1997-12-16 10:51:36# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), HG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[10:51]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. ,,Innihaldslausar upphrópanir`` voru lokaorð hæstv. umhvrh. um þá almennu kröfu sem er í landinu hjá almenningi í landinu, hjá fjölmiðlum í landinu, um það að íslensk stjórnvöld reyni loksins að átta sig í þessu stóra máli. En það virðist ætla að taka tímann ef marka má orð hæstv. ráðherra.

Það er sérkennilegt, herra forseti, að við umræðuna eru aðeins tveir af hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þegar rætt var um undirbúning 17. nóv. sl. var ráðherrabekkurinn fjölskipaðri. Þá sáum við m.a. hæstv. forsrh. og að minnsta kosti fjórir ráðherrar tóku þátt í umræðu. En það á ekki að fara mikið fyrir þeirra hlut ef marka má viðveruna. Afstaða og málsmeðferð ríkisstjórnar Íslands veldur sannarlega áhyggjum og hún er gagnrýniverð. Engin grundvallarafstaða hefur verið tekin til málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar hvorki fyrir né eftir ráðstefnuna í Kyoto og áfram á að bera kápuna á báðum öxlum. Hver á að vera grundvallarafstaða Íslands í málinu? Það eru, virðulegi forseti, lífshagsmunir Íslendinga að koma í veg fyrir neikvæðar loftslagsbreytingar af mannavöldum. Því ber okkur með ráðum og dáð að styðja gerð bindandi alþjóðasamnings en ekki haltra á eftir og krefjast undanþágna á undanþágur ofan. Vísbendingar um hugsanlegar geigvæglegar afleiðingar loftslagsbreytinga ekki síst á norðurslóðum, hér við norðanvert Atlantshaf, ættu að nægja stjórnmálamönnum til að skynja og skilja hvar meginhagsmunir íslensku þjóðarinnar liggja. Aðvaranir vísindamanna um möguleg áhrif veðurfarsbreytinga á Golfstrauminn liggja fyrir. Þau styðjast bæði við tölvulíkön og rannsóknir á ískjörnum úr Grænlandsjökli sem varpar ljósi á undangengin 250 þúsund ár. Þessi gögn sýna okkur að veðurkerfið við Norður-Atlantshaf eru einkar viðkvæm og það sama á við um hafstrauma og lífríki sem hér hefur þróast á löngum tíma. Í ljósi þessarar stöðu eru afstaða og áherslur íslenskra stjórnvalda til samningagerðarinnar í Kyoto rangar. Þær byggja á röngu stöðumati, skammsýni og hentistefnu sem er ekki boðleg í svo alvarlegu máli. --- Nú eru báðir ráðherrarnir hlaupnir á dyr. Virðulegur forseti, á að una því hér við þessa umræðu? --- Málsmeðferðinni var best lýst af hæstv. umhvrh. við upphaf ferðar á ráðstefnuna. Þeir voru áreiðanlega margir sem hrukku við þegar þeir heyrðu viðtal fréttamanns Ríkisútvarpsins við ráðherrann að morgni 5. des. um það leyti sem hann var að stíga upp í flugvél til Kyoto. Hæstv. ráðherra sagði, með leyfi forseta:

,,Kannski voru menn`` --- og það mun átt við ríkisstjórnina --- ,,ekki orðnir eins meðvitaðir um það fyrir þó ekki sé nema fyrir hálfu ári síðan hvað þetta mál með þessa alþjóðlegu samninga og þessa losun er alvarlegt og hvað það er tekið alvarlega af öðrum þjóðum og hversu miklar skyldur það leggur á okkar herðar að ég leyfi mér að álíta að hugarfarið og hugsunarhátturinn í þessu sé kannski strax í dag með nokkuð öðrum hætti hjá stjórnvöldum en var bara fyrir tiltölulega fáum mánuðum.``

Þetta var tilvitnun í orð hæstv. umhvrh. í morgunsárið 5. des. En hefur hugsunarhátturinn í raun breyst hjá ríkisstjórninni nú eftir að niðurstaða liggur fyrir? Ég er varla sá eini sem efast um að svo sé. Það gerist þrátt fyrir að af hálfu hæstv. umhvrh. liggi fyrir yfirlýsingar og frá formanni samninganefndarinnar að fallist hafi verið á skilyrði Íslands. Fyrirsögn í viðtali við ráðherrann 12. des.: ,,Okkar skilyrði inni.`` Eftir hverju er beðið?

Á sjálfri ráðstefnunni í Kyoto féll sannarlega neikvætt ljós á Ísland að þarflausu. Ekki vegna framgöngu embættismanna okkar, sem skiluðu hlutverki sínu vel, heldur vegna afstöðu eða öllu heldur stefnuleysis ríkisstjórnarinnar með umhvrh. í fararbroddi. Menn minnast vafalaust umræðunnar sem fór fram á Alþingi 17. nóvember sl., þar sem forustumenn ríkisstjórnarinnar, forsrh. og utanrrh. í fararbroddi, lýstu neikvæðri afstöðu sinni til málsins, til samningagerðarinnar að því er Ísland snerti. Heimanmundur ríkisstjórnarinnar til samningamannanna okkar var að Ísland yrði ekki með. Þetta var staðfest í lok ráðstefnunnar með þeim hætti sem hæstv. ráðherra lýsti áðan.

