1997-12-16 12:55:51# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[12:55]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum að þetta hefur verið afar mikilvæg umræða og ég þakka fyrir hana. Það er nauðsynlegt að fá fram viðhorf og skoðanir þingsins til þessa mikilvæga máls og ekki óeðlilegt þó að skoðanir séu eitthvað skiptar. Það er eðli málsins samkvæmt oftast nær þannig í umræðum hér og ekki óeðlilegt að svo sé við svo stórt mál sem hér er á ferðinni og á fáeinum mínútum gefst ekki tími til að fara yfir ýmis atriði sem þó væri vert að ræða nánar um. Það bíður auðvitað annars tíma því að umræðum um þetta mikilvæga mál er að sjálfsögðu ekki lokið. Ríkisstjórnin á eftir að fjalla ítarlega um það og setja fram hugmyndir sínar um frekari úrvinnslu mála og afstöðu landsins til samningsins og síðan mun það koma aftur til kasta hv. Alþingis á einn eða annan hátt að fjalla um málið.

Mig langar til þess að gera að umræðuefni nokkur atriði sem hafa komið fram í umræðunni. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson tók í upphafi síns máls í umræðunni upp lokaorð mín þar sem ég talaði um að innihaldslausar upphrópanir hefðu lítinn tilgang. Í því sambandi vil ég nefna að mér finnst að t.d. setningar sem komu frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um að stjórnvöld hafi algerlega vanrækt starf sitt, undirbúningsnefndin hafi ekki verið að vinna neitt þau ár sem hún hefur staðið að þessari vinnu og við höfum látið það algerlega undir höfuð leggjast að kynna okkar málstað t.d. fyrir Evrópusambandinu og fyrir öðrum þjóðum eru innihaldslausar upphrópanir og algerlega án rökstuðnings og raunar vanvirða við þá menn sem hafa staðið í þessu starfi að segja slíkt. Það er vitað mál að allan þann tíma sem þeir hafa unnið að verkefninu hafa þeir verið að kynna málið fyrir öðrum þjóðum. Þeir hafa gert það á samningafundunum, þeir hafa gert það utan þeirra, þeir hafa átt viðræður við fulltrúa Evrópusambandsins. Ég hef sjálfur átt viðræður við fulltrúa þeira. Ég átti t.d. fund með framkvæmdastjóra umhverfismála, Ritt Bjerregård og ræddi þessi mál við hana og það er útilokað að segja svona við okkur. Hafi einhvern tíma verið látið undir höfuð leggjast að fylgja þessu máli eftir var það í upphafi samningaviðræðnanna, í upphafi málsferilsins. Það var í tíð fyrri ríkisstjórnar þegar sú ríkisstjórn sá ekki ástæðu til að senda fulltrúa á Berlínarfundinn.

Ýmislegt annað í umræðunum að undanförnu varð mér tilefni til þess að tala um innihaldslausar upphrópanir eins og að ræða um það að við værum umhverfissóðar, við værum að vanvirða landið og höguðum okkur þannig í þátttöku okkar í samningaviðræðunum, t.d. á Kyoto-fundinum og fleira í þeim dúr sem ég ætla ekki að orðlengja um frekar.

Við höfum talið nauðsynlegt að halda til haga hagsmunum okkar og mikilvægi þess að þeir séu viðurkenndir. Þó að ég hafi látið þau orð falla, og stend við það, að skilyrði okkar séu inni í samningnum og að fallist sé á kröfur Íslands, þá er það líka jafnljóst að það er ýmislegt eftir sem ég hef gert grein fyrir í útfærslunni. Við eigum þess vegna ekki auðvelt með það að segja hér og nú, og munum ekki gera það, að við munum skilyrðislaust skrifa undir samningana eins og þeir líta út í augnablikinu. Ég hef nefnt ákvörðunina um nánari útfærslu ákvæða um einstakar framkvæmdir sem hafa umtalsverð áhrif. Ég hef nefnt útfærslu á atriðunum um viðskipti með kvóta og sameiginlega framkvæmd og ég hef nefnt útfærsluna á ákvæðunum um gróðurbindingu. Það er því ýmislegt enn þá sem á eftir að fjalla um þannig að hægt sé að taka endanlega afstöðu til samningsins. Og þó tekið sé tillit til mats á mismunandi aðstæðum, þá teljum við að það sé vart gert með þeim hætti að það sé okkur nægjanlegt. Þetta hef ég látið komið fram áður og er ekki nýtt í umræðunni. Þetta vita menn.

