1997-12-16 11:48:43# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[11:48]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Alþjóðlegt samningaferli sem snertir lofthjúp jarðarinnar og hugsanlega loftslagsbreytingar og staðið hefur frá 1990 að mestu leyti er með mikilvægustu alþjóðlegu samningaferlum sem um getur. Kyoto-bókunin er afar mikilvægur áfangi í þessari samningagerð. Hins vegar ber að meta þennan áfanga raunhæft þar sem um að ræða erfiðan jafnvægisgang og mikla áhættu. Annars vegar snýst málið um hugsanlegar umhverfisbreytingar sem geta í framtíðinni breytt til hins verra forsendum efnahags- og velferðar mannkynsins. Hins vegar varðar málið ákveðnar aðgerðir sem verka til skemmri tíma íþyngjandi, geta valdið samdrætti og jafnvel auknu atvinnuleysi en er ætlað að draga úr líkum á að mannkynið valdi varanlegri röskun á loftslagi jarðarinnar.

Niðurstöðuna verður að telja viðunandi, að mestu leyti, bæði sem heildarþróun og einnig frá séríslensku sjónarmiði. Það verður að benda á að gildi samkomulags af þessu tagi hlýtur að felast í líkum þess að þær leiði til raunverulegs árangurs. Til lítils er að ná samkomulagi um texta sem vonlítið er að verði framkvæmdur. Í dag er í raun með öllu óvíst hvaða örlög þetta samkomulag hlýtur þegar kemur að fullgildingu samkomulagsins. Samninganefnd Íslands var í erfiðri stöðu. Ísland býr við þá sérstöðu að nýta mjög frumorku og þar vegur endurnýjanleg orka mjög þungt, svo þungt að fáar þjóðir geta borið sig saman við okkur. Endurnýjanleg orka, sem samkvæmt 2. gr. í Kyoto-bókuninni ber að leggja sérstaka áherslu á til að efla sjálfbæra þróun, er um 67% af frumorkunýtingu Íslendinga. Hér er rétt að við berum okkur saman við ESB sem kynnti sig á Kyoto-ráðstefnunni sem sérstakan málsvara verulegrar minnkunar á útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Þann 27. nóvember 1997, þ.e. fyrir nokkrum dögum, kynnti Evrópusambandið hvítbók sem skilgreinir í fyrsta skipti stefnu og framkvæmdaáætlun sem miðar að því sem kallað er ,,metnaðarfullt markmið``. Takmark Evrópusambandsins er að tvöfalda öflun endurnýjanlegrar orku til ársins 2010 þannig að í heildarorkunotkun ESB færi hlutfall endurnýjanlegrar orku úr 6% í 12. Með öðrum orðum þau prósent endurnýjanlegrar orku sem við búum við á Íslandi, 67% af heildarorkunni, er 6% hjá Evrópusambandinu sem kynnti sig sem sérstaklega metnaðarfullan aðila í þessum Kyoto-umræðum. Við ættum að reyna að leggja mat á það hversu langt Íslendingar hafa náð í þessum efnum og hvort ekki beri að viðurkenna sérstöðu þeirra í ljósi þess. Ef allar þjóðir hefðu náð svipuðum árangri í notkun endurnýjanlegrar orku, þá væri sennilega ekki um nokkurt vandamál að ræða. Við stöndum að þessu leyti framar flestum öðrum þjóðum. En það hefur ekki verið svo erfitt að fá það viðurkennt að við þyrftum ekki, við þessar aðstæður, að draga verulega úr útblæstri okkar. Ég tel að samninganefnd okkar hafi náð þeim árangri að fá þetta viðurkennt. Hins vegar er þrautin þyngri að sannfæra aðrar þjóðir um að við eigum rétt á að auka útblástur okkar. Það sjónarmið byggist annars vegar á því að við höfum náð það miklum árangri í húshitun með endurnýjanlegri orku að ekki er mögulegt að ná mikið meiri árangri á því sviði. Miðað við þá tækni sem nú er til staðar er ekki mögulegt að fara nýjar leiðir í orkunotkun skipaflotans, þó að ætla mætti að þar sé lausn í sjónmáli á næsta áratug eða svo.

Í þriðja lagi höfum við áskilið okkur rétt til þess að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar til að byggja upp orkufrekan iðnað og talið okkur til tekna að slík framleiðsla sé umhverfisvænni en sambærilegur orkufrekur iðnaður byggist á brennslu jarðefna. Við eigum rétt á að auka útblástur vegna þessara sérstöku sjónarmiða og að sjálfsögðu hefur reynst mjög erfitt að fá þau viðurkennd. Það svigrúm sem okkur er gefið í bókuninni er fremur lítið og mun setja þróun orkufreks iðnaðar hérlendis allmiklar skorður í framtíðinni.

Mikilvægt er að menn geri sér grein fyrir því að tilgangur þessa samkomulags er ekki sá að setja þjóðfélagið á annan endann, hvorki íslenskt þjóðfélag né önnur þjóðfélög. Menn eru að reyna að finna raunhæfar leiðir til að ná árangri og það er ekki gert með því að kollvarpa þjóðfélögum heldur með því að aðlaga þau nýjum viðhorfum. Ég held hins vegar að rétt sé að taka sérstaklega fram að sú áhersla sem lögð er á skógrækt í samningnum, bæði að því er varðar endurheimt glataðra landsgæða og sem beina aðgerð til að vinna gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda, er afar athyglisverð. Önnur grein bókunarinnar er mikil hvatning til Íslendinga til að efla til muna skógræktarstarf í þessum tvenna tilgangi. Ég tel því, herra forseti, að um sé að ræða viðunandi samning og mig skiptir miklu máli hvernig samningaviðræður þróast í framtíðinni.