Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 16:40:54 (2393)

1997-12-16 16:40:54# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[16:40]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað alger misskilningur hjá hv. þm. sem ég les saman við ÍGP og mun vera flutningsmaður hér innan sviga að ég hafi verið að gera eitthvað lítið úr flutningsmönnum málsins. Það eru flutningsmenn málsins, virðulegur forseti, sem skýla sér innan sviga með skammstöfunum. Það er ekki mitt verk, það væri alger misskilningur.

En mér þykir heldur leitt að fá ekki neina skilagrein á því hvaða nauðsyn knýr meiri hluta umhvn. til þess að koma með málið fyrir þingið mitt í jólaönnum. Ég hef ekki fengið nokkur rök fyrir því. Flutningsmenn hafa ekki flutt minnstu rök önnur en að einhverjar verksmiðjur eins og magnesíumverksmiðja og Áburðarverksmiðja ríkisins þurfi á starfsleyfi að halda. Hv. þm. sagðist ekki geta upplýst það sem gert var að meginmáli í framsögu hans að úthluta þyrfti nýjum starfsleyfum. Hv. frsm. virðist ekki hafa kynnt sér hvað þar býr að baki. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmenn eins og hv. þm. ÁMM innan sviga, hv. þm. Árni M. Mathiesen, muni eiga auðvelt með að segja okkur fréttir af magnesíumverksmiðjunni sem nefnt var að gefa þyrfti starfsleyfi fyrir. Ágætt væri að fá upplýsingar um það. Við vorum að ræða þessa verksmiðju í sambandi við annað mál fyrr í dag. Kannski þyrfti að fara yfir það efni í ljósi nýlegra samninga austur í Japan áður en farið væri að útvega starfsleyfi til slíks fyrirtækis eða vinna yfirleitt í því. Þetta skýrist væntanlega, virðulegur forseti, þegar svar kemur frá frsm.