1997-12-16 11:42:01# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[11:42]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Árið 1995 gaf nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sem starfaði undir forustu vísindamannsins Benjamins Santers út það álit að gróðurhúsaáhrifa væri sannarlega tekið að gæta á jörðinni. Þeir vísindamenn sem störfuðu í þessari nefnd fullyrtu að hitastig fari vaxandi á jörðinni, bráðnun jökla væri orðin sýnileg, dýrategundir, bæði fiskar og skordýr, væru tekin að færa sig til í vistkerfinu vegna aukins hita. Um þetta má lesa í sérhefti tímaritsins Time sem kom út fyrir nokkrum vikum í tilefni af Kyoto-ráðstefnunni.

Deilt hefur verið um það meðal vísindamanna hvort gróðurhúsaáhrifa sé raunverulega tekið að gæta. En sú deila og sá vafi á auðvitað að vera náttúrunni, jörðinni og lífinu í vil. Það er viðurkennt meðal þjóða heims að það verði að taka á þessu stærsta og mesta umhverfisvandamáli heimsins og einmitt það var verið að gera á ráðstefnunni í Kyoto og í aðdraganda hennar.

Í huga mínum er það fagnaðarefni að loksins skuli hafa náðst samkomulag um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þó niðurstaðan sé í raun og veru algjört lágmark. Þetta er eitthvert mesta stórmál nútímans og umhverfismálin verða stórmál næstu aldar, um það efast enginn sem reynir að setja sig inn í þessi mál. Það eru mjög vaxandi áhyggjur af sívaxandi mengun af ýmsu tagi sem iðnríkin eiga fyrst og fremst þátt í. Það ber þó að geta þess og gæta að því að mengun fer mjög vaxandi í þróunarríkjunum. Því vakti það athygli mína í yfirferð okkar í hv. utanrmn. og hv. umhvn. í gær með fulltrúum ráðuneytanna að þróunarríkin eru að mestu leyti fyrir utan samninginn. Það tel ég vera afar mikinn ókost því sú hugsun að það verði að koma þróunarríkjunum upp á stig iðnríkjanna áður en hægt er að fara að gera kröfur til þeirra er öllum heiminum stórhættuleg. Það erum við á Vesturlöndum sem þurfum að draga úr en það má ekki ýta öllum mengunariðnaðinum til þróunarlandanna og að stórauka mengun þar er engin lausn fyrir heiminn. Ég vil geta þess í þessu samhengi að ég veit af eigin reynslu að í borg eins og Peking er mengun gífurleg. Frést hefur að orðið hafi að loka skólum í Mexíkóborg vegna gríðarlegrar mengunar og því er afar sérkennilegt að halda þróunarríkjunum fyrir utan þennan samning og í framtíðinni hljóta þau auðvitað að eiga meiri þátt í honum.

[11:45]

Hæstv. forseti. Þó það sé fagnaðarefni að samningur skuli hafa náðst og stærstu iðnríkin sem hafa verið mikill dragbítur í þessum efnum, m.a. Bandaríkin og áður Bretland, hafi nú fallist á að draga úr útblæstri í sínum löndum, þá finnst mér stefna íslenskra stjórnvalda ekki mikið fagnaðarefni. Íslensk stjórnvöld hafa í málflutningi sínum lagt áherslu á að fá að menga meira, ekki að standa í stað eða draga úr, heldur að fá að menga meira. Með fullri virðingu fyrir litlum hagkerfum þá finnst mér þetta ekki mikill metnaður. Við Íslendingar erum mestu stórneytendur í heiminum á mælikvarða efnahagslegra lífsgæða og mengum síst minna en aðrar þjóðir miðað við hvert mannsbarn. Þó við búum við þannig aðstæður að mengun blási hér í burt, þá fer hún bara til annarra eða upp í lofthjúpinn. Mér finnst það engin rök að hér hafi verið dregið úr notkun mengandi orkugjafa, það er að sjálfsögðu fagnaðarefni en við berum sömu ábyrgð og aðrar þjóðir. Við eigum vitanlega að gera allt sem við getum til þess að draga úr mengun. Ábyrgð okkar á framtíð lífsins á jörðinni er nákvæmlega hin sama og allra annarra þjóða.

Ástæðan fyrir þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda, að fá að menga meira, er auðvitað hin umdeilda stóriðjustefna. Og því miður, hæstv. forseti, á meðan nágrannaþjóðir okkar beina fjármagni og menntun að því að byggja upp hugbúnaðariðnað, stóriðju framtíðarinnar, þá sjá íslensk stjórnvöld ekkert annað en mengunariðnað og eru að keppa við ríki þriðja heimsins, m.a. Venesúela, um það að fá slíkan iðnað hingað til lands. Í morgun voru fréttir af því að útflutningur Dana á vindmillum er að verða að öflugum iðnaði. Sá iðnaður snýr að því að draga úr mengun. Írar ákváðu nýlega að setja jafnvirði 25 milljarða ísl. kr. til að byggja upp hugbúnaðariðnað hjá sér og til þess að auka fjölda nemenda í þeim greinum. Þar er framtíðin, hæstv. forseti, ekki stóriðjustefna 19. aldarinnar sem skapar fá störf og eykur mengun á norðurhveli jarðar.

Hæstv. forseti. Ég vil gera það að lokaorðum mínum að hvetja íslensku ríkisstjórnina til þess að staðfesta Kyoto-samninginn og beita kröftum sínum til að draga úr mengun hér á landi en ekki að stuðla að því að hún verði aukin.