Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 16:08:20 (2390)

1997-12-16 16:08:20# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., Frsm. meiri hluta ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[16:08]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Í fjarveru formanns umhvn. mæli ég fyrir um breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, með síðari breytingum, á þskj. 464, 349. mál, frá meiri hluta umhverfisnefndar.

Flm. auk mín eru: Tómas Ingi Olrich, Gísli Einarsson, Árni M. Mathiesen, Kristján Pálsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Vigdís Hauksdóttir.

Á haustþingi mælti umhvrh. fyrir frv. til nýrra laga um hollustuhætti, sbr. 194. mál. Í frv. er gert ráð fyrir stófelldum breytingum á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988. Helstu breytingar eru þessar:

1. Breyting á skipan heilbrigðisnefnda og starfsemi er lýtur að framkvæmd laganna á vegum sveitarfélaga svo sem gjaldskrármálum.

2. Breyting á stjórnskipulagi og starfsemi Hollustuverndar ríkisins.

3. Skýrari línur varðandi útgáfu starfsleyfa og vinnslu þeirra, um kærumál, úrskurðarferli auk annarra atriða.

Ljóst er að ráðrúm gefst ekki til að afgreiða lögin í heild þar sem töluverðan tíma tekur að fjalla um þá þætti sem snerta sérstaklega starfsemi sveitarfélaganna en þau bera ábyrgð á framkvæmd heilbrigðis- og mengunareftirlits í flestum tilfellum. Hins vegar er afar brýnt að taka á ákveðnum þáttum laganna strax. Þeir snerta annars vegar útgáfu starfsleyfa og úrskurðarmál og hins vegar stjórnskipulag og starfsemi Hollustuverndar ríkisins.

Nauðsynlegt er að þessir þættir frv. nái fram að ganga fyrir 1. janúar nk. til þess að taka allan vafa af vegna starfsleyfisútgáfu, kæru og úrskurðarmála og stjórnskipulagi Hollustuverndar. Innan og utan þings hafa verið deilur um hvernig túlka beri ákvæði í lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og ákvæði mengunarvarnareglugerðar sem ófært er að rifja upp. Nauðsynlegt er að í lögum sé skýrt tekið á þessum málum þannig að ekki fari á milli mála um starfsleyfi og hvernig fara skuli með kærumál. Sama á við um úrskurðarnefnd. Af þeim ástæðum er frumvarp þetta borið fram.

Á næstu mánuðum er líklegt að gefin verði út ný starfsleyfi fyrir Sementsverksmiðjuna á Akranesi, Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki, Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi, stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og hugsanlega magnesíumverksmiðju á Reykjanesi.

Á síðustu árum, sérstaklega eftir aðild Íslands að Evrópska efnahagsbandalaginu ... (Gripið fram í: Hvar er það? Evrópska efnahagsbandalagið?) Á síðustu árum, sérstaklega eftir aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, hafa orðið miklar breytingar á starfsemi Hollustuverndar ríkisins. Segja má að nú sé komið á laggirnar nýrri stjórnsýslustofnun, þ.e. stofnun sem annast framkvæmd tiltekinna málaflokka fyrir hönd ráðherra. Með vísan til þess að starfsemi stofnunarinnar er bundin lögum er engin ástæða til þess að hafa sérstaka stjórn yfir stofnuninni. Í frv. er kveðið á um að forstjóri beri ábyrgð á starfsemi hennar gagnvart umhvrh.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir einstökum greinum frv.

Í 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, er kveðið á um setningu mengunarvarnareglugerðar. Í mengunarvarnareglugerð skuli vera: Almenn ákvæði um starfsleyfi um allan atvinnurekstur sem hefur í för með sér mengun. Í reglugerð skulu vera þættir er kveða á um staðarval, mengunarvarnir og rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar.

Lagt er til í 1. gr. frv. að starfsleyfisútgáfa verði óbreytt frá því sem verið hefur frá 1994 og umhvrh. gefi út öll meiri háttar starfsleyfi. Hollustuvernd ríkisins gefur út önnur starfsleyfi sem teljast tæknilega flókin og krefjast sérþekkingar en heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna þau sem eftir standa. Enn fremur eru lögð til skýr ákvæði um hvernig standa skuli að undirbúningi auglýsinga og útgáfu starfsleyfis þegar ráðherra á í hlut. Eins og áður segir er ekki gert ráð fyrir að starfsleyfi sem ráðherra gefur út verði kærð til úrskurðarnefndar.

Í 3. gr. frv. er lagt til að meginhlutverk Hollustuverndar ríkisins verði að annast eftirlit með framkvæmd laganna og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um mál sem falla undir lögin. Eftirlit verður í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna eins og ráð er fyrir gert í sveitarstjórnarlögum. Einnig er lögð áhersla á uppbyggingu heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna. Hollustuvernd ríkisins fer með tiltekið eftirlit svo sem innflutningseftirlit með matvælum, eiturefnum og eftirlit með meiri háttar mengandi starfsemi. Enn fremur er lagt til að Hollustuvernd ríkisins annist umhverfisvöktun. Umhverfisvöktun er ekki sinnt skipulega í dag.

Í 5. gr. er lagt til að hjá Hollustuvernd ríkisins starfi forstjóri skipaður til fimm ára í stað þess að yfir stofnuninni starfi sérstök stjórn, rekstrarlegur framkvæmdastjóri og forstöðumenn með faglega ábyrgð gagnvart stjórn. Þetta er í samræmi við lög um breytta stefnu í rekstri ríkisstofnana, sbr. og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Auk þess er lagt til að úrskurðarhlutverk stjórnar Hollustuverndar verði fellt niður. Það mun enn frekar ýta undir að fella niður stjórn Hollustuverndar ríkisins.

[16:15]

Ábyrgð forstjóra er mikil og snýr beint að umhvrh. Áfram verður stofnuninni skipt í svið undir stjórn forstöðumanna sem bera ábyrgð gagnvart forstjóra. Forstjóri ræður staðgengil sinn úr hópi forstöðumanna.

Í 8. gr. er fjallað um úrlausn ágreiningsmála er rísa um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt heilbrigðissamþykktum sveitarfélaganna. Gert er ráð fyrir að sérstök úrskurðarnefnd fari með málin nema ráðherra hafi veitt starfsleyfi í þeim. Gert er ráð fyrir einu úrskurðarstigi. Samkvæmt þessu skal vísa ágreiningi um framkvæmd laganna, reglugerða og stjórnvalda beint til úrskurðarnefndar. Sú breyting er lögð til í samsetningu úrskurðarnefndar að umhvrh. tilnefni einn fulltrúa í nefndina í stað landlæknis. Eins er gert ráð fyrir að einn lögfræðingur sem uppfylli skilyrði héraðsdómara sitji í nefndinni.

Hér að framan hefur verið farið nokkrum orðum yfir helstu atriði þessa frv. en að öðru leyti er vísað til ítarlegra athugasemda með einstökum greinum. Eftir stendur að fjalla um önnur atriði frv. umhvrh. Það verður gert strax eftir þinghlé og stefnt er að því að frv. í heild taki gildi 1. ágúst nk.