1997-12-16 11:54:50# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[11:54]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Í aðdraganda Kyoto-ráðstefnunnar mátti heyra úr þessum ræðustól og lesa í ritum manna, harðar árásir á hæstv. umhvrh. og íslensku sendinefndina sem fór til Kyoto. Nú liggur fyrir að íslenska sendinefndin hefur náð mjög góðum árangri í Kyoto. Það kemur í ljós að ekki einasta hefur íslenska sendinefndin náð eyrum alþjóðasamfélagsins heldur hefur verið tekið mark á rökum íslensku sendinefndarinnar og fyrir vikið hafa Íslendingar náð einstökum árangri í Kyoto. Í ljósi þeirra umræðna sem hér voru í aðdraganda Kyoto-ráðstefnunnar og jafnvel meðan á henni stóð leiðir það hugann að því hvernig pólitísk umræða fer oft fram, af ábyrgðarleysi og með gaspri. Árangur náðist í Kyoto vegna þess að íslenska sendinefndin fór vel vopnum búin og hafði góðan málstað. Þar var sérstaða Íslands viðurkennd. Sérstaðan byggir m.a. á smæð efnahagslífs okkar og hagkerfis, því að Íslendingar eru afskaplega litlir í heildarútblæstri á gróðurhúsalofttegundum í veröldinni, og þeirri staðreynd að við ráðum yfir mikilli vistvænni orku, endurnýjanlegum orkugjöfum.

Hér má stundum skilja af ræðum manna að Íslendingar séu mestu umhverfissóðar sem þekkist á jarðarkringlunni. Staðreyndin er einfaldlega sú að af heildarkoltvíoxíðútblæstri í veröldinni er framlag Íslendinga 0,01%, 0,1 prómill. Og það sem meira er að Íslendingar gætu lagt meira til umhverfismála heldur en í rauninni flestar aðrar þjóðir veraldar.

Þegar rætt er um umhverfismál vilja menn á stundum ræða þau umhverfismál staðbundið en umhverfismál er ekki hægt að ræða nema á heimsvísu, í alþjóðasamhengi. Reyndar hefur það greinilega komið fram í ræðum einstakra hv. þm. með tilvísun til Golfstraums og hreyfinga í lofti. Umhverfismál eru alþjóðamál og þau verða alltaf rædd hnattrænt og þess vegna, herra forseti, geta Íslendingar lagt meira af mörkum til umhverfisþátta heldur en flestar aðrar þjóðir. Ég tek dæmi af rúmlega ársgamalli magnesíumverksmiðju við Dauðahafið. Hún hefur olíu og kol að orkugjöfum og veldur gífurlegri mengun. Sambærileg verksmiðja hér á Íslandi væri keyrð með endurnýjanlegri orku, með vatnsorku, með gufuorku og jafnvel með vetni. Segja má að sú verksmiðja gæti dregið úr koltvíoxíðmengun í veröldinni um 10 milljón tonn árlega. Þá kemur spurningin: Viljum við standa hér, halda utan um okkar mikilvægu náttúru og beina slíkri verksmiðju til þróunarríkja eða til Dauðahafsins, þar sem kol og olía eru orkugjafarnir? Þetta er spurning sem felur auðvitað í sér mótsagnir en staðreyndir eigi að síður.

Og hvað gerum við svo í Buenos Aires þegar líður að nóvember á næsta ári? Það vekur mér ugg að mér finnst menn oft víkja frá þeirri staðreynd að þriðjungur af útblæstri okkar kemur frá samgöngutækjum og annar þriðjungur frá fiskiskipaflota. Því verður ekki undan vikist. Því er rökrétt að draga þá ályktun að þar ættum við að ráðast á syndir okkar sem þær eru mestar. Ég hef áhyggjur af því, herra forseti, hve úrtölutónninn heyrist gjarnan. Menn fullyrða að tæknin, t.d. varðandi vetni sé langt undan. Þannig hafa menn talað árum saman án þess að gera sér grein fyrir því að tækninni hefur sérstaklega á síðustu fimm árum fleygt fram, meira en nokkurn grunaði. Henni mun fleygja enn frekar fram í kjölfar Kyoto. Okkur væri mikilvægt að stíga alvarleg skref varðandi það að byggja upp infrastrúktur með nýtingu rafbíla, vetnisbíla, nýtingu metanóls, efnarafala og þar fram eftir götunum. Við höfum orkuna til þess. En höfum við hinn pólitíska vilja? Af ræðum manna dreg ég það á stundum í efa.