1997-12-16 12:34:26# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), SighB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[12:34]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Áform hæstv. ríkisstjórnar um stóriðjuframkvæmdir voru kynntar fyrir Alþingi. Þar var gert ráð fyrir því að losun gróðurhúsalofttegunda mundi aukast um 100%. Það var sú krafa sem farið var með, bæði á Alþingi og út á alþjóðlegan vettvang og sú krafa var hlegin út af borðinu.

Umhverfismál eiga menn að sjálfsögðu að ræða í samhengi. Við Íslendingar mengum síður en svo minna en aðrir. Sorpförgun og holræsamál eru í megnasta ólestri og á Íslandi er sennilega meiri gróðureyðing af mannavöldum en í nokkru öðru byggðu bóli í heiminum þannig að ekki þýðir að tala eins og við séum barnanna bestir í því og gleyma stærstu vandamálunum í umhverfismálum hér á landi.

Þá vil ég líka taka fram að það er ekki rétt með farið að hið mikla átak í hitaveitumálum sem gert var upp úr á árinu 1973 hafi verið gert vegna þess að Íslendingar vildu draga úr mengun andrúmsloftsins. Það voru allt aðrar ástæður sem lágu fyrir því. Ástæðurnar sem lágu fyrir því voru að Íslendingar vildu skipta um hitagjafa vegna þeirrar miklu verðhækkunar sem hafði orðið á olíu um það leyti. Það var fyrst og fremst þess vegna sem lagt var út í hið mikla átak til þess að breyta um hitagjafa á Íslandi um og eftir árið 1973. Þess skulu menn minnast og ekki vera að tala um það átak nú undir þeim hatti að þar hafi Íslendingar verið að stíga sérstaklega stór skref í þeim tilgangi að draga úr mengun andrúmslofts því það var ekki tilgangur Íslendinga.

Auðvitað getum við ekki staðið utan við það samkomulag sem undirbúið var í Kyoto. Lítil þjóð eins og Íslendingar sem á allt sitt undir utanríkisviðskiptum getur ekki staðið utan við slíkt samkomulag. Þess vegna er furðulegt að mínu viti að hæstv. ríkisstjórn skuli draga landsmenn og aðra á svarinu við þeirri einföldu spurningu. En ég get tekið undir með þeim sem hér hafa sagt að á ráðstefnu í Kyoto náðist meira fram fyrir Íslendinga en ástæða var til að ætla áður en sú ráðstefna hófst. Eins og hæstv. umhvrh. hefur sjálfur viðurkennt var það skoðun Íslendinga að þetta væri ekkert sérstaklega stórt mál fyrr en örfáum vikum áður en ráðstefnan hófst. Íslensk stjórnvöld gerðu sér ekki grein fyrir mikilvægi málsins og fyrir þunga almenningsálitsins í heiminum fyrr en nokkrum vikum áður en ráðstefnan hófst. Þess vegna vanræktu stjórnvöld á Íslandi algerlega að kynna málstað Íslands með samhæfðu átaki umhvrn. og utanrrn. gagnvart þeim aðilum sem réðu miklu á ráðstefnunni í Kyoto og höfðu þar úrslitaáhrif. Ísland vanrækti með öllu markvisst kynningarstarf gagnvart Evrópusambandinu t.d. áður en til ráðstefnunnar kom og kynningarstarf af Íslands hálfu hófst ekki af krafti fyrr en á ráðstefnunni sjálfri. Þess vegna segi ég að það er lofsvert hve miklum árangri íslenska sendinefndin á þessari ráðstefnu náði þrátt fyrir það að hún hafi ekki lagt í þá kynningarstarfsemi og þá áróðursstarfsemi fyrir íslenskum hagsmunum sem ástæða var til að gera áður en til ráðstefnunnar var gengið.

Það er ljóst að niðurstaðan í Kyoto hefur áhrif á áform okkar, m.a. áhrif á þær hugmyndir sem menn hafa um stóriðju á Íslandi. Þetta er sameiginlegt viðfangsefni ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu að finna leiðir til þess að bregðast við. En það er alveg ljóst og því verður ekki á móti mælt að þau stóriðjuáform sem hæstv. iðnrh. kynnti í þingskjali á Alþingi fyrir nokkru geta ekki lengur verið á dagskrá með sama hætti og hæstv. ráðherra kynnti þau fyrir Alþingi Íslendinga. Þau áform eru ekki lengur á dagskrá. Menn verða að snúa sér að öðrum úrræðum til þess að nýta íslenskar orkulindir en þeim sem hæstv. iðnrh. kynnti í þeirri skýrslu sinni. Það er niðurstaða Kyoto-ráðstefnunnar sem Íslendingar geta ekki stungið höfðinu í sandinn gagnvart. Við verðum nú þegar að hefja athugun á öðrum leiðum en þar eru kynntar til þess að nýta orkuna í iðrum jarðar og í fallvötnum landsins.