið verður tillit til beinna aðgerða á sviði skógræktar en jafnframt er ætlunin að taka tillit til annarra aðgerða í þessu sambandi. Gera má ráð fyrir því að landgræðsla á snauðu landi fáist samþykkt í náinni framtíð og verði talin með á fyrsta losunarskuldbindingartímabilinu en enn þá er þó eftir að semja nánar um þann þátt málsins.

Í Kyoto-bókuninni er að finna ýmis ákvæði sem veita ríkjum sveigjanleika við að uppfylla skuldbindingar sínar. Í fyrsta lagi má nefna að tvö eða fleiri ríki geta gert sérstakan samning um framkvæmd mála. Sem dæmi um slíkt má nefna að öllum ríkjum Evrópusambandsins er ætlað að draga úr losun um 8%. Þegar þau staðfesta samninginn munu þau væntanlega tilkynna hvernig losunarskuldbindingar skiptast milli einstakra ríkja. Þannig munu sum þeirra auka losun verulega meðan önnur draga úr losun um meira en umrædd 8%. Samkvæmt upplýsingum frá því fyrir samningafundinn, meðan rætt var um allt að 15% samdrátt hjá Evrópusambandinu, var gert ráð fyrir því að einstök ríki gætu aukið losun um allt að 40% en önnur dregið saman um 30%. Þar var mismunurinn allt að 70% en í dag liggur ekki nákvæmlega fyrir hvernig þetta muni skiptast.

Í öðru lagi geta ríki átt í almennum kvótaviðskiptum en þar verða nánari reglur settar síðar.

Í þriðja lagi geta iðnríkin unnið sameiginlega að einstökum verkefnum sem leiða til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Taki eitt ríki t.d. þátt í að fjármagna aðgerðir í öðru landi eða ríki sem leiða mun til minni losunar geta ríkin gert samkomulag um að hluti ávinningsins af verkefninu teljist fjármögnunarríkinu til tekna.

Í fjórða lagi geta ríki unnið að verkefnum í þróunarríkjunum á samstarfsvettvangi um mengunarminni þróun eða clean development mechanism eins og það er kallað á ensku. Þannig getur iðnríki tekið þátt í að fjármagna verkefni í þróunarríki sem leiðir til minni losunar og getur ávinningur af slíku verkefni komið iðnríkinu til góða þegar gengið er úr skugga um hvort það hafi uppfyllt losunarskuldbindingar sínar.

Loks má nefna að ríkjum er heimilt að flytja ónotaða losunarheimild á milli gildistíma losunarskuldbindingar. Í bókuninni er að finna ákvæði um tilteknar aðgerðir sem mælst er til að iðnríkin komi til framkvæmda, t.d. um umhverfisgjöld, meðferð úrgangs, orkunýtingu, rannsóknir o.fl.

Kyoto-bókunin mun liggja frammi til undirskriftar í eitt ár, frá miðjum mars á næsta ári og ganga í gildi þegar 55 ríki hafa staðfest hana enda séu þar iðnríki sem losuðu a.m.k. 55% af koltvíoxíði árið 1990 þannig að hér eru í raun tvö ákvæði sem skilyrða gildistöku bókunarinnar.

Hæstv. forseti. Ég hef nú farið nokkrum orðum um efni nýsamþykktrar Kyoto-bókunar og þá helst það er varðar Ísland og íslenska hagsmuni. Íslensk stjórnvöld hafa tekið fullan þátt í undirbúningi og gerð bókunarinnar allt frá því skömmu eftir að ég kom í umhvrn. fyrir rúmum tveimur árum. Hæstv. þáv. umhvrh. hafði á sínum tíma ekki sent fulltrúa ráðuneytisins á fund þann sem haldinn var í Berlín, og Berlínar-umboðið svokallaða var samþykkt í aprílmánuði 1995. Þátttaka okkar hefur eftir þann tíma fyrst og fremst mótast og tekið mið af þeirri samþykkt. Sá fundur markaði í raun upphafið á því samningaferli sem nú má heita að sé til lykta leitt eða a.m.k. fyrsta áfanga þess þar sem einstök ríki eiga eftir að skoða samninginn nánar, fara yfir hann og meta áður en til fullgildingar kemur.

