1997-12-16 12:51:12# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), GE
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[12:51]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Árni Mathiesen reyndi að gera lítið úr ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem aðeins benti á staðreyndir sem við blasa og talaði um sjálfhverfni í því sambandi. Mér finnst það vera heldur fyrir neðan beltisstað þegar fólk er að sýna fram á hvað eru staðreyndir og hvernig málin liggja án þess að fetta nokkuð fingur út í hvað er að gerast. Ég bendi hv. þm. á að þingflokkur jafnaðarmanna er nútímaflokkur sem er tilbúinn til að takast á við þær kröfur sem koma upp á hverjum tíma hvort sem um er að ræða atvinnusköpun eða umhverfismál sem eru í raun mál á sama meiði.

Herra forseti. Í umræðunni hefur margt komið fram sem má teljast athyglisvert. Ég slæ engan veginn af möguleika til notkunar á vetni en ég veit að það þarf verulegar tæknibreytingar til að vetni sé nærtækur kostur. Ég benti á marga smáa möguleika. Ég hvet menn eins og hv. þm. Kristján Pálsson til að gera ekki lítið úr þeim möguleikum sem ég nefndi áðan í baráttunni við útblástur mengandi lofttegunda því að safnast þegar saman kemur. Við eigum að minnast þess góða máltækis.

Varðandi stóriðju getur verið möguleiki fyrir Íslendinga að huga að úrvinnslu þeirra efna sem við framleiðum í stóriðju okkar. Það gæti verið nærtækur atvinnumöguleiki.

Við þurfum, herra forseti, að fá hugmyndir á loft um hvernig við getum hafið minnkun útblásturs mengandi lofttegunda. Bílaflotinn gefur frá sér 30% af útblæstrinum, skipaflotinn gefur frá sér 30% af útblæstrinum, stóriðjan 20% og annað um 10%. Hvert prósent sem unnt er að losna við er ávinningur, ég minni á það.

Auðveldu hlutirnir sem við þekkjum er að hætta að nota olíu til húshitunar, hætta að nota olíu í loðnu- og fiskimjölsverksmiðjum o.s.frv. En það verður dýrt að breyta samgöngutækninni.

Ég ítreka, herra forseti, að hvarfakútar leiða til allt að 10% meiri eldsneytisnotkunar. Því ekki að huga að þeim möguleika sem þar felst. Bifreiðar með hvarfakúta nota til viðbótar bensín sem inniheldur metylterpútineter sem er um krabbameinsvaldandi efni og þótt blý sé slæmt er það betra en það efni sem ég nefndi áðan.

Herra forseti. Það náðist árangur í Kyoto. Það hefur vaxið skilningur á Íslandi fyrir skyldum okkar gagnvart umhverfinu. Við eigum að standa öll saman í stjórn og stjórnarandstöðu að því að leysa þessi mál.

Ég vil að lokum, herra forseti, ítreka það sem ég sagði í upphafi míns máls. Loftslagsbreytingar eiga sér engin landamæri. Mengun sem kemur upp einhvers staðar berst út um allan heim þó að smám saman dragi úr áhrifum og mengunin sé minni eftir því sem fjær er frá upphafsstaðnum. En það er nauðsyn að gera hvert og eitt land ábyrgt fyrir mengun sinni. Það er ekki víst að menn geri sér ljóst hvaða ill áhrif mannkynið hefur á loftslagsbreytingarnar sem eru farnar að ógna ýmsum heimshlutum. Þess vegna ítreka ég, herra forseti, í máli mínu að fræðslu og upplýsingum verði komið til þjóðarinnar um það sem nú er að gerast. Ríkisstjórnin verður að beita sér sérstaklega fyrir kynningu þessara mála og menn verða að gera sér grein fyrir því að Íslendingar munu eiga stranga göngu fyrir höndum til þess að ná tilsettum árangri.