Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 14:21:13 (2371)

1997-12-16 14:21:13# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[14:21]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það mál sem er til umræðu er um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem hæstv. fjmrh. mælti fyrir á laugardaginn var. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum og þá var umræðunni frestað.

Meginatriði frv. er að keyptur kvóti verður ekki fyrnanlegur í skilningi skattalaga. Það er meginatriði frv. en einnig er kveðið á um að söluhagnaður vegna kvótaviðskipta komi almennt til skatts. Báðar breytingarnar eru gerðar í áföngum í frv.

Það ber að hafa skýrt í huga, herra forseti, að ekki er verið að tala um neina breytingu á skattameðferð á kvóta sem er úthlutað til útgerðarmanna. Einungis er verið að fjalla um þann kvóta sem gengur kaupum og sölum milli útgerðaraðila þannig að engin breyting er gerð á hinum ókeypis úthlutuðu veiðiheimildum hér við land. Þær hvorki eru né hafa verið eignarskattsskyldar eða á nokkurn hátt tekjufærðar hjá þeim sem fær þær afhentar.

Hér er hins vegar verið að fjalla um það að ef útgerðarmaður sem selur aflahlutdeild til annars útgerðarmanns, þá er kveðið á um að núna hjá kaupandanum að hann megi ekki afskrifa eign sína. Um það snýst frv. Þessi keypti kvóti og seldi hefur verið færður til eignar og greiddur af honum eignarskattur. Hann hefur hins vegar verið afskrifaður um 20% á ári þannig að ef seldur er kvóti fyrir 100 millj. stendur fyrsta árið 100 millj. í bókum kaupanda, árið eftir stendur hann í 80 millj. og 20 millj. eru þá færðar til gjalda sem fyrningar. Þessi regla er afnumin með frv. Ástæðan fyrir því er sú að afskriftin er gerð vegna rýrnunar viðkomandi eignar en hér er hægt að halda fram með fullum rökum að aflahlutdeild rýrnar ekki, menn fá úthlutað 1% af þorskkvótanum og það eru nokkur þúsund tonn og það heldur sig í nokkrum þúsundum tonna árið á eftir. Því eru full skattaleg rök fyrir því að líta sérstaklega á aflahlutdeildir í skilningi skattalaga.

Til eru nokkrar ófyrnanlegar eignir í skattalögum, t.d. lönd og lóðir. Þær rýrna ekki og þær eru líka ófyrnanlegar. Meginregla í skattalögum er að einungis má gjaldfæra það sem notað er til að afla tekna og það á ekki við um kvóta þar sem kvóti rýrnar ekki. En aflahlutdeildin, sem er úthlutað til langs tíma og síðan er úthlutað árlegu aflamarki á grunni aflahlutdeildar, gjafakvótinn svokallaður, kemur ekki til eigna í bókum fyrirtækja. Þetta reyni ég að draga skýrt fram vegna þess að frv. er ekki að sníða neina agnúa af fiskveiðistjórnarkerfinu eins og það heitir oft. Það hefur ekkert með það að gera. Hins vegar sýnir það ágalla gjafakvótakerfisins ágætlega vegna þess, herra forseti, að óvissa er um hver á í reynd kvóta.

Fyrir Alþingi liggur frv. um svipað efni sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti þar sem skýrt kemur fram að kvóti sé ekki fyrnanlegur og söluhagnaður sé skilgreindur og tekjufærður og skattskyldur. Það er sameiginlegt með þessum báðum frumvörpum.

Ólíkt frumvörpunum tveimur eins og hv. þm. greindi frá og skýrði á laugardaginn er það að í frv. fjmrh. er keyptur kvóti eignfærður og greiddur eignarskattur en í frv. þingmannsins er gert ráð fyrir því að kvóti sé ekki færður til eignar og ekki greiddur af honum eignarskattur. Þetta er vitaskuld grundvallaratriði vegna þess að við höfum litið svo á að það sé bundið í lögum að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar. Út frá þeirri röksemd að ef einhver eignfærir frá sér hlut, þá hlýtur hann að eiga hann, ef hann eignfærir hann hjá sér og greiðir af honum eignarskatt, þannig að það er augljóst að við erum á mjög gráu svæði hvað þetta varðar.

