Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 15:57:27 (2387)

1997-12-16 15:57:27# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[15:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við erum að sjálfsögðu sammála um að skattstofninn hlýtur að vera söluhagnaðurinn. Frá honum dregst kaupverð ef því er til að dreifa. En sé það ekki þá er allt söluandvirðið í raun og veru söluhagnaður eins og það hlýtur að verða gert upp samkvæmt skattalegum reglum. Eftir stendur að það þarf að ræða hvort skattlagningin eigi að vera sú sama og þegar um venjulegan rekstrarhagnað fyrirtækja er að ræða, að frádregnu öllu því sem draga má frá. Hæstv. ráðherra sagði áðan að með þetta ætti að fara eins og í öðrum sambærilegum tilvikum. Gott og vel. En hver eru hin sambærilegu tilvik? Eru þau einhver? Svari hver sem vill. Ég held að hin sambærilegu tilvik séu engin. Við verðum því að nálgast þetta mál sem algjörlega sérstakt fyrirbæri. Verðmæti myndast, óumdeilanlega, í formi aðstöðu þeirra manna sem hafa þennan rétt undir höndum vegna takmörkunar þeirrar sem stjórnvöld hafa séð sig knúin til að innleiða, auðlindinni sjálfri og hagsmunum allra landsmanna til góða. Ætlunin var aldrei að sú takmörkun yrði að einhvers konar verðmætauppsprettu fyrir einn eða neinn, enda tilgangur hennar sá að stjórna fiskveiðum og vernda fiskstofna. Þess vegna finnst mér óhjákvæmilegt að nálgast þetta út frá því að um algjörlega sérstakt fyrirbæri í skattaréttinum sé að ræða. Það þarf að skoða og er alls ekki sjálfgefið að gefa sér þá venjulegu og þægilegu þumalputtareglu að þetta eigi að skattleggja eins og allt annað. Það er ekki svo. Ég tel að eðlileg regla sé að gera söluhagnað sem myndast í þessu kerfi upptækan vegna þess að þar á í sjálfu sér enginn slíkur hagnaður að vera.