Í tvö ár hafa fulltrúar flestra ráðuneyta unnið að málinu og hef ég á þessum tíma, með reglubundnu millibili, gert ríkisstjórninni grein fyrir samningsferlinu og stöðu mála. Málið hefur verið rætt á annan tug skipta á ríkisstjórnarfundum.

[10:45]

Undirbúningur íslenskra stjórnvalda var ákaflega vandaður og skilaði sér vel á lokafundinum í Kyoto. Ég tel að íslenska sendinefndin hafi þar staðið sig með miklum ágætum. Í henni áttu sæti, Tryggvi Felixson, deildarstjóri alþjóðadeildar umhvrn., sem stýrt hefur þessu samningaferli og starfi síðustu tvö ár, Guðjón Ólafur Jónsson aðstoðarmaður minn í umhvrn., Jón Ingimarsson, skrifstofustjóri iðnrn., Halldór Þorgeirsson, sérfræðingur á Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Ari Edwald, aðstoðarmaður sjútvrh., og Tómas H. Heiðar, lögfræðingur í utanrrn. Öll helstu áhersluatriði íslenskra stjórnvalda komust þannig til skila í Kyoto-bókuninni. Þannig má nefna að bókunin tekur til sex gróðurhúsalofttegunda en ekki einungis til þriggja eins og ýmsar aðrar þjóðir lögðu til og sumar vildu aðeins hafa eina lofttegund þarna inni sem var greinilega vegna þess hvernig þjóðirnar mátu það sem hagsmuni sína. Ýmis sveigjanleikaákvæði eru í bókuninni og tekið er til bindingar í gróðri en í því máli lék fulltrúi Íslands lykilhlutverk í Kyoto og hlaut lof annarra sendinefnda fyrir.

Síðast en ekki síst ber að nefna að tekið er tillit til aðstæðna einstakra ríkja við ákvörðun losunarmarka en fyrir því hafa Íslendingar allan tímann barist. Ekki er því um flöt viðmiðunarmörk að ræða eins og t.d. Evrópusambandið gerði tillögur um. Íslensk stjórnvöld lögðu í samningaviðræðunum áherslu á sérstöðu Íslands, m.a. vegna mikillar notkunar endurnýjanlegra orkugjafa. Íslenska sendinefndin átti fjölda tvíhliða funda með fulltrúum annarra sendinefnda um möguleika á því að halda losun vegna nýrrar stóriðju utan almennra losunarskuldbindinga fyrir Ísland. Undirtektir við það sjónarmið voru fremur neikvæðar þó segja megi að þær hafi þó verið mismunandi eftir viðræðum við einstaka aðila. Sendinefndin leitaði einnig leiða til að fá inn sérstök ákvæði um aukið svigrúm fyrir smáríki eins og Ísland þar sem tekið yrði tillit til íbúafjölda og magns losunar. Það kom reyndar seint til og fékk því ef til vill ekki nægjanlega athygli. Rétt er að minna á að upphaflegar forsendur okkar fyrir þátttöku í samningagerðinni voru þær að sérstaða okkar yrði metin vegna þegar nýttra endurnýjanlegra orkugjafa og jafnframt að heimilt yrði að nýta áfram til iðnaðarframleiðslu þótt það þýddi aukna staðbundna losun.