Forsaga málsins er sú að skattyfirvöld vildu afskrifa kvótann um 8% á ári nákvæmlega eins og um skip væri að ræða. Það fór fyrir dómstóla og það mál tapaðist í Hæstarétti. Hæstiréttur komst að því að það ætti að afskrifa kvóta um 20%. Það verður vitaskuld vandamál við framkvæmd laganna þegar selt er skip með veiðiheimildum, hvernig á að skipta í kaupsamningum t.d. ef keypt er skip og kvóti á 100 millj. Kaupandinn mundi vilja hafa þessar 100 millj. sem mest bundnar í skipinu en kvótann tiltölulega lágt metinn vegna þess að hann má ekki afskrifa hann. Þarna þarf að setja reglur sem ríkisskattstjóri gerir og vitaskuld verður erfitt að finna út úr þessu. Það er raunverulega nákvæmlega sama staða í núverandi kerfi nema þá er þveröfugt farið ef selt er skip og kvóti fyrir 100 millj., þá vill fyrirtækið núna hafa sem mest af þessum 100 millj. í verðmæti kvóta einfaldlega vegna þess að það má afskrifa kvótann um 20% en skipið ekki nema um 8%. Menn sjá á þessu, herra forseti, að ýmiss konar skattaleg vandamál tengjast málinu og hafa reyndar tengst viðskiptum með kvóta. Það þekkist t.d. að fyrirtæki í sjávarútvegi hafi selt frá sér kvóta, tekjufært hann og nýtt þar með gamalt tap sem var að falla niður og sýnt betri afkomu. Síðan hefur fyrirtækið keypt aftur til sín kvótann, eignfært veiðiheimildirnar og afskrifað síðan um 20% á ári. Það eru dæmi til um þetta þar sem hefur þá verið spilað á kvótakerfið til að sýna betri afkomu í bókum. Í sjálfu sér er ekkert ólöglegt við þetta en þetta sýnir á hvers konar gráu svæði menn eru í skattalögum. Nú sitja þessi fyrirtæki uppi með eignir sem ekki er hægt að afskrifa en það má ekki gleyma því að í frv. hæstv. fjmrh. er gert ráð fyrir að þetta taki gildi í áföngum, áfram megi afskrifa 20% á næsta ári og síðan 15% og svo 10% auk 20% afskriftar fyrir skattaárið 1997.

Aðalmálið í þessu er hins vegar hvort ekki ætti að eignfæra kvótann þegar honum er úthlutað, þ.e. árlegu veiðiheimildirnar. Hins vegar er aftur vandamálið að ef hann væri eignfærður, þá væri búið að afhenda fiskimiðin þeim aðilum sem fá þetta úthlutað og það er í grundvallaratriðum öndvert við skoðun mína og reyndar flestra annarra. Hins vegar er það svo að til eru eignir sem eru eignarskattslausar eins og spariskírteini. Sumar eignir eru á öðru verði til eignarskatts en á bókfærðu verði. Fasteignir eru t.d. metnar á fasteignaverði til eignarskatts en ekki á bókfærðu verði. Það er allur gangur í þessu. Ef um væri að ræða eignarskattsfrelsi í viðskiptum með kvóta, þá væri leikur einn fyrir fyrirtækið að koma sér hjá öllum skattgreiðslum í sambandi við eignarskatt þannig að það er að mínu mati hlutur sem væri ekki hægt að útfæra almennt.

[14:30]

Þetta frv. festir núverandi fiskveiðistjórnarkerfi í sessi að mati formanns Landssambands ísl. útvegsmanna, Kristjáns Ragnarssonar, og þar hefur hann rétt fyrir sér. Ótvírætt er að það að afskrifa kvótann um 20% á ári var rökstutt með því að kvótakerfið væri tiltölulega óstöðugt. Menn vissu ekki hvort verið væri að breyta því og þess vegna bæri mönnum skylda til að afskrifa kvótann tiltölulega fljótt. Það væri eðlilegt í skilningi skattalaga og reikningshalds. Hér er hins vegar lagt til að þessi keypti kvóti skuli vera bókfærður á kaupverði og ekki afskrifaður. Þar með er kerfið gert varanlegra en áður og að því leyti hefur Kristján Ragnarsson alveg rétt fyrir sér. Hann segir þetta frv. styrkja núverandi fyrirkomulag sem ég kalla gjafakvótakerfið. Enn og aftur, herra forseti, fá ókeypis úthlutaðar veiðiheimildir ekki skattalega meðferð. Hér er einungis verið að taka á hluta af kvótaviðskiptunum, þ.e. viðskiptum með varanlega aflahlutdeild eða kvóta til langs tíma. Ekki er tekið á t.d. leigukvóta innan ársins.

