Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 15:28:49 (2382)

1997-12-16 15:28:49# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, LB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[15:28]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Frv. það sem við ræðum hér um, um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, snýr fyrst og fremst að þeirri meginreglu að ekki geti verið eðlilegt að afskrifa réttindi í auðlind sem endurnýjar sig sjálf. Ég vil taka undir það prinsipp sem gengið er út frá í þessu frv. og að slík regla geti ekki átt rétt á sér. Að því leyti fagna ég frumvarpinu.

[15:30]

En lestur frv. kallar fram spurningar um hvaða þýðingu það hafi gagnvart varanleika fiskveiðistjórnarkerfisins. Er verið að festa í sessi eignarrétt þeirra útgerðarmanna sem hafa aflahlutdeild eða njóta réttinda í efnahagslögsögunni? Er verið að festa í sessi eignarrétt þeirra á auðlindinni?

Við skoðun á spurningum eins og þessum er nauðsynlegt að velta fyrir sér hvað felist í hugtakinu ,,eign`` og hvað átt sé við með hugtakinu ,,eign`` í stjórnarskránni. Ég held að það sé nauðsynlegt að velta því fyrir sér áður en lengra er haldið á þessari braut.

Ólafur Jóhannesson, prófessor í stjórnskipunarrétti, skýrir hugtakið svo í bók sinni um Stjórnskipunarrétt að í stjórnarskránni séu eignarréttindi almennt mjög víðtæk og hugtakið ,,eign`` hafi mjög víðtæka merkingu og í henni felist hvers konar fjárverðmæti sem hægt er að færa undir eignarréttindi. Ég held að nauðsynlegt sé að átta sig á því hvað felst í hugtakinu eignarréttindi og hver helstu einkenni þess eru svo hægt sé að segja að um eignarréttindi sé að ræða. Það fyrsta sem menn verða að horfa til er hvort aðilaskipti geti farið fram á eignarrétti, þ.e. spurningin um hvort hægt sé að framselja þau.

Það hefur lengi verið í lögum að réttindi á auðlindinni eru framseljanleg. Ef menn bera það saman við það hugtak þá er engin spurning um að núverandi réttindi hvað varðar aflahlutdeild og framseljanleika þeirra fellur vel að hugtakinu um eignarréttindi.

Í öðru lagi er spurningin: Er hægt að veðsetja aflahlutdeildina? Menn hafa um nokkurt skeið deilt um hvort þau lög sem sett voru um samningsveð í fyrra feli það í sér. Í grein sem Skúli Magnússon, dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjaness, ritar og ég hef hér, kemst hann að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki umræðuefni sem ástæða sé til að deila mikið um. Aflahlutdeildin er álitin hluti af verðmæti skips og því sé það óumdeilt að hana sé hægt að veðsetja.

Í þriðja lagi getur spurningin verið um það hvort um sé að ræða eign í skilningi eignarréttarhugtaks stjórnarskrárinnar, hvort aðilaskipti geti átt sér stað við fullnustugerð. Það er engin spurning um það, sérstaklega eftir breytingu á lögunum um samningsveð sem samþykkt voru hér í fyrra, að þessi réttindi geti gengið manna á milli með fullnustugerð. Þar er enn eitt atriðið sem bendir til þess að rétturinn til veiða í efnahagslögsögunni sé eign í skilningi stjórnarskrárinnar.

Þá er kannski komið að þeirri spurningu sem við stöndum frammi fyrir hér: Hvað með skattalega meðferð þessara eigna?

Virðulegur forseti. Í hæstaréttardómi sem gerður hefur verið að umtalsefni hér í dag var komist að þeirri skýru niðurstöðu að aflahlutdeild sé eign í skilningi 73. gr. skattalaga. Það er niðurstaða Hæstaréttar. Rétturinn kemst að þeirri niðurstöðu að afskrifa beri þessa eign um 20% á ári sökum þess að um mjög óörugga eign sé að ræða. Áhættan af því að kaupa aflahlutdeild er mikil og því rík ástæða til að menn geti afskrifað þessa eign hratt og örugglega. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að afskrifa beri þessa eign um 20% á ári. Því er einmitt verið að breyta hér, virðulegur forseti. Ég held að það sé einmitt grundvallaratriði að með því að fella brott þessa röksemdafærslu Hæstaréttar, um að hér sé um það mikla áhættu að ræða að ástæða sé til að afskrifa þessi 20% á ári, sé verið að styrkja núv. fiskveiðistjórnarkerfi í sessi. Varanleiki þess ætti að verða meiri eftir þessa breytingu heldur en fyrir. Frv. breytir þessari niðurstöðu Hæstaréttar í raun og veru og hafnar um leið þeirri röksemdafærslu að áhættan við kaup á aflahlutdeild sé það mikil að ástæða sé til að afskrifa þá aflaheimild hratt. Ég held að það sé sú breyting sem verið er að leggja til hér, þ.e. að þeirri röksemdafærslu sem Hæstiréttur byggði á sé með þessu frv. hafnað. Í þessu ljósi held ég, virðulegi forseti, að fullyrða megi að öll þau atriði sem nefnd hafa verið hér að framan uppfylli í einu og öllu þau skilyrði sem eignarréttarhugtak stjórnarinnar setur. Ólafur Jóhannesson orðar það þannig í Stjórnskipun Íslands að hér á landi sé löngu viðurkennt bæði af fræðimönnum og í framkvæmd að stjórnarskráin noti orðin eignarrétt og eign í mjög víðtækri merkingu og hvers konar fjárverðmæti séu yfirleitt varin af þessu stjórnarskrárákvæði.

