Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 15:59:44 (2388)

1997-12-16 15:59:44# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[15:59]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er kannski ekki við því búinn að deila sérstaklega um þetta tiltekna atriði og hefði þurft að kynna mér betur ákvæði skattalaga og mál sambærileg þeim sem hér eru til umræðu. Mig minnir þó að til séu hlunnindi, t.d. sem fylgja bújörðum, álíka forgengileg og sá réttur sem við erum að tala um hér en eru þess eðlis að ekki er hægt að fyrna þau. Ég man ekki betur en að það gildi t.d. um laxveiðiréttindi. Ég hygg að sé á annað borð hægt að losa þau hlunnindi frá jörðunum, sem ég skal nú ekki fullyrða, þá sé farið með söluhagnað þeirra með sama hætti og ég tel eðlilegast í þessu tilviki. Þetta get ég ekki fullyrt en ég hygg að ekki séu til neinar sérreglur þegar um er að ræða ófyrnanlegan rétt eins og við erum að tala hér um í dag. En mér finnst full ástæða til þess fyrir hv. þm. og aðra þá sem eru áhugamenn um þessi efni að fletta því upp eða spyrja þá sem eru sérfræðingar í þessum málum.