1997-12-16 11:04:08# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[11:04]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það var mikið ánægjuefni að frétta að niðurstaða hefði náðst í samningnum um gróðurhúsalofttegundirnar í Kyoto á dögunum. Ég held að það sé rétt að fáum er eins mikilvægt og okkur að samningur sem þessi nái fram að ganga því að þær breytingar sem gróðurhúsaáhrifin geta haft gætu reynst okkur dýrkeyptar. Við skulum hins vegar hafa í huga að jafnvel þó að allt gangi eftir sem talað var um í Kyoto leysir það ekki allan vandann og áfram þarf að halda. Það er því að mínu mati óskandi að við getum staðfest samninginn. Eins og fram hefur komið er samningunum ekki lokið hvað okkur varðar því það eru margir mjög mikilvægir þættir ófrágengnir í samningnum og sérstaklega þættir sem okkur varðar.

Í umræðum á hv. Alþingi 17. nóv. nefndi ég þrjú atriði sem þyrftu að fá farsæla niðurstöðu í Kyoto. Fyrsta atriðið var að tekið væri tillit til sérstöðu okkar vegna hreinna orkugjafa og vegna eðlis losunar okkar og breytinga á orkugjöfum okkar á undanförnum áratugum sem hafa leitt til tiltölulega lítillar losunar hér á landi og sem jafnframt leiða til þess að við höfum minni möguleika til minnkunar á losun en aðrir þeir sem meira losa en við. Í öðru lagi nefndi ég að það yrði að taka inn í samninginn möguleika til bindingar á kolefni í gróðri, bæði hvað varðar skógrækt og landgræðslu. Í þriðja lagi nefndi ég að í samningnum yrði að vera gert ráð fyrir heimild til þess að versla með losunarkvóta á milli þjóða og innan einstakra þjóðahópa.

Ég nefndi þessi þrjú atriði ekki vegna þess að við værum sérstakir umhverfissóðar sem þyrfti að taka sérstaklega tillit til, því það er öðru nær. Þegar við skoðum losunartölur okkar og berum saman við aðra er mér algjörlega óskiljanlegur sá málflutningur sem heyrst hefur í þjóðfélaginu að við séum umhverfissóðar sem þurfum að fá undanþágur þess vegna. Ef allar þjóðir væru með sömu losun og við, 8,6 tonn á íbúa, þá værum við ekkert að ræða þetta vandamál. Þá væri ekki verið að vitna í tillögur og niðurstöður nefnda Sameinuðu þjóðanna um að það þurfi að minnka losunina um 60% til þess að hlutirnir séu í lagi. Þá væri þetta vandamál ekki uppi. Þess vegna er það rangur og óréttlátur málflutningur sem heyrst hefur. En ég nefndi þessi þrjú atriði vegna þess að samkomulagið þarf að vera sanngjarnt eins og öll önnur samkomulög sem við gerum því ef þau eru það ekki er ekki um samkomulag að ræða. Þá er verið að þvinga menn til aðgerða með krafti eða valdi gegn vilja þeirra og jafnvel gegn hagsmunum þeirra. Samkomulagið þarf að vera sanngjarnt í þeim skilningi að allir leggi svipað á sig til að ná samkomulaginu og það sé eitthvað sem hægt sé að kalla jafnvægi á milli losunar hinna ýmsu þjóða.

Hinn þátturinn sem þarf að taka tillit til eru hreinu orkugjafarnir sem við búum yfir, endurnýtanlegu orkugjafarnir, fallvötnin og að vissu marki heita vatnið og gufan. Því okkur ber að nota orkugjafana þar sem það þarf að vera framlag okkar til þess að ná heildarmarkmiði samkomulagsins um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta þurfum við að gera í sátt við önnur umhverfissjónarmið og það er vegna þeirra þátta, sem ég hef nefnt, sem tekið hefur verið tillit til aðstæðna okkar í þessu samkomulagi upp að vissu marki og að þeir erlendu aðilar sem hafa fjallað um þetta virðast taka meira tillit til þessara sjónarmiða en sumir gera innan lands.