Hæstv. forsrh. flaggaði allt fram á síðasta dag viðræðna í Kyoto kröfu Íslands um 40--60% aukningu á losun. Hæstv. ráðherra hefur af hyggjuviti aðeins dregið í land síðan og hann hagar orðum sínum af meiri varfærni en afstaðan til samningsins er jafnóskýr og tvíræð og áður. Hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., talar hins vegar enga tæpitungu um afstöðu sína til samningsins. Í Morgunblaðinu 12. des. sl., sagði hann umbúðalaust:

,,Eins og drög að þessum samningi liggja fyrir getum við ekki staðfest hann.``

Þetta rímar ekki mjög vel saman við það úr og í sem heyra mátti hér frá hæstv. umhvrh. og var það þó formaður flokks hans sem talaði þarna. Á þessi orð hæstv. utanrrh. minntu talsmenn ráðherrans, embættismenn utanríkisþjónustunnar, á fundi þingnefnda í gær og upplýstu að utanrrh. Íslands mundi kynna frekari sérkröfur Íslands fyrir starfsbræðrum sínum á NATO-fundi sem nú stendur yfir. Öll hugsun ráðherranna og ríkisstjórnarinnar hefur snúist um stóriðju á meðan heildarhagsmunir og staða annarra atvinnuvega hefur fallið í skuggann.

Niðurstaðan í Kyoto er aðeins fyrsta skref á langri leið. Hún felur í sér rösklega 5% meðaltalslækkun varðandi losun gróðurhúsalofttegunda sem gæti skilað broti, kannski 0,1° til breytinga á loftslagsskilyrðum vegna góðurhúsaáhrifa. Það þarf að ná öðrum og meiri árangri á fyrri hluta komandi aldar. Þar liggur fyrir afstaða nefndar Sameinuðu þjóðanna, hinnar stóru nefndar sem hefur undirbúið þetta mál fræðilega, að það þurfi að minnsta kosti 60% niðurskurð á heildarlosun frá því sem nú er. Slík er þörfin. Í þetta sinn fékk Ísland mest allra heimild til að losa 10% til viðbótar til 2012. Með því var svonefnd sérstaða landsins viðurkennd að mati ráðherranna. Aðrir þættir í kröfugerð Íslands gengu einnig eftir í flestum greinum. Allar sex lofttegundirnar eru með, binding í gróðri að því er varðar skógrækt er með og landgræðsla gæti fylgt á eftir.

[11:00]

Þetta nægir hins vegar ekki íslenskum stjórnvöldum til að kveða upp úr um afstöðu sína og upp úr um það að ríkisstjórnin stefni að undirritun samningsins. Bókunina um lítil hagkerfi og áhrif einstakra framkvæmda á að nota til að reyna að knýja fram stóriðjudraumana --- annað kemst ekki að. Hvað þarf mikið í plús í aukningu fyrir Ísland til að ríkisstjórnin telji að við getum orðið samferða þjóðasamfélaginu í þessum málum? Eru það 50% í aukningu eða 90% sem svarar til óskalistans í sambandi við stórðiðjuna?

Umhvrn. hefur verið að meta stöðuna og þar stefnir í 16% aukingu árið 2000. Það nægja ekki þessi 10% vegna stóriðjusamninga og við erum búin að skuldbinda okkur gagnvart Ísal og Norðuráli til þess að skapa rúm fyrir sem svarar 160 þús. tonna álbræðslu með útgáfu starfsleyfa án þess að nokkuð sé hugsað um þessa hagsmuni og er þó ekki lengra en nokkrir mánuðir síðan samningarnir voru samþykktir á Alþingi. Þarna er hörmulega haldið á íslenskum hagsmunum og hvað á að verða um aðra starfsemi í landinu? Hvernig á að meta hagsmuni annarra atvinnugreina eins og sjávarútvegs fyrir nú utan almannaþarfir að öðru leyti og liggja þó fyrir yfirlýsingar, m.a. frá hæstv. sjútvrh. um að það verði mjög erfitt fyrir sjávarútveginn að standa við núverandi losunarmörk. Á að fórna þessu öllu á altari stóriðjunnar?

Í stað þess, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin reyni að gera sér mynd af heildardæminu, þjóðarhagsmunum í þessu stóra máli, þá snýst hugsun hennar um eitt og aðeins eitt --- óhefta stóriðjuuppbyggingu. Þeir draumar eru hins vegar að breytast í martröð. Þeir ganga ekki upp, þá ber að setja til hliðar, a.m.k. fyrst um sinn á meðan menn eru að átta sig á aðstæðum í framhaldi af Kyoto og þeim ársfundum samningsaðila sem fylgja munu á eftir. Því fyrr sem ríkisstjórnin horfist í augu við stöðuna og leggur stóriðjuáformin til hliðar, þeim mun betra. Það er nauðsynlegt að snúa við blaði í þessum efnum. Öll dagblöð landsins, Morgunblaðið, Dagur og DV, hafa gagnrýnt frammistöðu ríkisstjórnarinnar og hvetja til þess að Ísland taki skýra afstöðu með samningnum. Menn ættu að fara yfir leiðara Morgunblaðsins frá 11. des. sl., áður en niðurstaða lá fyrir í Kyoto, þar sem eindregið er hvatt til þess að menn marki nýja afstöðu í umhverfismálum, átti sig á breyttum aðstæðum og lyfti nýju merki sem vel er hægt.

Almenningsálitið hefur verið að breytast síðustu vikur en ríkisstjórn Íslands hefur ekki áttað sig. Almenningur vill ekki að Ísland gangi betlandi eftir mengunarheimildum út um allan heim. Fólk á Íslandi er að átta sig á alvöru málsins og gerir kröfu um að ríkisstjórn landsins geri það líka. Við eigum að vinna úr þeim möguleikum sem samningurinn gefur okkur og stefna ákveðið að aðild að honum sem fyrst á undirritunartíma sem hefst í mars næstkomandi. Það er ekki eftir neinu að bíða, virðulegur forseti.