Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 17:48:24 (2406)

1997-12-16 17:48:24# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[17:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst út af fyrir sig hæstv. ráðherra vera maður að meiri að viðurkenna að málin væru í hreinni blindgötu og í öngstræti. Það kann að hafa farið fram hjá mér að hann hafi tekið jafnskýrt til orða í sínum fyrri tölum, alla vega heyrði ég það ekki í hinni gagnmerku framsöguræðu 1. flm. Það er auðvitað hroðaleg einkunn fyrir alla aðstandendur og ekki síst hæstv. umhvrh. sem hefur nú setið í því embætti í tvö og hálft ár eða svo, að þurfa að koma hér og viðurkenna að þetta sé allt í hreinum og klárum ólestri og gangi ekki upp og löggjöfin sé ónýt og ekki sé hægt að framkvæma hana og allt sem ráðuneytið hafi verið að styðjast við og reyna að koma hér í gegn og notast við undanfarin missiri sé ónýtt. Það er í raun og veru boðskapurinn. (Gripið fram í). Það er auðvitað sjálfskaparvíti, það er ljóst. Ég held að það verði að kallast það.

Í öðru lagi varðandi starfsleyfin þá er það samt þannig að verið er að fara fram á opna heimild til þess að gefa út ný starfsleyfi, opna fyrir nýja stóriðju. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra og reyndar finnst mér það nú lágmark, ef mönnum dettur það virkilega í hug að afgreiða þetta hér og nú: Væru menn þá tilbúnir að gera þá breytingu sem lágmarkssamkomulagsgrundvöll að þetta yrði skilyrt og bundið við endurútgáfu á starfsleyfum til þegar starfandi fyrirtækja og miðað við óbreytta starfsemi ef einhver slík tilvik eru sem þarfnast úrlausnar fyrir áramót? Ég fékk engin svör við því hvort loka yrði Sementsverksmiðjunni 2. janúar eða Steinullarverksmiðjunni í mars eða eitthvað svoleiðis ef þessi lög næðu ekki fram að ganga. Ég fékk engin svör við því. Ef svo væri þá býst ég við að menn væru tilbúnir til að skoða það hér, a.m.k. mundi ég vera það, að heimilað yrði að framlengja, t.d. tímabundið þangað til að heildarendurskoðun löggjafarinnar væri lokið, starfsleyfi fyrir þegar starfandi fyrirtæki miðað við óbreytta starfsemi, en það væri alveg á hreinu að engu nýju yrði hleypt í gegn. Treystir hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) sér til að svara einhverju til um slíka lausn á málinu?