Hins vegar eru skattaleg rök fyrir þessu máli eins og ég hef rakið varðandi eðli kvótans að hann rýrni ekki. Álitamál er um aðra þætti, fiskveiðistjórnun og ekki síst meginatriðið þ.e. eignarréttarákvæðin í stjórnarskránni. Vandamálið felst í að miðin eru þjóðareign en veiðiheimildum er hins vegar úthlutað ókeypis. Þær eru ekki færðar til bókar en verða nú í viðskiptum milli útgerðarmanna að ófyrnanlegri eign sem af má hafa leigutekjur, tekjur af veiðum eða tekjur vegna sölu. Kaupandinn hefur allan rétt til að afla sér tekna út á kvótann hvort sem hann kaupir hann af öðrum útgerðarmanni og færir til eignar eða fær hann úthlutaðan af ríkisvaldinu. Hann hefur alla tekjumöguleika af þessari eign án þess að greiða nokkuð fyrir hann nema hann hafi keypt hann af öðrum útgerðarmanni. Eins og við höfum margoft bent á er nú þegar greitt veiðileyfagjald í íslenskum sjávarútvegi. Það er hins vegar einungis greitt í viðskiptum milli útgerðarmanna. Til þess að fá aðgang að fiskimiðunum verður nýr útgerðarmaður að kaupa veiðiheimildir af öðrum útgerðarmanni sem fær þeim úthlutað ókeypis.

Sumir telja að með því að skattleggja söluhagnað veiðiheimilda mjög mikið sé búið að leysa vandamálin í kringum þennan kvótaóróleika. Það er rangt og ekki rétt hugsað vegna þess að ef skattleggja ætti sérstaklega þá sem færu út úr greininni, þá mundu menn vitaskuld halda eign sinni áfram innan sjávarútvegsins. Aðalmálið er að nýta arðinn af úthlutuðum veiðiheimildum og menn hafa tök á að nýta arð úthlutaðra veiðiheimilda með því að taka hann til sín, t.d. í formi hækkaðra hlutabréfa, arðgreiðslu eða einhvers þess háttar. Það fer enginn út úr greininni ef greiða þarf stórfé fyrir það. Verð veiðiheimildar endurspeglar ekkert annað en hagnaðarvon vegna nýtingar hennar. Þannig er rangt að hugsa það sem einhverja lausn á deilumálum um kvótann og þann mikla hagnað sem myndast við ókeypis úthlutun veiðiheimildar að skattleggja sérstaklega þá sem fara út úr greininni. Það er ekki lausn á því mikla vandamáli sem við blasir. Alla vega þarf að ræða þetta mjög ítarlega.

Stóra spurningin er hins vegar um eignaréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði hæstv. fjmrh. hvort þetta frv. leiddi til þess að eignarréttur útgerðarmanna á aflaheimildum yrði styrktur þannig að réttindi þeirra væru varin samkvæmt stjórnarskránni. Þetta er lykilspurningin.

Hæstv. ráðherra Friðrik Sophusson taldi þetta frv. út af fyrir sig ekki gera það en treysti sér ekki til að segja afdráttarlaust um það. Hæstv. ráðherra kvaðst ekki geta útilokað að frv. styrkti eignarréttinn. Meginmálið, herra forseti, er að hér er um að ræða réttaróvissu. Ég ætla ekkert að fullyrða áhrif þessa á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Menn verða hins vegar að hafa í huga að löggjafanum er ekki í sjálfsvald sett hvaða réttindi njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og hver ekki. Þetta er flókin, erfið og lögfræðileg umræða um mörg álitamál. Þess vegna verða menn að fara varlega í lagabreytingar á þessu sviði. Þó að fyrir þessu frv. séu skattaleg rök þá þarf að skoða áhrif þess á eignarréttarákvæðin. Ljóst þarf að vera hvort frv. tryggi betur eignarréttarákvæði þannig að ef menn breyti stjórnkerfinu þá geti ríkisvaldið orðið skaðabótaskylt. Ég bendi á athyglisverða og vandaða grein eftir Skúla Magnússon lögmann í síðasta tölublaði Úlfljóts. Þar kemur fram að aflaheimildin njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar um eignarrétt ef ekki komi til áskilnaður löggjafans í aðra átt. Það er ítrekað í lögum um fiskveiðar, með þjóðareign á fiskimiðunum og í 3. tölul. 1. gr. um að virða ekki bótaskyldur. Löggjafinn hefur þannig sett fyrirvara. Spurningin er hins vegar um hversu mikið vægi þessi fyrirvari löggjafans hefur ef til dómsmáls kæmi. Niðurstaða Skúla er sú að verið gæti um stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi að ræða. Hann er eins og aðrir góðir lögfræðingar og ég reyni að tileinka mér þann hugsunarhátt hér. Ég fullyrði ekki neitt í þessu. Ég bendi aðeins á ákveðna óvissu. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson bað um að leitað yrði sérstaklega lögfræðilegs álits. Ég styð eindregið að það verði tekið upp í efh.- og viðskn. og málið er vitaskuld ekki í höndum hæstv. fjmrh. en ég vonast til þess að hæstv. ráðherra sjá til þess að löggjöf verði sérlega vönduð varðandi þennan þátt.