Alla tíð hefur verið ljóst að slík viðurkenning á sérstöðu okkar yrði að nást fram ætti aðild okkar að bókuninni ekki að vera nánast útilokuð. Hér má nefna til fróðleiks að hlutfallsleg losun koldíoxíðs á orkuframleiðslu eða orkueiningu er 2,96 en nær 3 í Danmörku, 2,4 í OECD-ríkjunum en 1,09 eða 1,1 hjá okkur. Það þýðir að losun annarra þjóða á hverja orkueiningu er næstum þrefalt meiri en hjá okkur. Kemur þar til hin mikla notkun endurnýjanlegra orkugjafa hér á landi. Á formlegum og óformlegum fundum kom fram verulegur skilningur á sérstöðu okkar og var að nokkru leyti komið til móts við hann með losunarmörkum í bókuninni þar sem okkur er heimilt að losa 10% meira af gróðurhúsalofttegundum á fyrsta losunartímabilinu en við gerðum árið 1990. Á síðasta fundi allshn. þingsins lýsti íslenska sendinefndin því yfir að þetta væri ekki fullnægjandi mat á sérstöðu Íslands og þessi niðurstaða væri því ekki fullnægjandi fyrir okkur til að geta staðfest bókunina.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að óeðlilegt er að líta á umrædda hlutfallstölu eina sér vegna þess hversu gjörólíkar aðstæður eru hér samanborið við stærðir í efnahagskerfinu. Í ræðu minni í Kyoto benti ég t.d. á að álver Norðuráls hf. á Grundartanga mundi leiða til 10--15% aukningar losunar hér á landi sem hlutfall af heildarlosun. Þetta dæmi varpar ljósi á smæð hagkerfis okkar og áhrif einstakra framkvæmda á losunarbókhaldið. Sama álver hefði t.d. í för með sér 0,006% aukningu í Bandaríkjunum sem verður að teljast innan skekkjumarka eða vart mælanlegt.

Þegar fyrrgreind afstaða íslenskra stjórnvalda var kynnt samningamönnum nokkurra annarra ríkja var samið sérstakt ákvæði að ósk okkar sem rétt er að vekja athygli alþingismanna á. En við samþykkt Kyoto-bókunarinnar var jafnframt samþykkt ákvæði um að skoðuð yrði sérstaklega staða ríkja þar sem einstök verkefni geta haft áhrif á heildarlosun eins og það dæmi sem ég hef t.d. nýnefnt. Þetta mál verður væntanlega tekið til umfjöllunar á nefndarfundum í júní í Bonn á næsta ári, undirbúningi fyrir næsta aðildarríkjaþing, og til afgreiðslu á næsta aðildarríkjaþingi rammasamningsins í Buenos Aires í Argentínu á næsta ári. Ákvörðunin skapar möguleika á að taka aðstæður Íslands til sérstakrar umfjöllunar en þó er að sjálfsögðu mikið verk óunnið í því efni og óljóst hvaða þýðingu bókunin kann að hafa. Á næstu vikum mun ég láta kanna þessi mál sérstaklega. En fremur tel ég rétt að áhrif Kyoto-bókunarinnar á íslenskt efnahagslíf verði athuguð vandlega. Ljóst er að mikil vinna bíður íslenskra stjórnvalda fyrir aðildarþingið í Buenos Aires en þar á auk ofangreinds atriðis m.a. að fjalla um frekari bindingu, reglur um losunarkvóta og reglur um sameiginlega framkvæmd ríkja.

Mál þetta hefur ekki enn verið rætt ítarlega á ríkisstjórnarfundi. Það hefur ekki unnist tími til þess. Ég mun þó fljótlega á nýju ári gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um það hvernig staðið verður að framgangi og framkvæmd mála.

Hæstv. forseti. Ég sé að tími minn er að renna út. Ég hef sagt það áður og lýst því yfir bæði í ræðu og riti að ég teldi mikilvægt að Íslendingar yrðu aðilar að Kyoto-bókuninni. Það þarf ekki að fjölyrða frekar um þau atriði. Við þurfum að vega og meta hverjir möguleikar okkar eru. En við þurfum líka að vega og meta hvað það þýðir að standa utan við samninginn, sú skoðun mín er í raun óbreytt. Að mínu mati er þó ekki tímabært að taka ákvörðun þar að lútandi fyrr en í fyrsta lagi eftir aðildarríkjaþingið í Buenos Aires á næsta ári er séð verður hvernig tekið verður á sérstöðu ríkja þar sem einstök verkefni geta haft afgerandi áhrif á heildarlosun svo og þau önnur mál sem enn eru óathuguð og óunnin og ég hef nefnt áður. Ég mun því hér eftir sem hingað til beita mér fyrir vönduðum vinnubrögðum í málinu. Vandaður undirbúningur skilaði árangri í Kyoto og vandaður undirbúningur mun áfram skila árangri í Buenos Aires. Það mun duga betur en innihaldslausar upphrópanir sem hefur borið nokkuð á í umræðum hér heima á undanförnum dögum.