Virðulegi forseti. Ef við horfum aðeins til þessara þátta þá er ekki um það deilt að umrædd fjárverðmæti séu varin af stjórnarskránni. Næsta spurningin er um fyrirvarana sem er að finna í lögunum um stjórn fiskveiða, í 1. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

Í fyrsta lagi: ,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.`` Og í öðru lagi: ,,Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``

Á þessu, virðulegi forseti, má hugsanlega byggja þegar fullyrt er að núv. fiskveiðistjórnarkerfi hafi ekki fært fáum útvöldum eignarrétt á auðlindinni. Í þeirri grein sem ég er með hér og leyfði mér að vitna til áðan heldur lögmaðurinn því fram um fyrri varnaglann sem sleginn er í lögunum um stjórn fiskveiða, þ.e. að nytjastofnarnir séu sameign þjóðarinnar. Þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af þessum athugasemdum virðist einsýnt að ákvæðið er almenn stefnuyfirlýsing löggjafans sem tæplega er ætlað að fela í sér eiginlega réttarreglu. Í ákvæðinu felst sú sjálfsagða stefnumörkun að tilgangur íslenskrar fiskveiðistjórnunar skuli vera sá að nýta fiskstofnana til hagsbóta fyrir þjóðarheildina. Með því að í sömu lögum er mælt fyrir um kvótakerfi í fiskveiðum hlýtur það jafnframt að vera mat löggjafans að minnsta kosti að svo stöddu að með því fyrirkomulagi verði þessum tilgangi best náð. Samkvæmt framansögðu verður þegar að hafna þeim skýringarkosti að með ákvæðinu hafi íslenska þjóðin eða íslenska ríkið fyrir hennar hönd orðið eigandi í skilningi einkaréttar að óveiddum fiski í íslensku efnahagslögsögunni. Væri slík niðurstaða og í ósamræmi við þá meginreglu íslensks réttar að villt og vörslulaus dýr séu ekki háð eignarrétti.``

Með öðrum orðum hafnar hann því alfarið að þetta einstaka ákvæði geti komið í veg fyrir að einkaeignarréttur myndist á aflahlutdeild í íslensku fiskveiðilögsögunni. (Gripið fram í: Atvinnuréttindi geta líka verið varin.) Reyndar. Seinni fyrirvarinn sem er að finna í fiskveiðistjórnarlögunum hljóðar svo:

,,Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``

Það er á grundvelli þessa ákvæðis sem umræddur lögmaður, sem ég hef nokkrum sinnum vitnað til, kemst að þeirri niðurstöðu að líklega gangi þessi fyrirvari langt í að koma í veg fyrir að einkaeignarrétturinn myndist að minnsta kosti á aflahlutdeild. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að það er almennt ekki viðurkennt að löggjafinn einn og sér geti kveðið úr um hvað skuli teljast eign í skilningi stjórnarskrárinnar og hvað teljist varið í 72. gr. hennar. Í umræðunni stendur því upp úr spurningin um hvort það frv. sem hér er til umræðu sé smám saman að ýta réttinum yfir aflaheimildunum í auðlindinni undir ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. um eign og eignarréttindi. Grundvallarspurning sem við stöndum frammi fyrir er kannski hvort smám saman sé verið að festa þessi réttindi í sessi þannig að dómstólar geti vart annað en viðurkennt að þessi þróun sé í áttina að stjórnarskrárvörðum eignarréttindum. Við stöndum frammi fyrir þessu. Ég held að það sé almennt skoðun þeirra sem hér hafa talað í dag og ég hef ekki heyrt að hæstv. fjmrh. sé annarrar skoðunar, að vilji löggjafans sé ekki að festa þessi réttindi þannig í sessi að þau verði varin af eignarréttar\-ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég vildi því taka undir þá tillögu sem hv. þm., Sighvatur Björgvinsson, setti fram hér áðan að í þetta frv. yrði settur einhvers konar varnagli í samræmi við þá varnagla sem er að finna í ákvæðum laga um stjórn fiskveiða. Í ljósi þess að almennt er viðurkennt að löggjafinn geti sett einhvers konar fyrirvara við myndun eignarréttinda er eðlilegt að í þetta frv. verði settur fyrirvari. Sá fyrirvari mundi kveða úr um að þrátt fyrir skattalega meðferð þessara réttinda, eins og hér er stefnt að, skuli sú meðferð ekki verða túlkuð svo að þau geti á síðari stigum nýst til að rökstyðja að eignarréttindi hafi myndast.