1997-12-16 12:00:10# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), RA
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[12:00]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Margt bendir til þess að þær náttúruhamfarir af manna völdum sem við erum að ræða um og ekki eiga sér hliðstæðu í sögu mannkynsins kunni að reynast töluvert miklu afdrifaríkari en áður var talið. Lengi hefur verið rætt um nokkra hitaaukningu af völdum loftslagsbreytinga og þá hefur umræðan snúist um það hvort ekki væri nauðsynlegt að hægja á þessum breytingum þannig að þjóðfélögum heimsins gæfist kostur á að aðlagast nýjum aðstæðum og hvað Ísland varðar hefur einkum verið rætt um að hér yrði hugsanlega minni hitaaukning en annars staðar.

Nú í seinni tíð hafa borist mjög alvarlegar viðvaranir um að hafstraumar kunni einnig að breytast. Líf Íslendinga byggist á Golfstraumnum og án hans yrði Ísland óbyggilegt. Það er því ljóst að hugsanlega eru Íslendingar í hópi þeirra þjóða sem eiga hvað mest í húfi að ekki takist illa til.

Mér finnst persónulega að umræðan hér á Íslandi sé í litlu samræmi við þessa staðreynd. Hér virðist vera aðaláhyggjuefni manna að ekki verði tekið tillit til þeirrar kröfu Íslendinga að um verði að ræða miklu meiri losun hér á Íslandi en hlutfallslega er annars staðar eða eins og margur maðurinn hefur sagt í umræðunni: Við viljum menga miklu meira en allar aðrar þjóðir.

Ég get vissulega viðurkennt að Íslendingar hafa fullt af rökum fyrir þessu. Það vantar ekki að við eigum orkugjafa sem lítið menga og húshitun á Íslandi mengar nær ekkert. Það er auðvitað augljóst mál líka að álver byggt á Íslandi mengar minna en álver byggt þar sem nota þarf gas. Við höfum sem sagt fullt af góðum og gildum rökum með okkur. En því miður er þetta bara ekki kjarni málsins. Því miður er kjarni málsins allt annar. Kjarni málsins er sá að við Íslendingar eigum sennilega manna mest í húfi að ekki takist illa til og við hljótum því að vera fremstir í flokki þeirra þjóða sem vilja að um verði að ræða raunverulegt átak og að raunveruleg samstaða verði um að ná árangri til þess að draga úr hitaminnkuninni.

Ríkisstjórnir heimsins hafa brugðist mjög misjafnlega við. Sumar vilja bregðast hart við og þá einkum og sér í lagi þær þjóðir sem hreinlega mundu lenda undir hafinu með hækkun yfirborðs hafsins. Aðrar virðast vilja láta reka á reiðanum og láta sér nægja að hægja aðeins á, aðlagast þeim breytingum sem eru að verða og spurningin hlýtur þá að vera: Í hvorum hópnum viljum við Íslendingar vera? Viljum við vera meðal þeirra sem láta heldur reka á reiðanum og taka þessu frekar kæruleysislega eða eigum við heima meðal þeirra sem vilja taka fast á? Ef við viljum vera meðal þeirra sem vilja taka þessi mál föstum tökum getum við þá verið þekkt fyrir að vera um leið í hópi þeirra sem ætla að menga mest og vera með hvað mesta aukningu útblásturs?

Hvað skal gera í þeirri stöðu sem fyrir liggur? Auðvitað er ekkert sem kemur til greina af Íslands hálfu en að sætta sig við þá niðurstöðu sem fengin er og gerast aðilar að væntanlegum samningi. En við verðum um leið að hefja skattlagningu á útblæstri. Við verðum að líta á innflutning véla og rekstur véla, bæði skipa, flugvéla og allra annarra véla. Hvernig er hægt að draga almennt úr útblæstri? Með beitingu skattkerfisins. Ég tel að það sé ein vænlegasta leiðin sem við eigum yfir að ráða en um leið verða auðvitað ráðamenn sem dreymt hefur stóra og mikla drauma um stóriðju á Íslandi að vakna til vitundar um veruleikann í kringum sig.