[13:00]

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir nefndi að hagsmunir Íslands væru miklir og auðvitað er það vissulega svo. Við höfum mikilla hagsmuna að gæta að samningarnir nái fram og að þeir skili einhverju og þeir hafi áhrif á umhverfismál hjá okkur eins og annars staðar. Spurningin er hvort málið er eins og hún lagði fram, hvort við séum öll á sama báti. Erum við nákvæmlega öll á sama báti? Hafa þjóðir heims verið að fara fram með þeim hætti að þær telji að svo sé? Eru viðhorfin til málsins með þeim hætti hjá öllum? Það er t.d. rétt að benda á það af því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi í upphafsræðu sinni líka að Ísland hafi fengið mest allra þjóða. Það er ekki alveg rétt þegar við vitum um nánari útfærslu einstakra þjóða í þessu efni. Við vitum um útfærslu Evrópusambandsríkjanna, hvernig þau hugsi sér að standa að útfærslunni og við vitum að þar er gerður miklu meiri mismunur en þó er gert ráð fyrir hjá okkur. Það er því margt sem ég held að eigi enn þá eftir að skoða í þessu efni.

Kannski er ástæðulaust að vera að tíunda frekar en orðið er þann mismun milli þjóða hvort um er að ræða 8,5 tonn í losun, 12 tonn, 20 tonn, 30 tonn eins og hjá Lúxemborg og þeir segjast ætla að draga saman um 30%. Þeir eru samt með yfir 20 tonna losun á mann. Svona er nú þessi samanburðarfræði og þá spyrjum við: Erum við öll á sama báti? Erum við öll að taka sameiginlega á þessu eins og við hefðum viljað gera og teljum nauðsynlegt að gera? Ég held að það sé fleira en stóriðjumálin sem við þurfum að huga að af því að þau hafa kannski verið mest nefnd hér. Við þurfum að líta til allra þátta. Við þurfum að horfa á samgöngumálin. Við þurfum að horfa á sjávarútvegsmálin. Við þurfum að líta á þau smæstu atriði sem hér hafa verið nefnd eins og með brennsluhvata, rafmagn til fiskiskipa í höfnum og rafmagn til fiskimjölsverkmiðja o.fl. Allt þetta þurfum við að leggja saman í þeirri glímu okkar við það að geta gerst aðilar að þessari bókun.

Kannski er rétt að nefna það líka af því að ýmsir þingmenn hafa talað um tækniþróun, vetnisnotkun o.fl. í þessu efni að á þessu sviði verðum við að binda vonir við það að nýir hlutir geti gerst. Samningurinn, eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og fleiri bentu á, líka einmitt sveigjanleika\-ákvæðin og það að reyna að leita hagkvæmustu leiða í þessu efni, mun neyða þjóðir til þess að skoða upp á nýtt ýmsa slíka tæknilega þætti sem ég er fullviss um að við munum eiga eftir að geta nýtt okkur í baráttunni eins og aðrar þjóðir. Samningurinn mun á þann hátt líka verka sem efnahagslegur hvati fyrir ýmsar þjóðir.

Það er nauðsynlegt að þróunarríkin komi inn í samninginn áður en langt líður eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi í ræðu sinni. Það bendir allt til þess að eftir tvo áratugi verði losun gróðurhúsalofttegunda um 50% frá þróunarríkjunum sem var 25% árið 1990. Það er því óhjákvæmilegt annað en þær þjóðir komi að samningnum einnig og gerist aðilar fyrr en seinna því að öðruvísi erum við náttúrlega ekki öll á sama báti og öðruvísi erum við ekki að tala um umhverfismál í víðu samhengi.

Allra seinast, hæstv. forseti, af því að ég sé að tími minn er útrunninn, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði t.d.: Ætlar Ísland að vera með eða ekki? Ég tel að ég hafi svarað því nokkuð hvernig ég tel að við þurfum að vinna að málinu á næstu vikum og mánuðum. Við þurfum að vinna að úrlausninni. Viðhorf mitt er óbreytt með það að við þurfum að leggja allt á okkur sem hægt er til þess að geta orðið aðilar að samningnum. Því hef ég marglýst yfir áður, en ég þykist sjá það jafnljóslega að það er eitthvað sem ekki gerist alveg á næstu mánuðum. Ég þykist fullviss um að við verðum að skoða þá þætti sem enn þá á eftir að finna útfærslur á og höfum til þess næsta ár fram að næsta fundi. Ég býst við að svo verði reyndar um margar aðrar þjóðir að þær taki sér næstu mánuði eða næsta ár meðan beðið er eftir nánari útfærslu til þess að kveða upp dóm um aðildina.