Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 15:43:16 (2383)

1997-12-16 15:43:16# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[15:43]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir málefnalegar umræður í þessu máli sem er nokkuð flókið og snýst fyrst og fremst um skattaleg atriði en ekki um prinsippmál er varða kvótann sjálfan. Ég tel fulla ástæðu til að rifja það upp að dómur sá sem mikið hefur verið vitnað til í dag var kveðinn upp með einn hæstaréttardómara í minni hluta. Í áliti hæstaréttardómarans Garðars Gíslasonar kemur fram að hann telur að aflakvótinn rýrni ekki við notkun eða aldur. Hann taldi því skort á lagaheimild til að fyrna aflaheimildir. Ég vildi taka þetta fram af því að það hefur ekki komið fram í umræðunni í dag.

Í öðru lagi þarf í lokin að taka það afar skýrt fram að það er ekki verið að deila um hvort keyptur aflakvóti sé eign eða ekki í skilningi skattalaganna. Það liggur fyrir eftir að dómurinn féll og er regla í íslenskum rétti. Hér er einungis verið að fjalla um afskriftir og fyrnanleika.

[15:45]

Í þriðja lagi finnst mér full ástæða til að nefna nokkuð sem kannski hefur ekki komið nægjanlega skýrt fram hjá hv. þm., þar með þeim sem hér stendur, að ekki má gleyma að með því að aflakvóti myndar eign hjá kaupanda og söluhagnað hjá seljanda framkallast upphaflegur kvóti, sem er dulin eign og kemur ekki fram í bókhaldi, sem eign hjá seljandanum. Þar með er hægt að skattleggja svo talað sé um skattalög í þessu sambandi. Þar er átt við söluhagnaðinn, þ.e. allt það verð sem fæst fyrir kvótann verður söluhagnaður og tekjurnar mynda eign hjá seljanda. Þetta þarf að koma fram.

Loks, virðulegur forseti, vil ég endurtaka það sem sagt hefur verið og ég hef sagt hér í umræðunni í dag. Flutningsmanni gengur það ekki til að styrkja einkaeign eða varanleika kvótans með því frv. sem hér er verið að flytja. Að baki liggja eingöngu skattaleg sjónarmið. Það breytir því hins vegar ekki að eftir því sem kvótakerfið verður lengur við lýði má búast við því að það festist betur í sessi og að 72. gr. stjórnarskrárinnar nái til þeirra réttinda sem þar er fjallað um. Það hefur hins vegar ekkert með þetta sérstaka mál að gera þótt auðvitað útiloki maður ekki að þegar fram í sæki verði smám saman litið á allar lagabreytingar sem varða kvótann og spáð í hver vilji löggjafans sé á hverjum tíma. En það er ekki þetta sjónarmið sem liggur til grundvallar hjá flutningsmönnum heldur eingöngu hið eðlilega skattalega prinsipp að réttindi á borð við aflakvóta sem eyðast ekki við notkun og jafnvel hækka í verði eftir því sem tíminn líður, skuli fyrnd á tilteknum tíma. Þvert á móti er eðlilegt að þau séu færð til eignar í bókhaldi og fyrnist þar með ekki. Þannig væri ekki hægt að telja afskriftir til gjalda í bókhaldinu og lækka þannig hreinar tekjur viðkomandi fyrirtækis.