Mig langar einnig, herra forseti, til að benda á grein í Morgunblaðinu sl. laugardag eftir Gunnar Einarsson bónda, Dalastöðum í Presthólahreppi. Þar er skynsamleg grein og m.a. fjallað um forskot þeirra sem fá kvótunum úthlutað ókeypis í samanburði við nýja útgerðarmenn sem verða að kaupa sér aðgang hjá hinum eldri. Hann rökstyður sína réttu hugsun um að þeir sem fá ókeypis úthlutun og í sambandi við þann þátt er engu breytt, hafa miklu sterkari fjárhagslega stöðu til að halda uppi verði á veiðiheimildum gagnvart nýliðum í greininni sem fá ekkert úthlutað af almannavaldinu. Þetta er skynsamleg ábending sem menn ættu að hafa í huga og að með núverandi fyrirkomulagi á úthlutun heimilda er möguleiki nýliða minnkaður.

Hugmyndir um veiðileyfagjald leysa þetta vandamál að mörgu leyti þó að ég ætli ekki að ræða veiðileyfagjald hér. Veiðileyfagjald gengur einmitt út á að árlega sé gjaldfært, heimildirnar séu leigðar árlega. Það sem menn leigja er ekki eign þeirra og það yrði þá gjaldfært líkt og önnur gjaldtaka. Dómur Hæstaréttar sýndi að í framkvæmd er einungis greiddur eignarskattur af aðkeyptri aflahlutdeild og þannig er það fært í bækur hjá fyrirtækjum. Það er einungis keypti kvótinn, það eru ekki langmestu verðmætin, úthlutaði kvótinn. Hvort þau verðmæti eru 200 milljarðar, 100 milljarðar eða 50 milljarðar, læt ég liggja á milli hluta. Ég vil hins vegar, herra forseti, hvetja til þess að þetta frv. verði vandlega skoðað og að stjórnarmeirihlutinn reyni ekki að knýja á um afgreiðslu þess nú í þessari viku. Til þess er ekki tími. Málið þarf vandaða umfjöllun í nefnd. Það er ekki frágangssök þó að skattalög í sambandi við þetta taki gildi fyrri part á næsta ári. Viðskipti geta haldið áfram eftir gömlu lögunum og ég vil líka benda á að þetta frv. hefur þá sérstöðu að það er gert ráð fyrir aðlögun. Í ár á að afskrifa kvóta um 20% og í frv. er gert ráð fyrir að heimila líka 20% afskrift á næsta ári. Út frá því er í sjálfu sér allt í lagi þó þetta frv. taki ekki gildi fyrr en seinna. Það hefur ekki nein sérstök skattaleg vandkvæði þó að lögfestingin dragist fram yfir áramót.

Ég er ekki, herra forseti, að leggjast gegn því að vilji meiri hluta Alþingis nái hér fram að ganga. Ég dreg hins vegar upp ákveðin álitamál varðandi þetta sem tengjast eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Okkur þingmönnum ber skylda, herra forseti, til að skoða slík álitamál mjög vandlega. Við megum ekki hrapa að neinu varðandi afgreiðslu slíkra mála. Afleiðingarnar geta orðið ófyrirsjáanlegar. Þess vegna hvet ég til og mun taka þátt í, ásamt öðrum nefndarmönnum í efh.- og viðskn. hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu, að málið fái vandaða skoðun. Það verði lögfest þannig að ekki leiki neinn vafi á hverjar afleiðingarnar verði eða hver vilji löggjafans er í þessu efni.