Hver er þá staðan í þeim þremur atriðum sem ég nefndi þann 17. nóv. sl.? Það má segja það að fyrsta atriðið, um sérstöðuna, sé uppfyllt að hluta, kannski að hálfu leyti. Að annað atriðið, um bindinguna, sé líka uppfyllt að hluta því landgræðslan er þar ekki inni og að því leyti uppfyllt að hálfu leyti. Það má líka segja að svipað gildi um verslunina, þar sem ekki hefur verið skilgreint enn þá hvernig viðskipti þjóða með losunarkvóta á gróðurhúsalofttegundum eigi fram að fara. Þegar maður reiknar þetta saman hefur um eitt og hálft atriði af þessum þremur náð fram til dagsins í dag en ekki alveg þau tvö sem ég nefndi og því er ljóst að við höfum enn verk að vinna því samningunum er ekki lokið. Það er stjórnvalda og embættismanna, sem á þessu máli hafa haldið, að halda áfram í samningunum og ná þeim atriðum sem enn þá standa eftir til þess að skilyrðin þrjú eða tvö þeirra séu uppfyllt. En við þurfum jafnframt að leggja í aðra vinnu því við þurfum að leita að lausnum til þess að uppfylla skuldbindingar okkar, finna lausnir til þess að minnka losunina til ársins 2012 og við þurfum jafnvel að líta enn þá lengra því eins og ég sagði áðan þá er málinu ekki lokið árið 2012. Þetta þurfum við að gera þannig að við getum skrifað undir með góðri samvisku gagnvart okkur sjálfum og gagnvart heimsbyggðinni.

En ef þetta tekst, hverjir eru þá möguleikar okkar? 2/3 af losun okkar er frá samgöngum og fiskiskipaflotanum þegar saman er lagt. Ég held að það ætti að vera góður möguleiki á því að fram til ársins 2012 náist að minnka útblásturinn í þessum tveimur þáttum um 10% og jafnvel að minnkunin dugi einnig til þess að taka við þeirri aukningu sem verður á umferð í samgöngum og hugsanlega í fiskiskipaflotanum. Þetta eitt mundi gefa okkur u.þ.b. 200 þús. tonn af CO2. Við höfum líka, að mínu mati, raunhæfa möguleika á því að auka árlega bindingu í skógrækt og landgræðslu á þann hátt að við tvöföldum það markmið sem ríkisstjórnin hefur sett sér að ná fyrir árið 2000 þannig að árið 2012 yrði árleg binding kolefnis í gróðri u.þ.b. 200 þús. tonn. Þegar svo við bætist 10% sem við fáum umfram það sem losað var árið 1990 er þetta samanlagt tæplega 700 þús. tonn af CO2 sem er nánast sama tala og aukningin á losuninni sem spáð er til ársins 2010. Þá eigum við eftir að telja þá möguleika sem við eigum í viðskiptum með losunarkvóta í samstarfi og sameiginlegri framkvæmd um breytingar á tækni og útfærslu við að losa kolefni.

Við höfum þá ekki heldur tekið tillit til þess sem hugsanlegt væri að gera þegar tekið er tillit til hagkerfa þar sem eitt verkefni hefur hlutfallslega mikil áhrif. En ég geri ráð fyrir því að árangur hvað þetta ákvæði varðar snúist að miklu leyti um að við sýnum að við séum að ná árangri á öðrum sviðum og að þau verkefni sem um er að ræða séu verkefni sem nýtast heildinni við það að minnka losun á koltvíoxíði og það á svo sannarlega við um endurnýjanlega orkugjafa okkar.

Það eru þrjú atriði enn sem ég vildi nefna í þessu sambandi. Ég sakna þess í samkomulaginu að ekki er mikið fjallað um sameiginlega stefnumörkun og sameiginlegar aðgerðir. Ég tel nauðsynlegt að þjóðir heims taki sig saman um sameiginlega stefnumörkun og sameiginlegar aðgerðir í þessu efni og þá er ég sérstaklega að tala um kolefnisskatt. Ég held að slíkt hagrænt stjórntæki mundi hafa mest áhrif til þess að breyta nýtingu á brennsluorkugjöfum, sérstaklega hvað varðar samgöngutæki og jafnframt hvað varðar brennslu í staðbundnum brennslustöðum á landi.

[11:15]

Í öðru lagi sakna ég þess að þróunarríkin G-77 og Kína eru ekki formlegir aðilar að samkomulagi þessu hvað varðar skuldbindingar til þess að minnka losun á koldíoxíði því það er alveg ljóst að þetta vandamál verður ekki leyst nema að allar þjóðir heims komi að samkomulaginu. Með þessu er ég ekki að segja að þessar þjóðir eigi að taka á sig skuldbindingar um minnkun á losun á þessu stigi málsins heldur er ég að tala um það að þær skuldbindi sig til þess að minnka eða halda aftur af losuninni í framtíðinni þannig að málið sé skoðað í heild og að við vitum, þegar líða tekur á næstu öld, hver heildarlosunin verður.

Í þriðja lagi vil ég nefna að þó að um einhverja tímabundna og staðbundna erfiðleika geti verið að ræða við að ná þessum markmiðum þá eru líka möguleikar í stöðunni fyrir þá sem búa yfir tæknikunnáttu til þess að ná þessum markmiðum, m.a. með (Forseti hringir.) nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Ég ég vil að lokum, herra forseti, segja að ég tel að samningamenn okkar hafi haldið vel á málum. Ég vona að þeir muni halda vel á málum í framtíðinni þannig að okkur takist að undirrita samninginn.